Grasasnar Félagarnir Sigurþór Kristjánsson, Halldór Hólm Kristjánsson, Steinar Berg Ísleifsson og Sigurður Bachmann syngja John Prine til heiðurs.
Grasasnar Félagarnir Sigurþór Kristjánsson, Halldór Hólm Kristjánsson, Steinar Berg Ísleifsson og Sigurður Bachmann syngja John Prine til heiðurs. — Ljósmynd/ Ruzena Bendova
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðskífa Grasasna Grasasnar eru Sigurþór Kristjánsson, trommur, söngur; Halldór Hólm Kristjánsson, bassi, söngur; Steinar Berg Ísleifsson, söngur, kassagítar; og Sigurður Bachmann, raf- og kassagítar.

Breiðskífa Grasasna Grasasnar eru Sigurþór Kristjánsson, trommur, söngur; Halldór Hólm Kristjánsson, bassi, söngur; Steinar Berg Ísleifsson, söngur, kassagítar; og Sigurður Bachmann, raf- og kassagítar. Lög og textar eftir John Prine í íslenskri þýðingu Steinars Berg og Bjartmars Hannessonar. Fossatún ehf. gefur út, 2021.

Grasasnar heiðra hér John Prine, meistara amerískrar þjóðlagatónlistar, og þeim tekst bara prýðilega til. Það verður seint sagt að hér séu Grasasnar að bjóða upp á eitthvað framúrstefnulegt eða spennandi. Þrátt fyrir það er platan bara góð og umfram allt er hún það sem hún á að vera – óður til Johns Prines, með heiðarlegu íslensku sveitaívafi.

Mörg lögin á plötunni eru nokkuð vel útsett og þýðing texta Prines ágætlega frágengin. Á öðrum stöðum eru textarnir þó hálfbeyglaðir inn í form þeirra laga sem þeir eru sungnir við svo úr verður ófullnægjandi bjögun á sígildum slögurum Prines. Steinari Berg tekst þó að halda sama yfirbragði yfir textunum og Prine gerir sjálfur með sinni upprunalegu smíð. Þannig skýtur enginn texti skökku við með tilliti til áferðarlegra sjónarmiða og textasmíð Steinars er öll samhangandi. Það læðist jafnvel að mér sá grunur að íslensk tunga sé ekki hentug til þýðingar á sumum lögunum og því verður hrynjandin í nokkrum textum hálfkjánaleg og því ekki við Steinar sjálfan að sakast.

Stundum voru textarnir nefnilega leiðinlega fyrirsjáanlegir og skildu ekki mikið eftir sig, en á öðrum stöðum voru þeir hnyttnir og hittu beint í mark.

Tónlistin og hljóðfæraleikurinn heldur sér þó í gegnum alla plötuna og söngur Steinars, sem er í senn tregafullur og þroskaður, er sannfærandi og rímar vel við viðfangsefni flestra laganna.

Það skín í gegn að Grasasnar hafa John Prine í miklum hávegum og það verður ekki annað sagt en að þessi óður þeirra til hans heppnist vel.

Platan hefur enda verið lengi í smíðum, eins og segir á facebooksíðu sveitarinnar, eða alveg síðan árið 2015. Upphaflega var gert ráð fyrir að platan kæmi út 2016 á sjötugsafmæli Prines. Plötusmíðin dróst þó til ársins í ár og kom platan út á 75 ára afmælisdegi Prines, sem þá var tiltölulega nýlátinn úr Covid-19. Og verkefnið er metnaðarfullt. Bæði var gefin út plata á íslensku og ensku og má nálgast þá síðari á streymisveitum en hin fyrrnefnda var gefin út á vínil.

Til viðbótar við það voru gerð myndbönd við nokkur laganna, sem eru ágæt en fyrst og fremst heiðarleg. Það er kannski það helsta sem Steinar Berg og félagar skilja eftir sig: Þetta er plata til heiðurs manni, gerð fyrir aðdáendur þess sama manns. Platan er því hjartnæm og falleg heiðursplata sem á ekkert að vera annað en bara konfekt fyrir þá sem fíla Prine og rólega þjóðlagatónlist almennt.

Oddur Þórðarson