[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Reitir fasteignafélag hf. hefur með bréfi til Reykjavíkurborgar óskað eftir samstarfi um gerð nýs skipulags og uppbyggingu á lóð nr. 56 við Suðurlandsbraut.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reitir fasteignafélag hf. hefur með bréfi til Reykjavíkurborgar óskað eftir samstarfi um gerð nýs skipulags og uppbyggingu á lóð nr. 56 við Suðurlandsbraut. Á lóðinni er nú 715 fermetra veitingahús sem upphaflega var reist fyrir hamborgarastaðinn McDonalds en hýsir nú veitingastaðinn Metro. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa.

Suðurlandsbraut 56 er 4.039 fermetra lóð í Skeifunni, á horni Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, að því er fram kemur í bréfi Reita. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé mjög lágt eða 0,18. Lóðin er skilgreind á miðsvæði M3a í aðalskipulagi þar sem fyrirhuguð sé uppbygging og umbreyting iðnaðar- og verslunarhverfis í blandaða byggð.

Torg og borgargarður

Lóðarhafi, Reitir, hefur látið vinna staðháttagreiningu og tillögu að nýrri uppbyggingu á lóðinni í samstarfi við Trípólí arkitekta. Um er að ræða tillögu að samgöngumiðuðu skipulagi sem fléttar nýbyggingu og almenningsrými saman við fyrirhugaðar breytingar á Suðurlandsbraut. Tillagan geri ráð fyrir samspili og tengingu við biðstöð borgarlínu og að hringtorg við gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs verði aflagt ásamt aðrein frá hringtorgi inn í Skeifuna. Gert sé ráð fyrir torgrými, borgargarði og 87 íbúðum í tveimur samtengdum 5-7 hæða byggingum auk 1.300 fm af verslunar- og þjónusturými. Stærð íbúðanna verður á bilinu 45-135 fermetrar. Markmið tillögunnar sé að búa til kennileiti, aðdráttarafl og mikilvægan tengipunkt fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eiga leið í Skeifuna.

„Að mati Reita er hér um að ræða heilsteypta tillögu sem sýnir hvernig mætti skapa aðlaðandi borgarumhverfi á mikilvægu horni við nýjan samgönguás. Óskað er eftir samstarfi við skipulagsyfirvöld varðandi tillöguna eða eftir atvikum aðrar útfærslur á skipulagi lóðarinnar,“ segir m.a. í bréfi Reita.

Í greinargerð Trípóli arkitekta kemur fram að gert sé ráð fyrir að stækka lóðina við Suðurlandsbraut 56 til austurs, þar sem hringtorgið var, og til suðurs í átt að Faxafeni 9. Við þetta stækki lóðin um tæplega 2.000 fermetra, eða úr 4.039 fm í 6.220 fm. Nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt rammaskipulagi sé 1,7 og því verði leyfilegt byggingarmagn 10.574 fm.

Vannýtt lóð á frábærum stað

Þá kemur fram í greinargerðinni að lóðin við Suðurlandsbraut 56 endurspegli að vissu leyti ástand Skeifunnar ágætlega. Um sé að ræða vannýtta lóð á frábærum stað með mikla þróunarmöguleika. Nýtt rammaskipulag ásamt bættum almenningssamgöngum á Suðurlandsbraut muni marka þáttaskil í þróun Skeifunnar og nærumhverfis hennar.

Stór bílastæðaplön muni víkja fyrir nýbyggingum, torgum og görðum. Mikil aukning byggingarmagns sé að stórum hluta ætluð til að fjölga íbúðum ásamt því að tryggja þá fjölbreyttu starfsemi sem hverfið sé þekkt fyrir.

Borgarlínan mun stuðla að því að Suðurlandsbraut breytist úr tvístrandi hraðbraut í lifandi borgargötu, sem tengi saman aðliggjandi hverfi í stað þess að mynda gjá þar á milli.

„Byggingin mun slá nýjan tón í byggingarmynstri svæðisins, stórhýsi að evrópskri fyrirmynd sem stendur þétt við götuna og á í virku samtali við næstu nágranna sína,“ segja Trípólí arkitektar meðal annars í greinargerðinni.