Tæknin á bak við freyðivín á krana er svipuð og þegar bjór er dælt úr tunnu.
Tæknin á bak við freyðivín á krana er svipuð og þegar bjór er dælt úr tunnu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það kann að koma lesendum á óvart að eina af mest spennandi verslunum landsins er að finna í miðbæ Selfoss

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Verslunin Motivo dregur marga gesti að nýja miðbænum á Selfossi. Þar standa vaktina Erla Ólafía Gísladóttir og dóttir hennar Ásta Björg Kristinsdóttir en verslunin hefur öðlast orðspor fyrir sérlega vandað úrval af hönnunarvöru af ýmsu tagi.

Motivo á sér langa sögu og segir Erla að hugmyndin hafi kviknað á árunum fyrir bankahrun þegar millibilsástand var í lífi þeirra mæðgna: „Ásta var atvinnulaus á þessum tíma og var að bíða eftir að komast að sem flugfreyja hjá Icelandair, og vorum við sammála um að það vantaði góða gjafavöruverslun á Selfossi en hér var lítið að finna af þeim þekktu vörumerkjum sem við höfðum mestan áhuga á. Á þessum tíma var ekki mikið af lausu húsnæði en við fundum þó rými á Eyrarvegi 15, og opnuðum þar 70 fermetra gjafavöruverslun í nóvember 2007.“

Skömmu síðar skók öflugur jarðskjálfti svæðið og olli verulegu eignatjóni, og þá kom bankahrunið sem setti hagkerfið allt í uppnám. „En við héldum okkar striki og einu eða tveimur árum eftir stofnun hefur Ásta störf sem flugfreyja og ég segi upp bankastarfi sem ég hafði sinnt meðfram verslunarrekstrinum svo ég gæti haldið betur utan um dagleg störf í Motivo. Ásta var sjaldnar í búðinni en þeim mun duglegri við að nýta ferðlög sín út í heim til að þefa uppi áhugaverðar vörur og merki.“

Formúla sem virkar

Hafa þær Erla og Ásta reynst afskaplega gott teymi og með smekkvísi, vinnusemi og hæfilega varkárni að leiðarljósi hélt Motivo áfram að stækka og dafna. Í apríl 2009 flutti verslunin í stærra rými á öðrum stað í bænum, og þegar nýi miðbærinn var að taka á sig mynd sóttu mæðgurnar um að fá að leggja undir sig 350 fermetra verslunarrými á besta stað.

„Við sáum strax mikla möguleika í þessu húsnæði og tækifæri til að láta verða að veruleika nýstárlega verslunarhugmynd sem Ásta hafði gengið með í maganum. Verslunin samanstendur af tveimur samtengdum húsum og á milli þeirra er að finna lítið kaffihús þar sem við afgreiðum líka freyðivín á krana.“

Í öðrum hluta verslunarinnar má finna kvenfatnað og gjafavöru en í hinum hlutanum nýja deild sem helguð er herrafatnaði, íslenskri hönnun og útivistarflíkum frá Cintamani fyrir karla, konur og börn. Erla segir það hafa verið auðvelt að aðlaga rýmið að hugmyndum hennar og Ástu og ekki nokkur vandi að fá öll tilskilin leyfi til að selja léttvín á kaffihúsinu. „Við höfum hvergi í heiminum séð verslun í þessum dúr, og jafnt innlendir sem erlendir gestir eru gáttaðir þegar þeir koma hingað inn og sjá hvað Motivo hefur upp á að bjóða,“ útskýrir Erla en Ásta hannaði útlit verslunarinnar og allar innréttingar og fékk manninn sinn til að annast smíðina en hann er trésmiður að mennt.

Er ekki erfitt að sjá hvers vegna formúlan gengur svona vel upp: „Nýja búðin höfðar enn betur til karla sem bæði eru hissa á að finna hér gott úrval af fallegum herrafatnaði, en finnst líka gott að geta fengið sér kaffibolla, bjórglas eða sopa af freyðivíni á meðan frúin litast um í versluninni. Allir aldurshópar eru forvitnir um búðina og finna hér eitthvað við sitt hæfi,“ segir Erla.

Kom ekki til greina að gera Motivo að lundabúð

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrsta Motivo-verslunin var onuð og verslunarumhverfið á Selfossi og öllu Suðurlandinu breyst m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Erla segir að það sé himinn og haf á milli þeirra aðstæðna sem ríktu þegar þær mæðgur hófu reksturinn árið 2007 og ástandsins eins og það er í dag. „Við vorum vitaskuld pínu smeykar í fyrstu, og vinnudagarnir gátu verið langir, en smám saman hefur Selfoss sprungið út og við notið góðs af því. Mun fleiri ferðamenn eiga leið um bæinn en Íslendingarnir eru líka duglegir að líta hér inn og t.d. búa margir af okkar dyggustu viðskiptavinum í þeirri stóru sumarhúsabyggð sem hefur orðið til á svæðinu hér í kring. Selfoss á greinilega bara eftir að eflast sem höfuðstaður Suðurlands og ákaflega gaman að sjá hvað nýi miðbærinn hefur fengið góðar viðtökur og vakið almenna hrifningu, svo að heilu vinnustaða- og vinahóparnir gera sér gagngert ferð hingað til að sjá og njóta.“

Það er líka ánægjulegt að svona metnaðarfullur verslunarrekstur skuli geta blómstrað utan höfuðborgarsvæðisins. Erla segir það aldrei hafa komið til greina, þrátt fyrir allan ferðamannastrauminn, að breyta Motivo í svokallaða lundabúð. „Við viljum þvert á móti vera verslun sem fólk tengir við smart vöruúrval, þar sem finna má fallegar vörur fyrir heimilið og fataskápinn frekar en dæmigerða minjagripi sem eru til sölu svo víða. Það hefur reynst okkur best að skapa verslun þar sem viðskiptavinir vita að þeir geta fundið það fallegasta og vinsælasta hverju sinni, með umgjörð sem er eins og best verður á kosið.“

Eru bestu búðirnar á landsbyggðinni?

Mætti jafnvel ganga svo langt að segja að Motivo sé nýjasta dæmið um áhugaverða þróun þar sem forvitnilegar verslanir hafa skotið upp kollinum í minni byggðakjörnum hér og þar um landið. Eru t.d. margir sem sækja alveg sérstaklega í úrvalið í verslunum á Akureyri og nýjar búðir hafa verið opnaðar á Egilsstöðum sem þykja gefa bestu verslunum Reykjavíkur ekkert eftir. Hafa sumir gerst svo kræfir að segja að stundum virðist eins og verslanaflóran á höfuðborgarsvæðinu hafi staðnað enda meira eða minna sömu stóru keðjurnar með útibú í öllum helstu verslanamiðstöðvum og verslunargötum. „Þegar komið er út á land finnur fólk verslanir sem eru spennandi og einstakar, og fyrirhafnarinnar virði fyrir neytendur að taka frá eins og einn dag til að fara í verslunarferð, finna vörur sem er ekki endilega að finna í Reykjavík og njóta þess að upplifa veitingastaði, söfn og menningu. Sjáum við þetta fyrirbæri mjög greinilega hér á Selfossi um helgar, þar sem fólk kemur úr höfuðborginni og þræðir verslanirnar í bænum, og nýtur þess að vera til,“ segir Erla.