Árni Stefánsson segir að lærdómurinn af faraldrinum sé meðal annars sveigjanleiki og að taka hraðar en vel ígrundaðar ákvarðanir.
Árni Stefánsson segir að lærdómurinn af faraldrinum sé meðal annars sveigjanleiki og að taka hraðar en vel ígrundaðar ákvarðanir. — Morgunblaðið/Eggert
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Húsasmiðjan hefur tekið í notkun sjálfsafgreiðsluapp þar sem hægt er að greiða fyrir vörur, sjá upplýsingar og greiðsludreifa meðal annars.

Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Húsasmiðjan hefur tekið í notkun sjálfsafgreiðsluapp þar sem hægt er að greiða fyrir vörur, sjá upplýsingar og greiðsludreifa meðal annars. Árni Stefánsson forstjóri segir að appið liðki enn frekar fyrir viðskiptum og er stoltur af því að verkefnið hafi alfarið verið unnið af starfsmönnum fyrirtækisins.

Upplýsingatæknin hefur jafnt og þétt orðið sýnilegri viðskiptavinum í verslunum Húsasmiðjunnar um land allt. Fyrirtækið er langt komið í innleiðingu á rafrænum hillumiðum, það rekur öfluga netverslun þar sem bæði er hægt að sækja vörur og fá þær sendar heim og nú síðast kynnti félagið smáforrit þar sem viðskiptavinir geta afgreitt sig sjálfir og sleppt því að fara á kassann.

„Ég tel að við séum að ríða á vaðið á landsvísu í þessum efnum. Sjálfsafgreiðsluappið má þegar nota í öllum Húsasmiðjuverslunum okkar, sextán að tölu,“ segir Árni í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að lausnin byggist á innskráningu með rafrænum skilríkjum en með þeim hætti viti fyrirtækið hver notandinn er. Hann geti þar af leiðandi nýtt sér sín viðskipta- og afsláttarkjör.

„Stóri munurinn á þessu appi og smáforritum þar sem þú verslar án innskráningar með rafrænum skilríkjum er að þarna bæði nýturðu þinna greiðslukjara og sérð auk þess nettóverðið strax. Þá verða öll tilboð samstundis sýnileg.“

Sérð upplýsingar um vörurnar

Í appinu fást líka alls kyns upplýsingar um vörurnar og eiginleika þeirra. „Þú sérð til dæmis hvort varan er umhverfisvottuð eða ekki. Þá er hægt að greiðsludreifa eða sækja um lánaheimild með einu handtaki, ef þú ert til dæmis að kaupa þér stóran ísskáp. Fagmenn geta í gegnum appið skráð kaupin á ákveðin verk og valið um að staðgreiða eða setja í reikning. Þetta er allt 100% rafrænt í appinu. Mannshöndin þarf hvergi að koma nálægt.“

Markmiðið með innleiðingunni er að sögn Árna að bæta upplifun viðskiptavina. „Þetta er mun hraðari leið í gegnum búðina. Og ef þú ert kannski bara að kaupa eina eða tvær vörur getur afgreiðslumaður hjálpað þér að ganga frá kaupunum og fylgt þér beint út.“

Árni segir að Húsasmiðjan sé í sífellu að fækka mögulegum núningspunktum viðskiptavina í kaupferlinu og bæta þannig upplifunina. „Þetta er allt með það að markmiði að þú verðir fljótari inn og út úr búðinni. Við erum nær öll komin með farsíma í hendurnar. Hann er öflugt tæki og nettengingar í verslunum okkar eru orðnar mjög góðar sem gerir þetta allt mögulegt. Að auki er öryggið og dulkóðun gagna og tölvusamskipta orðin nægjanlega traust.“

Tvær milljónir viðskipta

Um tvær milljónir viðskipta renna í gegnum kerfi Húsasmiðjunnar á hverju ári. „Appið fækkar fjölmörgum handtökum starfsfólks sem þýðir að það fær meiri tíma til að veita betri þjónustu og ráðgjöf.“

Spurður að því hvort þróun appsins haldi áfram og hvort fleiri möguleikar verði í boði fljótlega nefnir Árni að appið sé í stöðugri þróun og til dæmis muni innan skamms fylgivörur sjást með vörunum. „Ef þú ert til dæmis að kaupa ákveðna málningu þarftu kannski sérstakan grunn undir. Og ef þú kaupir gasgrill færðu t.d. uppástungu um þá yfirbreiðslu sem passar á grillið eða nýja grillhanska.“

Á bak við allt saman keyrir öflugt upplýsingakerfi sem nýverið var endurnýjað að sögn Árna. „Tölvudeildin okkar þróaði appið þó að fullu frá grunni sem er nokkuð sem við erum stolt af.“

Spurður um reynsluna af notkun appsins segir Árni að á þriðja þúsund manns hafi nú þegar náð í forritið og skráð sig þar inn. „Nú erum við að kynna þetta í búðunum. Á miðvikudag í síðustu viku vorum við með konukvöld í Blómavali. Búðin var nánast full og röð við kassana. Hópur viðskiptavina nýtti sér appið og þar sáum við strax hvernig fólk stytti sér leiðina framhjá kassaröðinni, afgreiddi sig sjálft og vörukarfan fór í einfalt tékk hjá starfsmanni við útidyrnar.“

Netverslun mikið notuð yfir sumartímann

Spurður um þróun netverslunar Húsasmiðjunnar segir Árni að hún hafi tekið mikið stökk í faraldrinum. Hún sé þó enn aðeins lítið hlutfall af heildarviðskiptum fyrirtækisins. „Notkunin er mest yfir sumartímann og svo í tengslum við tilboðsdaga eins og Black Friday og Cyber Monday í aðdraganda jóla. Á stærstu netverslunardögunum hafa verið hundruð pantana.“

Árni segir að einnig verði vinsælla og vinsælla að panta og sækja. Þá eru vörurnar tíndar til fyrir viðskiptavininn sem kemur í búðina og sækir. „Þú getur pantað á netinu og fengið afhent í hvaða verslun okkar sem er, hvar sem er á landinu.“

En er meiri hætta á rýrnun ef viðskiptavinir fara framhjá kassanum?

„Í smásöluverslun er rýrnun stórt viðfangsefni, en við höfum í sjálfu sér ekki meiri áhyggjur af rýrnun í gegnum sjálfsafgreiðsluappið en í gegnum kassasvæðin almennt. Allt byggist þetta á tékkinu þegar þú yfirgefur verslunina,“ segir Árni en rýrnun í smásöluverslun verður bæði vegna þjófnaðar og úreldingar.

„Vörurýrnun okkar á ársgrundvelli getur samtals hlaupið á stórum fjárhæðum Þess ber reyndar að geta að við rekum Blómaval, sem þýðir að við erum með mikið af ferskvöru, blómum og skreytingum og slíku, vörum sem lifa oft aðeins í nokkra daga. Rýrnunin er töluvert minni í grófari vöru eins og timbri og byggingarvörum.“

Árni segir að þegar kemur að því að lágmarka rýrnun skipti miklu máli að vera með góða vörustýringu. „Við þurfum að fylgjast náið með dagsetningu á vörum og tryggja að vörur dagi ekki uppi í hillum verslana eða vöruhúsa.“

Opinberir aðilar sýni ábyrgð

Tal okkar Árna berst nú að kostnaðarhækkunum í samfélaginu. Árni vísar til fréttar í Morgunblaðinu í síðustu viku þar sem fram kom að Sorpa hygðist hækka gjaldskrá sína um rúmlega þrjátíu prósent. „Fyrirtæki á einkamarkaðinum horfa til þess að opinberir aðilar sýni ábyrgð ef halda á verðbólgu niðri. Það gengur ekki að hið opinbera hækki gjaldskrár nánast án mótstöðu og búi þannig til aukinn kostnað í rekstri fyrirtækjanna. Við flokkum hjá okkur sorp og það segir sig sjálft að svona hækkun skilar sér á endanum út í vöruverð.“

Árni segir að þær raddir gerist nú háværari að verslunar- og þjónustufyrirtæki sýni ábyrgð til að koma í veg fyrir verðbólgu. Það sé þó hægara sagt en gert. „Við höfum orðið fyrir geysilegum hráefnahækkunum út af kórónuveirunni, en einnig hafa orðið miklar hækkanir á flutningskostnaði. Það virðist lítið lát ætla að verða á því. Verð gámaflutninga frá Asíu hefur til dæmis allt að fjór- til sexfaldast.“

Spurður að því hvernig Húsasmiðjan mæti þessum erfiða veruleika segir Árni að til lengri tíma skili kostnaðarverðshækkanir sér óhjákvæmilega út í vöruverð, nema það takist að hagræða á móti. „Við höfum náð að einfalda marga ferla og lækka kostnað, en stærri kostnaðarverðsbreytingar skila sér óhjákvæmilega á endanum út í vöruverðið.“

Hann segir að í ákveðnum vöruflokkum hafi framlegð Húsasmiðjunnar lækkað töluvert þar sem fyrirtækið hafi haldið í sér með verðhækkanir. „Okkur hefur í mörgum tilvikum þótt nóg um hráefnishækkanirnar og vonast til að faraldurinn væri að ganga niður. En það er áhyggjuefni hvað það er að gerast hægt og í sumum vöruflokkum alls ekki enn þá.“

Áframhaldandi hækkanir

Hefurðu lagt mat á hversu lengi þessi áhrif muni vara?

„Í fyrra töldum við að þessu yrði lokið að mestu í sumar en nú erum við að sjá áframhaldandi hækkanir og skort í ákveðnum vöruflokkum. Svo hefur það mikil áhrif að hækkanir eru miklar á olíu, stáli og áli, sem speglast í gegnum alla keðjuna.“

Spurður um lærdóm af faraldrinum segir Árni, sem er sá forstjóri Húsasmiðjunnar sem hefur verið lengst í starfi á þessari öld, eða í rúm átta ár, að hann hafi kennt honum margt. „Faraldurinn hefur kennt manni ýmislegt varðandi sveigjanleika og að taka hraðar en vel ígrundaðar ákvarðanir. Svo hefur ástandið bætt fyrirtækjamenninguna að ýmsu leyti, s.s. að nú eru fleiri fundir haldnir á netinu og minni tími fer í ferðalög. Auk þess er búið að rýna alla öryggis-, mannauðs- og verkferla, sem er til bóta. Faraldurinn hefur sett okkur öll upp á tærnar.“

Eins og sagt var frá í ViðskiptaMogganum á sínum tíma var árið 2020 besta árið á síðasta tuttugu ára tímabili þar á undan í rekstri Húsasmiðjunnar. Veltan var tuttugu milljarðar króna það ár. Árni á von á að árið í ár verði jafnvel enn betra, enda hefur verið góður gangur á byggingamarkaði og almenningur hefur haldið áfram framkvæmdum heima við. Þá hafi atvinnuvegafjárfestingin aukist á ný og álverin séu komin af bremsunni.

„Það er til dæmis mikið byggt í Vogabyggðinni, hér í næsta nágrenni höfuðstöðva okkar í Kjalarvoginum. Við njótum góðs af því. Það hefur líka almennt verið meiri söluvöxtur hjá okkur en við gerðum ráð fyrir á árinu. Við sjáum t.d. í tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar að við höfum í ellefu mánuði af síðustu þrettán bætt meira við okkur í markaðshlutdeild en byggingavörumarkaðurinn í heild. Við hljótum því að vera að gera eitthvað rétt og erum mjög þakklát viðskiptavinum okkar.“

Íbúðum á fyrsta byggingarstigi fækkað

Við Árni ræðum nú lóðaskort í borginni, en mikil umræða hefur verið um hann síðustu vikur og mánuði. „Við heyrum frá byggingarverktökum að það standi þeim fyrir þrifum hvað fáar lóðir séu tilbúnar til byggingar á viðráðanlegu verði. Tölurnar tala sínu máli og það er staðreynd að íbúðum á fyrsta byggingarstigi hefur verið að fækka töluvert. Akkúrat núna virðast þær vera of fáar miðað við þörfina á markaðnum.“

Árni segir að þéttingarstefnan sem er rekin í Reykjavíkurborg sé kostnaðarsöm og hækki fermetraverð íbúða. „En svo má vera að til lengri tíma hafi þetta sína kosti, eins og lægra kolefnisspor o.fl. En það er óneitanlega mun dýrara að byggja á þéttingarreitum en í úthverfum.“

Líkt og Árni minntist á hér að framan varðandi ábyrgð opinberra aðila segir hann að þegar fasteignaverð hækkar mikið, eins og verið hefur undanfarin misseri, geti sveitarfélög lækkað álagsprósentu fasteignagjalda til að vega á móti kostnaðarhækkunum. „Samkvæmt nýlegum tölum hafa álögð fasteignagjöld á verslun og þjónustu hækkað um hátt í sjötíu prósent á nokkrum árum. Þetta hefur allt áhrif á verðbólguútreikning. Húsnæðiskostnaður okkar er sem dæmi á annan milljarð króna á ári, þannig að þetta hefur mikið að segja fyrir okkar rekstur.“

Byrja að byggja á Selfossi

Inntur eftir breytingum á næsta ári hjá fyrirtækinu segir Árni að stórglæsileg fimm þúsund fermetra verslun Húsasmiðjunnar við Freyjunes á Akureyri verði opnuð snemma árs 2022. „Við höfum einnig tryggt okkur lóð við Larsenstræti á Selfossi og áformum að hefja lóðarframkvæmdir þar á næstunni en Húsasmiðjan hefur haft mikla starfsemi á Selfossi um langt árabil.“

Á móti komi að tveimur útibúum verði lokað, á Dalvík og Húsavík.

Sjálfbærni stýrir rekstrarákvörðunum

Á stuttum tíma hefur sjálfbærni færst frá því að vera hliðarverkefni í rekstri Húsasmiðjunnar í að vera til umræðu alla daga, eins og Árni útskýrir. Hún sé nú farin að stýra mörgum af stærstu rekstrarákvörðunum félagsins. „Þetta er mjög áhugavert og krefjandi viðfangsefni, sem snertir okkur öll,“ segir Árni.

„Ef við höldum áfram á sömu braut verður ekki lífvænlegt á jörðinni eftir fimmtíu ár. Við þurfum því öll að breyta okkar hugsun.“

Húsasmiðjan skrifaði undir loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, í nóvember 2015. Bygma-samstæðan hefur gefið út samfélags- og umhverfisskýrslu síðan árið 2009. Umhverfismálin eru því augljóslega ofarlega á blaði hjá samstæðunni.

Hafa innleitt fjölda aðgerða

„Við höfum markvisst innleitt fjölda aðgerða í umhverfismálum. T.d. hafa Húsasmiðjan og Bygma um árabil boðið upp á mikið úrval af umhverfisvænum vörum og allt timbur sem Bygma kaupir og Húsasmiðjan selur er t.d. FSC- og/eða PEFC-vottað úr sjálfbærum og umhverfisvottuðum skógum.“

Annað verkefni sem Árni nefnir er flokkun sorps. „Við höfum ekki haft ruslatunnur við skrifborðin á skrifstofunni okkar síðan árið 2014. Í staðinn erum við með eina miðlæga flokkunarstöð og mælum sorplosun á öllum starfsstöðvum.“

Önnur verkefni eru lágmörkun á útsendingu á pappír, en nær allir reikningar eru í dag sendir út rafrænt. Þá er fyrirtækið komið mjög langt að sögn Árna í að taka á móti flestum reikningum á rafrænan hátt.

Ekki má gleyma því að lokum að minnast á hið góða fordæmi sem forstjórinn setur með hjólreiðum sínum, en Árni segist jafnan hjóla um tíu þúsund kílómetra á ári. „Það nálgast að vera álíka vegalengd og ég ek á bílnum mínum árlega. Þetta er hluti af mínu framlagi til loftslagsmálanna,“ segir hann að lokum og brosir.