Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Eftir Ole Anton Bieltvedt: "Hljómar ekki sannfærandi að veiðimenn bóki ferðir landshorna á milli, jafnvel dýrt flug og kaupi kostnaðarsama gistingu, til að veiða fjórar rjúpur."

Þrátt fyrir að rjúpnastofninn sé nú sá minnsti frá upphafi talninga, 1995, í 27 ár, eru veiðimenn enn komnir á stjá, þökk sínum miklu áhrifum í stofnunum og ráðuneytum og þökk sé uppburðalitlum ráðherra, enda er um minnst 5.000 manna lið að ræða, allt grátt fyrir járnum, og klæjandi í fingurna með það að tæta niður fuglinn. Þjóðarfuglinn.

Bakgrunnurinn

Rjúpnastofninn nú í haust er kominn í algjört lágmark. Talinn vera 248.000 fuglar. Á framanverðri síðustu öld taldist hann allt að fimm milljónir rjúpna, þrátt fyrir allan náttúrulegan ágang, m.a. fálka, refa og sníkjudýra. Með ágangi og veiðum manna var svo komið árið 2002 að hauststofninn var í fyrsta sinn kominn niður fyrir 300.000.

Þáv. umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, framsóknarkona með bein í nefinu, ákvað þá að friða rjúpuna, fyrst í þr jú ár; árin 2003, 2004 og 2005. Árangurinn var sá að stofn rjúpu tvöfaldaðist 2004 og aftur 2005. Hefði friðun haldist áfram, eins og Siv hafði ákveðið, hefði hann eflaust tvöfaldast aftur sumarið 2005 og náð verulegri hæð aftur. En nýr umhverfisráðherra tók við frá Sjálfstæðisflokki, Sigríður Anna Þórðardóttir, sem virðist ekki hafa haft sama skilning á mikilvægi íslenskrar náttúru, því hún gaf eftir fyrir ágangi blóðþyrstra veiðimanna og leyfði veiðar aftur haustið 2005.

Og hvernig stóðu mál vorið 2020?

Aftur var hauststofninn, nú í annað sinn frá upphafi talninga, kominn niður fyrir 300.000. Hefði Siv verið umhverfisráðherra hefði hún eflaust friðað aftur. En illu heilli var umhverfisráðherrann nú Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem á að heita grænn, þó þess gæti fremur lítið, alla vega í dýraverndarmálum. Í stað friðunar ákvað ráherra í fyrra að 5.000 veiðimenn mættu veiða fimm fugla hver: 25.000 fugla. Var sú ráðgjöf komin frá helsta rjúpnasérfræðingi landsins, Ólafi Karli Nielsen, sem reyndar er sjálfur rjúpnaveiðimaður, og þáverandi forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ), Jóni Gunnari Ottóssyni.

Þessi veiðiáform 2020 voru auðvitað út í hött, fimm fuglar á mann, m.a. vegna þess að meðalveiði á mann um árabil hafði verið 12 fuglar. Er þá miðað við uppgefna og skjalfesta veiði, en flestum mun vera ljóst að slíkar skriflegar tilkynningar veiðimanna kunna að vera misgóðir pappírar. Eitthvað af pappírum kann líka að vanta. Enda var svo komið fyrir stofninum nú í vor, 2021, að hann hafði dregist saman um frekari 30%.

Hvernig mat NÍ þessa stöðu?

Nýr forstjóri sem virtist lofa góðu tók við hjá NÍ á þessu ári, Þorkell Lindberg Þórarinsson. Bundu menn vonir við að hann myndi marka nýja og dýravænni stefnu fyrir veiðar villtra dýra enda fána Íslands fábrotin. Það var þó ekki fagnaðarefni að nýr forstjóri hafði sjálfur stundað rjúpnaveiðar.Enda kom á daginn að nýr forstjóri og langtímarjúpnasérfræðingur stofnunarinnar, báðir rjúpnaveiðimenn, lögðu til við ráðherra að veiðar héldu áfram, eins og lítið hefði ískorist, en nú yrðu leyfðar fjórar rjúpur á mann, alls 20.000 fuglar.

Meðferð umhverfisráðherra

18. október mun svo ráðherra hafa fengið þessa gæfulegu sendingu, ráðgjöf frá NÍ, sem mun hafa komið við í Umhverfisstofnun (UST) til umsagnar en UST viðist hafa talið hana faglega ráðgjöf og góða. Umhverfisráðherra væflaðist svo með málið í 10 daga en skoðun undirritaðs er að ráðherra með bein í nefinu og ábyrgðartilfinningu gagnvart lífríki og náttúru Íslands hefði ekki þurft nema dag til að ákvarða friðun. 28. október kom svo ráðherra með þá athugasemd í RÚV-morgunútvarpi að með fyrirliggjandi veiðiráðgjöf mætti reikna með að 32.000 fuglar yrðu drepnir í stað 20.000, eins og tillögugerð NÍ gekk út á. Þetta bil yrði að brúa. Hvernig ráðherra fékk töluna 32.000 fuglar, þegar reiknað var með 5.000 veiðimönum og uppgefinni meðalveiði upp á 12 fugla á veiðimann, er ekki vitað.

Upphlaup rjúpnaveiðimanna

Þegar þessi frétt barst Skotveiðifélagi Íslands runnu tvær grímur á formanninn, Áka Ármann Jónsson, sem reyndar var áður forstöðumaður hjá Umhverfisstofnun – ekki langt á milli – og taldi formaðurinn að fjöldinn allur af rjúpnaskyttum hefði undirbúið veiðar. „Borgað jafnvel fyrir veiðiréttindi og gistingu og allt slíkt,“ hét það. Það hljómar reyndar ekki alveg sannfærandi fyrir heilvita menn að veiðimenn bóki ferðir landshorna á milli, jafnvel dýrt flug og kaupi kostnaðarsama gistingu fyrirfram, til að veiða fjórar rjúpur.

Hefði Salómon orðið órótt í gröfinni?

Því miður kom á daginn að Guðmundur Ingi Guðbrandsson er enginn Salómon. Hans „Salómonsdómur“ til að tryggja að ekki yrðu drepnar 32.000 rjúpur (hvernig sem hann nú komst að þeirri tölu) í stað 20.000, sem ráðgjöf NÍ gekk út á, var að veiðar mættu ekki hefjast fyrr en um hádegi þá 22 daga sem veiða mætti.

Rjúpur fara um saman í pörum eða hópum. Fari veiðimaður til fjalla að morgni og sjái hóp með 6-8 rjúpum um hádegi duga tvö skot, sem flestir hafa í byssunni, til að drepa 4-5 fugla og særa 2-3 sem kynnu að komast undan (og drepast svo úr blýeitrun). Þar með væri veiðiferðin, skv. reglugerð, búin. Venjulegir menn myndu gera sér grein fyrir því að hvort leyfðir séu 22 heilir veiðidagar eða 22 hálfir skiptir engu því veiðimenn þurfi hvort sem er að nota morguninn til að komast á veiðilendur, auk þess sem tvö skot á pör eða lítinn hóp duga til að fylla veiðikvóta.

Það er því hætt við að Salómon konungi hefði orðið órótt í gröf sinni hefði dómur ráðherra borist honum til eyrna.

Höfundur er stofnandi og formaður Jarðarvina.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt