Jafnt Agla María Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í baráttu við Kristine Aleksanyan, leikmann Kharkiv, í leiknum í B-riðli Meistaradeildar Evrópu sem fór fram í Kharkiv í Úkraínu í gærkvöldi.
Jafnt Agla María Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í baráttu við Kristine Aleksanyan, leikmann Kharkiv, í leiknum í B-riðli Meistaradeildar Evrópu sem fór fram í Kharkiv í Úkraínu í gærkvöldi. — Ljósmynd/UEFA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meistaradeildin Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu heimsótti Úkraínumeistara Kharkiv í 3. umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í gær. Leikið var á Metalist-vellinum í Kharkiv og lyktaði leiknum með markalausu jafntefli. Bæði lið fengu þar með sín fyrstu stig í riðlinum eftir að hafa bæði tapað fyrir París Saint-Germain og Real Madríd í fyrstu tveimur umferðunum. Þetta var fyrsta stigið sem íslenskt félagslið fær í Evrópukeppni í knattspyrnu.

Meistaradeildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu heimsótti Úkraínumeistara Kharkiv í 3. umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í gær. Leikið var á Metalist-vellinum í Kharkiv og lyktaði leiknum með markalausu jafntefli. Bæði lið fengu þar með sín fyrstu stig í riðlinum eftir að hafa bæði tapað fyrir París Saint-Germain og Real Madríd í fyrstu tveimur umferðunum. Þetta var fyrsta stigið sem íslenskt félagslið fær í Evrópukeppni í knattspyrnu.

Heimakonur í Kharkiv voru öllu sterkari aðilinn í gær. Þær voru talsvert meira með boltann og sköpuðu sér hættulegri færi, þótt þau hafi vissulega ekki verið ýkja mörg, en Telma Ívarsdóttir í marki Breiðabliks var vandanum vaxin þegar á þurfti að halda og þá spiluðu Blikar góðan varnarleik á heildina litið, þar sem Kristín Dís Árnadóttir var gjarna vel staðsett til þess að bægja hættunni frá.

Erfiðleikar í sókninni

Uppleggið hjá Ásmundi Arnarssyni, þjálfara Breiðabliks, hefur verið að láta liðið liggja aftarlega á vellinum og freista þess að beita skyndisóknum þegar það ynni boltann. Ekki er annað hægt að segja en að leikmönnum hafi farist það vel úr hendi að fylgja þessu uppleggi, í það minnsta hvað varnarleikinn varðar, en að sama skapi gekk illa að útfæra skyndisóknirnar. Hér um bil í hvert sinn sem Breiðablik var að komast í álitlega stöðu á síðasta þriðjungi vallarins klikkaði nefnilega eitthvað í ákvarðanatöku og/eða framkvæmd, hvort sem það var fyrsta snerting, sending eða skot.

Fínir möguleikar í Kópavogi

Þrátt fyrir að Kharkiv hafi verið sterkari aðilinn í gær er ekki þar með sagt að úkraínska liðið sé mikið sterkara en lið Breiðabliks. Liðin virðast raunar fremur jöfn að getu og með betur útfærðum sóknum hefðu Blikar hæglega getað stolið sigrinum. Vísast er að einhverju leyti hægt að skrifa það á skort á leikformi hjá Blikum að svo illa gekk að útfæra sóknirnar nægilega vel þar sem síðasti leikur liðsins var gegn Real Madríd á Spáni þann 13. október síðastliðinn.

Með leikinn í gær í farteskinu og góða æfingaviku fram undan ætti ekkert að vera því fyrirstöðu að Blikar nái í góð úrslit í heimaleiknum gegn Kharkiv í 4. umferð B-riðilins á fimmtudaginn í næstu viku. Liðið býr að góðri varnarframmistöðu í Úkraínu í gær og takist Blikum að spila jafn agaðan og þéttan varnarleik og þá og um leið skerpa aðeins á sóknarleiknum eru fínustu möguleikar á að ná í öll þrjú stigin á Kópavogsvelli.

Breiðablik á nú tvo heimaleiki og einn útileik eftir í riðlinum og skiptir þar mestu máli að láta heimavöllinn gilda þar sem heimaleikirnir eru gegn Kharkiv og Real Madríd, en útileikurinn gegn ógnarsterkum Frakklandsmeisturum Parísar Saint-Germain.

PSG með fullt hús stiga

Breiðablik er þrátt fyrir að hafa fengið sitt fyrsta stig í riðlinum enn á botni hans þar sem Kharkiv er með ögn betri markatölu í sætinu fyrir ofan. Á meðan eru PSG og Real Madríd í efstu tveimur sætunum, og virðist það ætla að reynast afar snúið að skáka stórveldunum tveimur í baráttunni um að komast áfram í fjórðungsúrslit Meistaradeildarinnar.

PSG tók á móti Real í hinum leik B-riðilsins í gærkvöldi og þar unnu heimakonur öruggan 4:0 sigur. Marie-Antoinette Katoto kom PSG yfir á 13. mínútu áður en Sara Daebritz tvöfaldaði forskotið skömmu fyrir leikhlé. Í síðari hálfleik skoraði Katoto annað mark sitt áður en Rocio, varnarmaður Real, varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

PSG er með fullt hús stiga, níu, á toppi riðilsins og Real Madríd er í öðru sætinu með sex stig.