Hvernig verður fargjaldaþróunin ef borgarlínan kemur?

Seint verður sagt að formaður Félags eldri borgara, Helgi Pétursson, hafi klappað fyrir nýjum greiðslukortum Strætó bs., sem af ókunnum ástæðum heita Klapp. Formaðurinn benti á það sem Strætó hafði láðst að greina frá í kynningu sinni á nýjunginni, að henni fylgdi 60% hækkun fargjalda fyrir eldri borgara.

Þessi óhóflega hækkun fargjaldanna er þó fjarri því að duga til að bjarga rekstri Strætó því að félagið er rekið með halla þrátt fyrir háa styrki frá ríkinu og sveitarfélögunum sem að því standa. Þessir styrkir námu á fyrri hluta ársins rúmum þremur milljörðum króna, eða um fjórum krónum af hverjum fimm sem skiluðu sér í kassa fyrirtækisins. Þetta þýðir með öðrum orðum að jafnvel yfirgengileg hækkun fargjaldanna hefur sáralítið að segja um rekstrarlega stöðu Strætó þó að hún komi illa við pyngju aldraðra.

Þessi gríðarlegi hallarekstur hlýtur að vera umhugsunarverð staðreynd þegar á sama tíma eru uppi áform um að stórauka kostnaðinn við almenningssamgöngur án þess að nokkuð bendi til sérstaks ávinnings, nema síður sé. Væri ekki nær að nota eitthvað af þeim viðbótarmilljörðum sem annars er áformað að setja í svokallaða borgarlínu til að halda fargjöldum hóflegum innan núverandi kerfis? Eða er ætlunin að fargjöldin hækki enn frekar með þeim dýra kosti sem borgarlínan er? Hvaða áhrif ætli það muni hafa á notkunina?