Þorvaldur Aðalsteinn Hauksson fæddist í Reykjavík 27. október 1989. Hann lést af slysförum í Kjós 3. nóvember 2021.

Foreldrar hans eru Kristín Hreiðarsdóttir, f. í Reykjavík 20. júní 1967, og Haukur Þorvaldsson, f. í Reykjavík 16. apríl 1964, d. 3. febrúar 2012. Systkini Þorvaldar eru Hreiðar Hauksson, f. 1988, Maríanna Sól Hauksdóttir, f. 2001, Gunnlaugur S. Valtýsson, f. 1998, og Kristbjörg Anna Valtýsdóttir, f. 2000.

Þorvaldur sleit barnsskónum í Hafnarfirði en frá 11 ára aldri ólst hann upp í Vogum á Vatnsleysuströnd. Hann var mikið hjá ömmu og afa í Kjósinni og þar var hugur hans alla tíð. Hann byrjaði snemma að vinna með afa sínum í sveitinni og 17 ára fór hann á sjóinn sem hann stundaði í 13 ár sem háseti og skipstjóri. Síðustu þrjú ár vann hann í landi sem þúsundþjalasmiður, hvort sem það var að mála eða skipta um rafmagnslagnir í traktorsgröfum.Útför fer fram frá Fossvogskirkju 18. nóvember 2021 klukkan 13.

Elskulegur dóttursonur okkar, Þorvaldur Aðalsteinn, lést í bílslysi 3. nóvember sl. skammt frá heimili okkar í Kjósinni. Það er þyngra en tárum taki að skrifa kveðjuorð til barnabarns síns. Foreldrar hans skildu þegar hann var fjögurra ára og má segja að hann væri alinn upp í Kjósinni á bernskuárum sínum, hann var mikið hjá pabba sínum í Kjósinni og hjá okkur ömmu sinni og afa og móður sinni að sjálfsögðu. Ellefu ára gamall flutti hann með móður sinni og manni hennar Valtý Gunnlaugssyni og Hreiðari bróður sínum í Voga á Vatnsleysuströnd.

Þeir feðgar stunduðu mikið hestamennsku og snerist lífið mest um hesta, útreiðar og keppnir. Gekk þeim bræðrum vel á þeim vettvangi á hestum sínum Drífu og Kulda. Það breyttist svo á unglingsárunum og áhuginn dofnaði.

Bræðurnir Hreiðar og Þorvaldur voru mjög samrýndir og yfirleitt báðir nefndir saman. Þeir urðu fyrir þeirri sáru sorg að missa föður sinn árið 2012 og var það mikið áfall. Þorvaldur stundaði sjó í mörg ár, en var farinn að vinna í landi við ýmis störf.

Allt lék í höndum hans og hann gat gert við allt mögulegt. Við afi hans nutum oft góðs af dugnaði hans og vilja til að hjálpa okkur við heyskap og ýmislegt sem til féll í sveitinni. Ég gleymi ekki þegar verið var að setja grindur í fjárhúsin hjá okkur þegar hann var sjö ára. Hann var allan daginn úti með pabba sínum og afa í kuldagallanum sínum í 12 stiga frosti og fékk að hafa sinn hamar og spýtu til að negla í. Það kom snemma í ljós dugnaðurinn og eljan.

En nú er komið að kveðjustund og söknuðurinn er mikill, mest frá móður hans og systkinum. Við biðjum Guð að styrkja þau og styðja á erfiðum tímum fram undan. Sendum batakveðjur til vinar hans, sem var með honum í þessari ferð, og biðjum Guð að styðja hann á erfiðum tíma.

Elsku Þorvaldur, hafðu þökk fyrir allt og allt elsku vinur og barnabarn. Þín amma og afi í Kjósinni.

Ásta og Hreiðar.

Nú þegar Þorvaldur Aðalsteinn Hauksson bróðursonur minn hefur kvatt svo skyndilega og svo ótímabært vil ég minnast hans nokkrum orðum.

Í minningunni voru það bjartir tímar þegar þeir bræðurnir, Þorvaldur og Hreiðar, rúmu ári eldri, voru að komast á legg. Þeir voru uppátækjasamir fjörkálfar og gaman var þá að fá að eiga svolítinn þátt í lífi þeirra. Þeir bræðurnir voru frá því fyrsta mikið í sveitinni hjá Ástu ömmu sinni og Hreiðari afa á Grímsstöðum og nutu þar mikils ástríkis og urðu gegnheilir og glaðir sveitamenn. Í beinu framhaldi hófu þeir svo snemma að stunda hestamennsku með Hauki föður sínum, og voru ekki háir í loftinu þegar þeir voru farnir að þjálfa hesta og keppa í reiðmennsku og náðu oft árangri sem eftir var tekið.

Þegar við Guðrún fluttum að Minna-Mosfelli varð Þorvaldur vinnustrákur hjá okkur um tíma. Hann hafði þá með sér keppnishestinn sinn, hvítan og gljástrokinn, og lagði mikla áherslu á að sinna honum óaðfinnanlega. Stundum þótti honum nóg um hvað við heimamenn áttum til að bjóða okkar hestum í hraða og ógreiðfærum leiðum og íhugaði þá jafnvel hvort þetta væri boðlegt hestinum hans hvíta. Þetta voru góðar og skemmtilegar samverustundir og hafa síðan verið rifjaðar upp þegar tækifæri hafa gefist.

Svo leið tíminn fram með breytingum og umróti. Þar kom að foreldrarnir skildu og bræðurnir fluttu suður með sjó með móður sinni. Unglingsárin fóru í hönd með breyttum hugðarefnum; margháttuð reynsla safnaðist í sarpinn, vík breikkaði milli vina og samfundir urðu strjálli. Bræðurnir hófu að stunda sjómennsku þegar aldur leyfði, og hafa síðan haft fiskveiðar á smábátum víða um land sem aðalatvinnu, en einnig ýmis störf í landi í ígripum. Alltaf var gaman að hittast og brosin eftirminnileg.

Skjótt hefur nú sól brugðið sumri, og í einni svipan er Þorvaldur Aðalsteinn frændi hrifinn frá okkur. Eftir sitjum við hnípin með sorg í hjarta.

Föðurfjölskyldan flytur Kristínu, systkinunum, ömmu og afa og öðrum ættingjum og vinum innilegustu samúðarkveðjur, og þakkar frænda fyrir það sem hann var okkur öllum.

Valur Steinn Þorvaldsson.

Elsku besti Toggi, ég hef alltaf sagt það, þú ert bestur. Ég kynntist Togga fyrst fyrir um tveimur árum. Ég var símalaus og niðurdregin. Hann hringdi á bíl fyrir mig til Reykjavíkur og á heimleiðinni fékk ökumaðurinn sem þekkti Togga ekkert skilaboð frá honum: „Viltu segja stelpunni hvað hún er falleg þegar hún brosir.“ Svo áttum við eftir á búa til ótalmargar góðar minningar saman. Toggi var alltaf góður, skilningsríkur og þolinmóður við mig. Mér leið alltaf öruggari í kringum hann. Þegar honum fannst „ekki galin hugmynd“ að ég tæki mig á fór ég og gerði það, ég hlustaði alltaf á hann enda var hann bæði gáfaður og skynsamur. Ég byggði upp líf mitt eftir að við kynntumst. Hann sagði oft við mig hvað hann hefði mikla trú á mér (eitt það fyrsta og allra síðasta sem hann sagði við mig). Ég var þess vegna alltaf að reyna að sanna mig meira og meira fyrir honum og já, ég hélt ég hefði allt lífið til þess. En ég trúi því að við hittumst í því næsta. Toggi var ótrúlega duglegur, einstakur, sniðugur, klár, hnyttinn, fyndinn og fjallmyndarlegur fallegur töffari. Toggi minn, ég held áfram að standa mig, mun sakna þín og minnast þín alla ævi. Við áttum einstakt og náið samband og ég er svo þakklát fyrir spjallið sem við áttum rétt fyrir andlát þitt. Hvíldu í friði elsku besti. Ég sendi fjölskyldu og vinum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Snædís Ylfa Sveinsdóttir.