Friðrik Jóhannsson fæddist á Siglufirði 29. nóvember 1950. Hann lést á heimili sínu, Hlíðargötu 8 á Akureyri, 7. nóvember 2021.

Foreldrar Friðriks voru hjónin Jóhann Hauksson sjómaður, f. 7.6. 1929 á Akureyri, d. 18.12. 2011, og Sigríður Hermanns húsmóðir, f. 17.7. 1926 í Vestmannaeyjum, d. 18.8. 2017. Systkini Friðriks voru Sólveig Margrét, f. 9.3. 1954, Haukur, f. 20.7. 1955, d. 6.11. 2009, Ásta, f. 15.12. 1956, og Guðrún Birna f. 28.9. 1962.

Árið 1971 giftist Friðrik eftirlifandi eiginkonu sinni, Eygló Björnsdóttur, f. 19.10. 1951 í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru: 1) Gunnlaug Elísabet, f. 3.3. 1971, maki hennar Daníel Freyr Jónsson, f. 16.6. 1971. Þeirra börn eru: Dagur Arinbjörn, f. 10.2. 1992, og Valtýr Kári, f. 17.7. 1996. 2) Björn, f. 30.11. 1976, sambýliskona hans Anna Lára Gísladóttir, f. 28.4. 1979. Þeirra börn eru Tanja Rut, f. 14.6. 2005, og Aníta Sif, f. 11.8. 2012. 3) Jóhann, f. 17.10. 1985, maki hans Arna Dögg Tómasdóttir, f. 25.3. 1987. Þeirra barn er Tómas Haukur, f. 18.8. 2018.

Friðrik ólst upp á Akureyri og stundaði þar ýmis störf að loknu gagnfræðaprófi. Tvítugur að aldri fluttist hann til Vestmannaeyja og stundaði sjómennsku fyrstu árin. Að loknu eldgosinu í Eyjum 1973 hóf hann nám í húsasmíði sem hann lauk árið 1977. Hann starfaði við þá iðn út starfsævina.

Útför Friðriks verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 18. nóvember 2021, og hefst klukkan 13.

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi minn er dáinn og minningar um hann hafa yljað mér og mínum um hjarta síðustu daga. Það var alltaf eins og að hlusta á dramatíska skáldsögu þegar Sirrý föðuramma mín rifjaði upp daginn sem hann fæddist, í aftakaveðri heima hjá Göggu frænku á Siglufirði. Þau mæðginin voru bæði nær dauða en lífi þegar hann leit loks dagsins ljós með naflastrenginn margvafinn um hálsinn. Eftir skamma dvöl í Vestmannaeyjum og á Siglufirði bjó fjölskyldan nær allan hans uppvöxt í Oddeyrargötu 8 á Akureyri. Þar ólst hann upp með fólki sem hafði lífsviðurværi og yndi af náttúrunni, bæði til sjós og lands. Margar sögur sagði hann okkur af veiðimennsku og siglingum hér í Eyjafirðinum en einnig af ævintýralegum ferðum með vinahópnum í skátaflokknum sem greinilega voru honum dýrmætar stundir í endurminningunni.

Í gegnum uppeldi okkar systkinanna fannst mér skína í gegn heilbrigt viðhorf hans til þess að njóta en jafnframt nýta vel það sem náttúran og nærumhverfið hafði upp á að bjóða og vel þekkt var að honum þótti óþarfi að leita langt yfir skammt þegar kom að ferðalögum. Hér í firðinum var endalaus fegurð og ferskt loft sem hann átti erfitt með að finna í hitasvækju og fólksmergð í útlöndum, þótt hann hafi reyndar farið og haft gaman af að spreyta sig á að sigla eftir ám og síkjum Bretlandseyja og við strendur Grikklands. Hann var sáttur við allt það sem lífið hafði boðið upp á og tjáði þeim sem heyra vildu að hann hefði sannarlega skilað sínu með dyggum stuðningi eiginkonunnar sem hann dáði og elskaði alla tíð. Hann var stoltur af henni, börnunum sínum, tengdabörnum og barnabörnum og hvatti okkur við hvaðeina sem við tókum okkur fyrir hendur. Hann spurði alltaf um nám og tómstundir og sérstaklega hafði hann gaman af að fylgjast með Degi og Kára þegar þeir tóku þátt í starfi siglingaklúbbsins Nökkva, enda voru skútur, segl og bátar hans helsta áhugamál síðustu árin. Líklega naut hann sín þó best þegar hann gat haft mömmu og okkur hin nálægt sér í rólegheitunum heima eða í Sandvík, með bátana, verkfærin og pípuna innan seilingar og allir voru að dunda sér við eitthvað úti og inni þar til sest var að góðri máltíð með spjalli og spaugi, vongóður um að geta lagt sig á eftir og dottað aðeins, aldrei þessu vant. Ég mun ætíð hugsa með söknuði til pabba, sérstaklega þegar ég tek fram borvélina og stússast í smíðaverkefnum, borða önd og gæs og fisk með kokteilsósu, keyri hægt eftir þjóðvegum landsins og afþakka tjaldútilegur. Ég get þakkað í huganum fyrir alla þolinmæðina og þrautseigjuna sem hann sýndi í gegnum tíðina, fyrir að kenna mér að prjóna og nota verkfæri og kunna að meta gott handverk, fyrir að lesa Snúð og Snældu og allar hinar sögurnar og sleppa aldrei neinu úr textanum þótt það væri orðið áliðið, fyrir öll húsgögnin og innréttingarnar sem hann smíðaði, fyrir flugeldaskemmtunina um hver áramót, fyrir gælunafnið „stúfan mín“ og fyrir samveruna og allar ferðirnar og sögurnar sem hann gaf mér hlutdeild í. Takk fyrir allt pabbi minn.

Gunnlaug Elísabet Friðriksdóttir.