Eftirlit Það er einfalt og ódýrt að koma sér upp hlaðvarpi.
Eftirlit Það er einfalt og ódýrt að koma sér upp hlaðvarpi.
Það er engin leið að hafa tölu á öllum þeim hlaðvörpum, sem upp hafa sprottið á Íslandi á síðustu mánuðum.

Það er engin leið að hafa tölu á öllum þeim hlaðvörpum, sem upp hafa sprottið á Íslandi á síðustu mánuðum. Óhætt er að fullyrða að þau skipta hundruðum, enda ódýrt og auðvelt að koma sér upp slíku þingi, til þess að tala út í ljósvakann um áhugamál sín og hlustendanna.

En þeim mun skrýtnara er að fjölmiðlaeftirlit ríkisins, sem raunar kallar sig fjölmiðlanefnd, virðist hafa einsett sér að hlaðvörpin skuli skrásetjast sem fjölmiðlar, sæta gjaldtöku og heyra undir eftirlit og lög þessarar skrýtnu stofnunar, sem raunar hefur ekki gengið of vel að rækja það hlutverk, sem henni er þó ætlað að lögum.

Það má spyrja hver tilgangurinn og lögmætið er með þessari útþenslustefnu fjölmiðlaeftirlitsins. Hvers vegna verið sé að sóa tíma og fjármunum borgaranna í atvinnubótavinnu af þessu tagi. Það má líka spyrja hvort það muni nokkurs staðar láta staðar numið. Enn fremur hvort þessi galskapur sé til nokkurs annars fallinn en að bæla tjáningarfrelsið og draga úr fjölbreytileika íslenskrar menningar og þjóðlífs.

En þá værum við að spyrja rangrar spurningar. Frumspurningin hlýtur að vera hvers vegna verið er að starfrækja eftirlitsstofnun með fjölmiðlum. Má hugsa sér eitthvað óþarflegra og ógeðfelldara í lýðræðisþjóðfélagi?

Andrés Magnússon

Höf.: Andrés Magnússon