Ný gjaldskrá Íslandspósts fyrir pakkaflutninga tók gildi um mánaðamót. Fréttaflutningur af henni hefur að mörgu leyti verið villandi og ríkisfyrirtækið sjálft hefur ekki lagt mikið upp úr að hafa það sem sannara reynist. Því hefur verið haldið fram að með nýrri gjaldskrá sé vegið að byggðastefnu stjórnvalda, vegna þess að pakkasendingar um lengri veg hækki í verði. Forstjóri Póstsins hefur látið hafa eftir sér að „landsbyggðin [sé] að fara að borga nánast allan reikninginn sem ríkið hefur verið að niðurgreiða fram til þessa.“ Þá hefur Íslandspóstur haldið því fram að nú sé fyrirtækinu „einungis heimilt að viðhafa sömu verðskrá um allt land á bréfum undir 51 grammi.“ Allt er þetta mikill afflutningur. Staðreyndir málsins eru eftirfarandi:
Með nýrri gjaldskrá Póstsins er bundinn endi á ólögmætt ástand, sem hafði staðið í 22 mánuði. Í lok árs 2019, í flýtinum við afgreiðslu þingmála fyrir jólafrí, bætti Alþingi inn í frumvarp til póstlaga ákvæði um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skyldi vera sú sama um allt land. Með öðrum orðum var sú skylda lögð á alþjónustuveitandann, Íslandspóst, að hafa sama verð um allt land, bæði fyrir pakka og bréf. Áður hafði þetta gilt um bréf eingöngu, enda hafði Pósturinn einkarétt á þeirri þjónustu. Líklega hafa þreyttir þingmenn, sem samþykktu breytinguna á frumvarpi samgönguráðherra, ekki munað að í pakkaflutningum hefur Pósturinn haft samkeppni í áratugi.
Þessari lagabreytingu fylgdi enginn áskilnaður um niðurgreiðslu ríkisins á pakkaflutningum út um land. Þvert á móti stóð óhaggað það áragamla ákvæði póstlaganna að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli endurspegla raunkostnað. Því ákvæði, sem á uppruna sinn í evrópskri póstlöggjöf, er einmitt ætlað að koma í veg fyrir undirverðlagningu alþjónustuveitanda, í þessu tilviki Íslandspósts. Niðurgreiðsla ríkisins á póstþjónustu er aðeins heimil í mjög afmörkuðum kringumstæðum, eins og þar sem viðkomandi svæði fengi einfaldlega ekki þjónustu án alþjónustugreiðslna. Það á eingöngu við um mesta dreifbýlið; lífleg samkeppni er í pakkaflutningum á nánast öllum þéttbýlisstöðum á landinu.
Íslandspóstur fór þá leið að ákveða í ársbyrjun 2020 eitt verð um allt land, sem tók mið af sendingarkostnaði innan hverfa á höfuðborgarsvæðinu. Það var augljós undirverðlagning, þar með brot á áðurnefndu lagaákvæði um raunkostnað og gjaldskráin því ólögmæt. Póst- og fjarskiptastofnun, með blessun (eða undir þrýstingi) bæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, úrskurðaði fyrirtækinu framlag úr sjóðum skattgreiðenda út á þessa undirverðlagningu. Sú ákvörðun var líka ólögmæt, eins og Félag atvinnurekenda hefur ítrekað vakið athygli á. Það hvernig ráðuneytin og eftirlitsstofnunin töldu sig þess umkomin að hunza lagaákvæðið sem bannar undirverðlagningu, er til marks um alveg sérstaklega vonda stjórnsýslu. FA bindur enn vonir við að umboðsmaður Alþingis segi álit sitt á því máli – hann hefur gert athugasemdir af minna tilefni.
Breytingin, sem Alþingi gerði á póstlagafrumvarpinu, var sögð gerð í þágu byggðastefnu og jafnræðis. Það hvernig Íslandspóstur og ríkisstofnanir útfærðu hana þýddi hins vegar að ríkið fór með ólögmætum hætti í niðurgreidda samkeppni við fjöldann allan af litlum og meðalstórum fyrirtækjum um allt land, sem stunda flutninga og vörudreifingu. Minni pakkar hurfu einfaldlega úr fraktinni hjá þessum fyrirtækjum af því að þau gátu ekki keppt við ólögmæta gjaldskrá ríkisfyrirtækisins. Það er skrýtnasta byggðastefna sem hefur frétzt af lengi. Að því gefnu að ný verðskrá Póstsins miðist við raunkostnað lögum samkvæmt, er hlutur þessara fyrirtækja réttur á nýjan leik og þannig skotið sterkari fótum undir atvinnurekstur víða um land.
Með lagabreytingu fyrr á þessu ári var Póstinum ekki gert óheimilt að jafna út verð á pakkasendingum. Hann gæti haft sama verð um allt land, eins og t.d. Bónus eða Húsasmiðjan, en það yrði að byggjast á raunkostnaði og mætti því ekki vera niðurgreitt. Póstinum er hins vegar ekki lengur skylt að hafa sama verð um allt land.