Tryggvi Felixson
Tryggvi Felixson
Eftir Tryggva Felixson: "Það ríkir neyðarástand í loftslagsmálum og víða hafa stjórnvöld lýst því yfir. Íslensk stjórnvöld verða að taka undir og fylgja eftir í verki."

Það hefur almennt reynst vel að fara að vísindalegri ráðgjöf þeirra sem gerst þekkja. Allflestar framfarir í samfélagsmálum má rekja til ráðgjafar vísindafólks. Þess vegna er ráðlegt að fylgja ráðlegginum þeirra sem leggja rækt við loftslagsvísindin.

Niðurstöður loftslagsvísinda um ástandið eru á einn veg – það eru að eiga sér stað afar hættulegar breytingar í loftslagi jarðarinnar. Ef ekki verður gerð bragarbót á, og það á allra næstu árum, má heita víst að vistkerfi jarðar umturnist og lífsskilyrði manna versni til muna. Má jafnvel búast við því að mannlegt samfélag, eins og við þekkjum það í dag heyri sögunni til.

Þrátt fyrir þetta heyrast enn úrtöluraddir sem hafna þessum hrakfaraspám. Og svo eru þeir sem trúa að tækniframfarir leysi allan vanda og telja enga þörf á sérstökum aðgerðum. Þessar raddir hafa undanfarna þrjá áratugi staðið í vegi fyrir nauðsynlegum framförum. Því lengur sem það dregst að grípa til aðgerða því hærri verður reikningurinn; reikningurinn sem komandi kynslóðir neyðast til að greiða.

Nú er svo komið að það er neyðarástand í loftslagsmálum. Víða um heim hafa stjórnvöld lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og sama má segja um nýlegt ákall aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalfundur Landverndar kallaði eftir því vorið 2019 að íslensk stjórnvöld lýstu yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Það er enn tímabærara nú.

Forsendur hagsældar bresta

Samkvæmt þeim gögnum sem fram hafa komið hefur meðalhiti jarðar hækkað um liðlega 1 gráðu af mannavöldum undanfarna áratugi. Hækkandi hitastigi hefur fylgt aukin tíðni hættulegs veðurofsa með neikvæð áhrif á náttúru og mannlíf. Svo að segja daglega er sagt frá fréttum af þurrkum og skógareldum, fellibyljum og flóðum. Það stefnir að óbreyttu í tæplega 3 gráðu hækkun fyrir lok þessarar aldar. Við það hitastig mun vandi okkar jarðarbúa margfaldast og stór svæði verða óbyggileg vegna hærri sjávarstöðu. Fylgikvillar ástandsins verða vaxandi straumur flóttamanna, ótímabær dauðsföll, eyðilegging byggða og ófriður. Við getum komið veg fyrir það versta með aðgerðum. Þekking er fyrir hendi. Vilja og samstöðu skortir.

Yfirlýsing um neyðarástand vekur og hvetur

Með því að lýsa yfir neyðarástandi má efla vitund almennings um þá alvarlegu stöðu sem við okkur blasir. Með yfirlýsingunni munu umræður og skilningur aukast og samstaða vaxa um nauðsyn þess að grípa til róttækra aðgerða – aðgerða sem geta haft umtalsverð áhrif á daglegt líf flestra borgara.

Með yfirlýsingu um neyðarástand munu fyrirtæki átta sig á því að stjórnvöldum er alvara; að þess sé að vænta að gerðar verði til þeirra mun meiri kröfur en áður. Fyrirtækjum yrði gert ljóst að tímarnir eru breyttir og þau þurfi að gera raunverulegar breytingar á starfsemi sinni (en ekki bara grænþvott) og aðlagast nýjum aðstæðum. Þá munu fjárfestar beina fjárfestingu frá þeim verkefnum sem ekki samræmast yfirlýsingu um neyðarástand.

Stjórnsýslan taki höndum saman

Yfirlýsing um neyðarástand mun þrýsta á að stjórnsýslan taki höndum saman til að leysa viðfangsefnið, þvert á ráðuneyti og stofnanir. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar yrði uppfærð í samræmi við alvarleika málsins. Mikið skortir á að svo sé í dag.

Með yfirlýsingu um neyðarástand yrðu send skýr skilaboð til umheimsins um að hér á landi séu málin tekin föstum tökum og allur málflutningur stjórnvalda á alþjóðasviðinu yrði trúverðugri.

Stjórn Landverndar hvetur ríkisstjórn Íslands til að lýsa tafarlaust yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.

Höfundur er formaður Landverndar. tryggvi@landvernd.is

Höf.: Tryggva Felixson