Iðnaðarmenn Jáverks að störfum. Húsnæðið þykir mjög vandað og almenn ánægja með útkomuna.
Iðnaðarmenn Jáverks að störfum. Húsnæðið þykir mjög vandað og almenn ánægja með útkomuna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Passa þurfti upp á ótal ómissandi smáatriði við byggingu húsaþyrpingarinnar í nýja miðbænum á Selfossi

Það var við hæfi að Jáverk yrði fyrir valinu sem aðalverktaki framkvæmda á nýja miðbæjarsvæðinu á Selfossi, enda heimavöllur þessa rótgróna fyrirtækis. Sigrún Melax er gæðastjóri Jáverks og fylgdist náið með verkefninu til að tryggja að allt væri í samræmi við ströngustu kröfur.

Varla þarf að koma lesendum á óvart að það kallaði á mjög vönduð vinnubrögð að gefa nýja miðbænum upprunalegt útlit margra glæsilegustu húsa sem Ísland hefur átt og fékk Jáverk sína hæfustu smiði til að huga að hverju minnsta smáatriði. Þá varð úr að haga framkvæmdinni þannig að húsin gætu fengið Svansvottun og segir Sigrún að fyrir vikið hafi þurft að gæta sérstaklega að efnisvali og tryggja að hönnun og frágangur væri í samræmi við mjög stranga sjálfbærni- og gæðastaðla.

„Svansvottunin gerir m.a. skýra kröfu um að öll byggingarefni sem notuð eru séu laus við eiturefni, en staðallinn tiltekur líka að öll rými hafi t.d. hljóðvist og birtu við hæfi. Er markmiðið bæði að gera byggingaframkvæmdir sjálfbærari en líka að búa til betra húsnæði þar sem fólki finnst gott að lifa og starfa,“ útskýrir Sigrún.

Gott loft og góð birta

Byggingavöruverslanir hafa lagt töluverðan metnað í að tryggja gott framboð af vörum sem nota má í svansvottuð hús og segir Sigrún að það hafi í flestum tilfellum ekki reynst svo flókið að finna rétta byggingarefnið og halda fullnægjandi skrár og skýrslur. „En vottunin snýr líka að hönnun húsanna og ýmsum hagnýtum þáttum er varða innivist. Til dæmis er mikið lagt í allan frágang til að koma í veg fyrir raka og myglu og í öllum húsunum eru loftskiptikerfi sem blása inn lofti sem hitað er upp með loftinu sem er blásið út. Með þessu viðhelst yfirþrýstingur í húsunum svo að veggir draga síður í sig raka utan frá sem aftur minnkar líkurnar á rakaskemmdum og myglu,“ segir Sigrún og bætir við að í nýjum húsum verði ekki komist hjá útgufun efna frá byggingarefnum. „Rannsóknir hafa sýnt að magn eiturefna í innilofti í svansvottuðum húsum er miklu minna en í hefðbundnu húsnæði.“

Svansvottunin kemur líka inn á kolefnisspor framkvæmdanna og munar þar mest um hvers konar steypa er notuð. „Á þessu stigi framkvæmda hefur umhverfisvænni steypa hjálpað okkur að minnka kolefnissporið um hér um bil 170 tonn af koltvísýringi sem jafngildir útblæstri nærri 50 bíla í heilt ár.“

Byggðin í miðbæ Selfoss er fyrsta Svansvottaða byggingarverkefni Jáverks. Sigrún segir að það geti verið átak og fyrirhöfn að fylgja staðlinum í fyrsta skipti en komist fljótt upp í vana og verði auðveldara með hveju nýju vottuðu verkefni sem fyrirtækið ræðst í. Að fara svansvottuðu leiðina hefur í för með sér viðbótarkostnað en á móti kemur að eigendur og notendur húsnæðisins hafa mun betri vissu fyrir gæðum þess. „Okkar upplifun er sú að sá kostnaður sem bætist við skili sér allur í auknum gæðum, og Svansvottunin ávísun á að húsnæðið muni endast vel og ekki kalla á dýrar viðgerðir seinna meir og lækka orkukostnað. Er útkoman sú að þegar litið er til heildarlíftíma fasteignarinnar er Svansvottun að leiða til sparnaðar,“ útskýrir Sigrún og bendir á að það þurfi því ekki að koma á óvart að Svansvottun byggingaframkvæmda sækir hratt á í hinum norrænu ríkjunum. ai@mbl.is