Um allt fjármálakerfið hríslast áhrif þess að verðtryggingin spilar sífellt smærri rullu. Lántakendur hafa á síðustu misserum greitt upp verðtryggð lán í gríð og erg með endurfjármögnun þar sem óverðtryggð lán hafa orðið fyrir valinu. Nýir lántakendur hafa sömuleiðis kosið að sækja í óverðtryggða vexti. Hefur þetta gerst samhliða öðrum breytingum á fjármálamarkaði þar sem bankar og lífeyrissjóðir hafa boðið í auknum mæli upp á óverðtryggða fjármögnun, bæði á föstum vöxtum og breytilegum. Þrátt fyrir það hefur verðtryggingin enn áhrif í áhættustýringu bankanna og meta sérfræðingar stofnana á hverjum tíma þá áhættu sem skapast getur á fjárhagsstöðu og sjóðstreymi þeirra eftir því hvernig verðbólgan í landinu þróast. Leitast bankarnir við að draga úr ójafnvægi milli verðtryggðra eigna og skulda en það er þó ekki úr sögunni.
Þannig má sjá að svokallaður verðtryggingarjöfnuður Landsbankans er um þessar mundir jákvæður um 68,3 milljarða króna. Þýðir það að ef vísitala neysluverðs hækkar um eina prósentu þá eykst vaxtamunur bankans um 683 milljónir króna. Það er þó mun minna en verið hefur síðustu ár. Þannig má sjá af reikningum bankans að verðtryggingarjöfnuðurinn stóð í 207 milljörðum í árslok 2016. Þýddi það að við eins prósentustigs hækkun vísitölu neysluverðs jukust vaxtatekjur bankans um 2.070 milljónir króna.