E nn gerir kórónuveiran vart við sig. Hún er þrálát og hefur ekki látið stærstu lyfjarisa heimsins kveða sig að fullu í kútinn. Aðgerðirnar gegn henni hafa þó dregið mjög úr því ægivaldi sem hún hafði yfir heimsbyggðinni allri um nokkurra missera skeið.

E nn gerir kórónuveiran vart við sig. Hún er þrálát og hefur ekki látið stærstu lyfjarisa heimsins kveða sig að fullu í kútinn. Aðgerðirnar gegn henni hafa þó dregið mjög úr því ægivaldi sem hún hafði yfir heimsbyggðinni allri um nokkurra missera skeið. Nú eru það helst þeir sem ekki hafa þegið bólusetningu sem verða fyrir barðinu á henni, þótt það sé ekki algilt.

B aráttan hefur tekið mikinn toll og staðið lengur en bjartsýnar spár gerðu ráð fyrir. Efnahagslegar afleiðingar eru gríðarlegar en einnig félagslegar og þær sem tengjast heilbrigði fólks að öðru leyti. Margt bendir til þess að margir greinist seinna en ella með alvarlega sjúkdóma sem mikilvægt er að bregðast hratt og örugglega við og nýlegar fréttir af Barnaspítala Hringsins benda til að harkalegar sóttvarnir hafi veikt ónæmiskerfi nýjustu borgaranna með þeim afleiðingum að aðrar pestir, veirur og sýklar leggjast nú óvenjuhart á þá sem síst skyldi.

Frá upphafi faraldurs hafa margir bent á mikilvægi þess að vega og meta aðgerðir yfirvalda frá breiðara sjónarhorni en því sem lýtur einvörðungu að kórónuveirunni, jafnvel þótt skaðsemi hennar geti reynst geigvænleg. Stjórnvöld mega ekki grípa til aðgerða sem til lengri tíma litið verða meira íþyngjandi fyrir samfélagið í heild en sú vá sem þeim er ætlað að koma í veg fyrir.

Þrátt fyrir það vill sóttvarnalæknir að enn sé gripið harkalega í bremsuna. Nú er það þriðji skammturinn og jafnvel lyf í töfluformi sem öllu á að bjarga. Allir nema hann sjá að það er hæpið. Og reyndar eru fleiri til sem taka undir þessi sjónarmið. Nú síðast prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands. Á þeim bæ er affarasælast að loka öllu í tvær vikur „og sjá svo til“ hvernig til tekst eins og það var orðað. Í þessari nálgun endurspeglast firring, ekki aðeins gagnvart efnahagslífinu heldur einnig borgurunum sem láta ekki endalaust svipta sig frelsinu, á grundvelli falsvona eða tilraunastarfsemi sem áður hefur brugðist.