Vinsæll Fjöldi ferðamanna skoðar Seljalandsfoss á hverju ári.
Vinsæll Fjöldi ferðamanna skoðar Seljalandsfoss á hverju ári. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Mikil þörf er á uppbyggingu við Seljalandsfoss til að tryggja öryggi ferðamanna. Þá er bæði þörf á að byggja upp stígakerfi, útsýnispalla og handrið en einnig að byggja upp varnir gegn grjóthruni.

Mikil þörf er á uppbyggingu við Seljalandsfoss til að tryggja öryggi ferðamanna. Þá er bæði þörf á að byggja upp stígakerfi, útsýnispalla og handrið en einnig að byggja upp varnir gegn grjóthruni. Úrbóta er einnig þörf við fossinn Gljúfrabúa, sem er skammt frá Seljalandsfossi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í hættumati á ferðamannastöðum í Rangárþingi eystra. Skýrslan var unnin af Guðrúnu Guðjónsdóttur, nema í umhverfisfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnið í samvinnu við sveitarfélagið. Fjallað er um Skógafoss, Seljalandsfoss, Gljúfrabúa, Gluggafoss og Landeyjasand, en fyrstnefndu staðirnir eru meðal mest sóttu ferðamannastaða á landinu.

Ekki tilkynnt um grjóthrun

Vinsælt er að ganga á bak við Seljalandsfoss og segir í skýrslunni að ætla megi að þeir gestir sem gangi á bak við fossinn geri sér á engan hátt grein fyrir þeirri hættu sem er á grjóthruni úr bergveggnum. „Þrátt fyrir að staðkunnugir hafi vitneskju um að grjóthrun sé nokkuð algengt við Seljalandsfoss er það almennt ekki tilkynnt formlega,“ segir í skýrslunni.

Meðal tillagna til úrbóta má nefna skilti sem bendi á hættur, varanlegar tröppur og bætt aðgengi með betri göngustígum, útsýnispalla, ábendingar um grjóthrunshættu, reipi eða keðjur til stuðnings, aðgerðir til að verja fólk gegn hruni úr bergveggnum og að hindra för fólks um efri brún fossins vegna hættu sem skapast fyrir fólk sem er fyrir neðan.

Síðastliðinn áratug hefur tæplega 20 milljónum verið varið úr Framkvæmdasjóði ferðamanna til uppbyggingar innviða við Skógafoss. Þessar framkvæmdir hafa leitt til þess að dregið hefur verulega úr hættu þar. aij@mbl.is