Stjórnvöld indversku höfuðborgarinnar Nýju-Delí boðuðu í gær stórhertar aðgerðir til að draga úr menguninni, sem byrgir íbúum þar sýn dags daglega, þar á meðal vatnsúðun á götum úti til að binda ryk og bann við brennslu sorps utandyra.

Stjórnvöld indversku höfuðborgarinnar Nýju-Delí boðuðu í gær stórhertar aðgerðir til að draga úr menguninni, sem byrgir íbúum þar sýn dags daglega, þar á meðal vatnsúðun á götum úti til að binda ryk og bann við brennslu sorps utandyra. Ástandið í borginni er sérstaklega slæmt í október og nóvember ár hvert, þegar útblástur ökutækja og reykjarmökkurinn frá logandi eldum festist undir loki hitahvarfa í kólnandi veðri og ekki bæta flugeldar á ljósahátíð hindúa úr skák.

Er ástandið í borginni nú orðið þannig, að ef marka má nýlega könnun meðal borgarbúa þjást um 80 prósent þeirra af þrálátum höfuðverk og öndunarerfiðleikum, enda svifryk í borginni sexfalt það sem stjórnvöld hafa ákvarðað sem heilsuverndarmörk.

Umhverfisráðherra borgarinnar lofaði hátíðlega að hefja eigi síðar en á morgun, fimmtudag, herferð gegn sorpbrennum á víðavangi, sem efnaminna fólk meðal borgarbúa stundar mjög, einfaldlega vegna þess að það losnar ekki við sorpið öðruvísi, auk þess að herða vatnsúðun á götur og draga eftir föngum úr brennslu kola og notkun díselknúinna rafala.