Valgerður Sigurðardóttir
Valgerður Sigurðardóttir
Eftir Valgerði Sigurðardóttur: "Grunnþjónustan okkar á alltaf að ganga fyrir, ekki bara rétt fyrir kosningar."

Nú er klukkan korter í kosningar og það má heldur betur sjá á þeim ákvörðunum sem teknar eru í ráðhúsinu í Reykjavík þessa dagana. Það var hálfkjánalegt að horfa á oddvita meirihlutans tilkynna brosandi út að eyrum þá ákvörðun að 25 til 30 milljörðum yrði á næstu fimm til sjö árum varið í viðhaldsmál. Núverandi meirihluti hefur lengi trassað viðhald á skólahúsnæði í borginni, sama fólkið og hefur tekið á málefnum Fossvogsskóla á þessu kjörtímabili. Frumáætlun sýnir að kennsla í fullbúnum Fossvogsskóla hefst ekki fyrr en í ágúst 2023, í því máli var talað um móðursýki. Í Laugarnesi og Langholtshverfi eru foreldrar orðnir langeygir eftir lausnum enda er fjöldi barna í hverfinu mikill. Aðgerðaleysi hefur ríkt gagnvart þeim vanda og engar lausnir vegna hans komið á kjörtímabilinu.

Málunum bjargað á næsta kjörtímabili

Nú á að framkvæma á næstu fimm til sjö árum; vitað var í upphafi þessa kjörtímabils að víða var þörf á úrbótum en í þær var ekki ráðist heldur á að fara í þær á næsta kjörtímabili. Grunnþjónustan okkar á alltaf að ganga fyrir, ekki bara rétt fyrir kosningar þegar gefin eru loforð um mörg góð mál sem svo ná ekki fram að ganga. Þess vegna er þessi ákvörðun mjög ósannfærandi. Það er líka undarlegt að berja sér á brjóst og segja líkt og borgarstjóri gerði að hér væri verið að gefa skýr skilaboð um að þetta myndu verða forgangsmál hjá borginni á næstu árum. Það þarf ekki að rifja upp fyrir Reykvíkingum að Dagur B. Eggertsson var fyrst kosinn til starfa í borgarstjórn árið 2002 og hefur setið sem borgarstjóri frá 2014. Borgarstjóri starfar líkt og framkvæmdastjóri í fyrirtæki. Það er undarlegt að ekki hafi verið spurt hvers vegna þessi gríðarlega viðhaldsþörf er komin, það er jú vegna trassaskapar. Viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi og því fer sem fer. Þessi loforð eru ekki traustvekjandi; þau eru frá meirihluta sem hefur haft nægan tíma og peninga til að grípa inn í og taka á heimatilbúnum viðhaldsvanda því tekjur borgarinnar hafa slegið met ár frá ári á þessu kjörtímabili.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.