Með afkvæmum Sara heldur á Jónasi Rafnari en eldri sonurinn Tómas Björn fyrir framan hana. Sara Bóel, yngri dóttir Rakelar, fyrir framan hana, sú eldri, Bjartey Hanna, lengst t.v. og við hlið hennar sonurinn Kristófer Tómas.
Með afkvæmum Sara heldur á Jónasi Rafnari en eldri sonurinn Tómas Björn fyrir framan hana. Sara Bóel, yngri dóttir Rakelar, fyrir framan hana, sú eldri, Bjartey Hanna, lengst t.v. og við hlið hennar sonurinn Kristófer Tómas. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börnum á Íslandi finnst eðlilega skrýtið að lesa um fólk sem mátti ekki sitja þar sem það vildi. Í bókaflokknum Litla fólkið, stóru draumarnir, geta börn fræðst um einstaklinga sem hafa staðið með sjálfum sér.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við viljum að börn nútímans spegli sig í draumum þessa fólks, því einu sinni voru þetta þeirra draumar sem þau létu rætast, hvort sem þau voru vísindamenn, baráttufólk fyrir mannréttindum, íþróttafólk, listafólk eða annað. Börnin sjá í bókunum að þetta er hægt, að þeirra eigin draumar skipta máli og geta ræst,“ segja þær Sara Lind Guðbergsdóttir lögfræðingur og Rakel Lúðvíksdóttir kennari, en þær ásamt eiginmönnum sínum stofnuðu fyrirtækið Stórir draumar, sem gefur út þýddar barnabækur úr bókaflokknum Little People, BIG DREAMS, eða Litla fólkið og stóru draumarnir.

„Þetta er bókaflokkur sem hefur farið sigurför um heiminn, bækurnar hafa verið þýddar á þriðja tug tungumála, enda skemmtilegt fyrir krakka að fá að fræðast um mismunandi einstaklinga sem hafa áorkað miklu í lífinu og sett mark sitt á mannkynssöguna. Börnin komast að því hvað drífur þetta fólk áfram í að láta drauma sína rætast,“ segja þær og Sara bætir við að útgáfa þeirra á bókunum á íslensku eigi upphaf sitt í því að hún og Stefán maðurinn hennar rákust inn í barnavöruverslunina Trotters í London árið 2018.

„Þar sáum við þessar bækur og urðum strax rosalega hrifin og keyptum tvær bækur á ensku. Við töluðum um að þetta væru bókmenntir sem við mundum vilja að væru aðgengilegar fyrir strákana okkar. Við gengum með hugmyndina í maganum í tvö ár, að þýða bækurnar og gefa þær út, og viðruðum það í fyrra við vinahjón okkar, Rakel og Gísla,“ segir Sara Lind og Rakel bætir við að þeim hafi strax litist vel á hugmyndina. „Við höfðum í framhaldinu samband við Mariu Isabel Sánchez Vegara, spænska rithöfundinn og listamanninn sem skrifar þessar bækur, og fengum íslenska útgáfuréttinn. Fyrstu sex bækurnar eru komnar út og næstu sex koma til landsins í febrúar. Bókaröðin inniheldur yfir fjörutíu bækur, svo það er nóg eftir,“ segir Rakel.

Við viljum hafa erfið orð

Þær segjast hafa reynt að gæta jafnræðis þegar velja þurfti hvaða tólf bækur þau ættu að gefa fyrst út.

„Við völdum fólk frá ólíkum löndum heims, frá ólíkum tíma og karla og konur af ólíkum kynþáttum. Yngsti einstaklingurinn og sú sem er næst okkur í tíma er aðgerðasinninn Greta Thunberg, en elstu einstaklingar eru löngu látnir, fólk fætt á nítjándu öld, til dæmis Marie Curie eðlisfræðingur. Við leggjum líka í vali okkar áherslu á dreifingu ólíkra markmiða og drauma þessara einstaklinga, tvö standa fyrir réttindabaráttu afrískættaðra Bandaríkjamanna, þau Martin Luther King Jr. og Rosa Parks, en hin pakistanska Malala Yousafzai berst fyrir því að mega ganga í skóla. David Attenborough er náttúrufræðingur og Steve Jobs var einn þriggja stofnenda Apple.“

Þær segjast í þýðingunni hafa lagt áherslu á að textinn væri ekki um of einfaldaður.

„Við viljum hafa erfið orð og hugtök inn á milli, einmitt til að börnin spyrji um það sem þau ekki skilja. Slíkt eflir orðaforða og fer inn í málvitundina. Þó ekki sé mikill texti á hverri síðu, þá er hægt að spjalla mikið út frá honum og myndunum. Til dæmis um réttindabaráttu þeldökkra. Sjö ára dóttir mín var óskaplega hissa á því að Rosa Parks hefði ekki mátt sitja á ákveðnum stað í strætó og hún þurfti mikið að spyrja og spjalla. Sem betur fer er þetta okkar börnum framandi, en þetta kennir þeim að annað fólk hefur þurft að berjast fyrir því sem okkur finnst sjálfsögð réttindi. Í bókinni um Martin Luther King kemur fram að hann mátti ekki leika heima með vini sínum, sem var ljós á hörund, þegar hann var ungur drengur af því foreldrar vinarins bönnuðu honum að leika við hörundsdökkan dreng. Þetta var svo fjarri dóttur minni að hún hélt að þetta væri skáldsaga en ekki um alvöru fólk sem var til,“ segir Rakel og Sara bætir við að fimm ára sonur hennar pæli mikið í manneskjunum í bókunum.

„Í skóla sonar okkar eru kennarar sem eru hörundsdökkir og honum finnst algerlega galið að fólk með dökkan húðlit hafi ekki mátt sitja þar sem það vildi. Honum fannst líka stórmerkilegt að lesa um Steve Jobs, manninn sem fann upp símana okkar og tölvurnar.“

Þær taka fram að aftast í hverri bók séu ljósmyndir af manneskjunum sem sagt er frá og fyllri texti um lífshlaup þeirra, fyrir eldri krakka og foreldra, til að fræðast nánar um þetta fólk og geta svarað spurningum barnanna.

„Þó ég þekki stóra drætti í sögum þessa fólks sem bækurnar segja frá, þá er þar ýmislegt sem ég vissi ekki. Ég hef lært alveg helling,“ segir Sara.

Kannski líka bók um Vigdísi

Bækurnar eru um afar fjölbreytt fólk og málefni, þar er auk vísindafólks og mannréttindafrömuða, fólk úr listheiminum, tónlistarfólk, rithöfundar, málarar, fólk út tískuheiminum, kvikmyndum, íþróttum og ótal fleiri sviðum samfélagsins.

„Þetta er raunverulegt fólk en ekki skáldað, slíkt fólk er alvöru fyrirmyndir. Við höfum varpað þeirri hugmynd fram við bókaforlagið að skrifuð verði bók um Vigdísi okkar Finnbogadóttur, því hún er brautryðjandi á heimsmælikvarða, fyrsti lýðræðislega kjörni kvenkyns forseti í heimi. Bækurnar kenna börnum að það er þess virði að elta drauma sína, berjast fyrir því sem maður trúir á og standa með sjálfum sér. Þrautseigja er það sem skín í gegnum allar þessar bækur. Þetta hefur því mikið uppeldislegt gildi, auk þess að vera fróðlegt og skemmtilegt,“ segir Rakel sem er grunnskólakennari og bætir við að þær Sara séu að þróa kennsluefni til að nota með bókunum.

„Það er auðvelt að vinna kennsluverkefni út frá þeim, þetta eru stuttar sögur sem opna inn á umræður í hóp. Eins er hægt að finna heilmikið ítarefni um þetta fólk, til dæmis geta kennarar sýnt krökkunum þætti og myndir þar sem David Attenborough fræðir um lífríkið og dýrin. Hann er ástríðufullur og höfðar til krakka,“ segir Rakel og Sara bætir við að strákunum hennar hafi fundist stórmerkilegt þegar hún sýndi þeim dýralífsþætti hans, að þetta væri sami maður og sagt væri frá í barnabókinni.

„Þetta eru líka tilvaldar bækur fyrir eldri börn sem eiga erfitt með lestur, því það er hvetjandi að geta klárað heila bók og verða margs vísari í leiðinni. Þessar bækur eru í raun fyrir alla, líka unglinga, foreldra, ömmur og afa.“

Þær segjast vilja að bækurnar fari sem víðast og því séu þær á viðráðanlegu verði.

„Einnig er hægt að skrá sig í bókaklúbb hjá okkur, þá fær fólk hverja bók á lægra verði. Þetta gengur vonum framar. Við höfum þegar selt hluta af fyrsta upplagi fyrstu sex bókanna þar sem Íslandsbanki gefur sínum ungu viðskiptavinum bækur sem stofna reikning hjá honum. Við erum virkilega stoltar af þessu, þó auðvitað sé þetta mikil vinna, en þegar maður gerir eitthvað af hugsjón, þá verða sporin léttari.“

Nánar á vefsíðunum: storirdraumar.is littlepeoplebigdreams.com