„Við þurfum að styðja við bakið á félagsþjónustunni og efla skólastarfið í samræmi við fólksfjölgunina,“ segir Gísli Halldórsson bæjarstjóri.
„Við þurfum að styðja við bakið á félagsþjónustunni og efla skólastarfið í samræmi við fólksfjölgunina,“ segir Gísli Halldórsson bæjarstjóri. — Morgunblaðið/Eggert
Hagstætt húsnæðisverð, gott skólakerfi og öflugt íþróttastarf eiga stóran þátt í fjölgun íbúa

Hljóðið í Gísla Halldórssyni bæjarstjóra er gott enda virðist mikið uppgangsskeið hafið í Árborg. Gísli settist í bæjarstjórastólinn árið 2018 og var þá nýhafin sprenging í fólksfjölda á Selfossi og nágrannabyggðum. „Sveitarfélagið hafði verið í hrungírnum alveg fram til 2018, en á árunum 2016 til 2017 sjáum við fyrstu merki um viðsnúning og vaxandi fólksflutninga í héraðið og rákum okkur á að við værum að verða uppiskroppa með tilbúið deiliskipulag til að geta tekið á móti öllu þessu fólki. Hefur yfirstandandi kjörtímabil ekki síst verið nýtt til að klára skipulagsverkefni og ráðast í gatnagerð og aðrar framkvæmdir sem nauðsynlegar eru svo að sveitarfélagið geti vaxið.“

Tvær Teslur fyrir mismuninn

Reiknast Gísla til að íbúum Árborgar hafi fjölgað um á bilinu 5-7% árlega undanfarin ár. Á síðasta ári mældist fjölgunin 4% sem einkum má rekja til þess að skortur var á nýju húsnæði, og á þessu ári gæti talan verið í kringum 4-5%. Gísli segir innviðina ráða vel við þessa fjölgun en sveitarfélagið megi ekki sofna á verðinum: „Við þurfum að styðja við bakið á félagsþjónustunni og efla skólastarfið í samræmi við fólksfjölgunina. Okkur hefur tekist vel að leysa það verkefni af hendi og fáum fulltrúa annarra sveitarfélaga í heimsókn til okkar til að fræðast um hvernig við tókumst á við áskorunina.“

Með opnun nýja miðbæjarins ætti straumurinn til Selfoss bara að aukast, og segir Gísli að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum. Hefur miðbærinn heppnast svo vel að oft sést til vinnustaðahópa og saumaklúbba sem hafa gert sér sérstaka ferð frá höfuðborgarsvæðinu til að upplifa þá verslun og þjónustu sem svæðið hefur upp á að bjóða. „Nýi miðbærinn er algjör bylting fyrir Selfoss og færir nýja vídd inn í verslunarumhverfið sem styður við þá starsfemi sem fyrir er á Eyravegi annars vegar og Austurvegi hins vegar, og með tilkomu nýrrar brúar yfir Ölfusá ætti breytt umferðarflæði að skapa möguleikann á að gera Austurveg að ekta „high street“ verslunargötu.“

Þá hefur atvinnulífið á svæðinu aldrei verið blómlegra og vöxtur ferðaþjónustunnar verið eins og vítamínsprauta. Gísli bendir á að Árborg sé mjög vel staðsett til að nýta tækifæri í ferðaþjónustu, landbúnaði og iðnaði, m.a. vegna góðra tenginga við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og vöruhöfnina í Þorlákshöfn og hlakkar hann til að sjá þær viðtökur sem nýtt vinnurými í gamla Landsbankahúsinu mun fá en þar geta einstaklingar og smærri fyrirtæki leigt sér skrifstofuaðstöðu, s.s. til að sinna fjarvinnu fyrir vinnuveitendur á höfuðborgarsvæðinu.

„En hagstætt fasteignaverð laðar líka marga að og mun ódýrara fyrir fjölskyldur að koma yfir sig þaki hér en á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfur keypti ég mér 186 fermetra einbýlishús á Eyrarbakka fyrir þremur árum og greiddi fyrir það 44 milljónir króna. Reiknaðist til að uppi á Selfossi hefði sambærilegt hús kostað um 65 milljónir á sama tíma, og hæglega 80 til 90 milljónir í Reykjavík,“ útskýrir Gísli. „Sonur minn var einmitt í sumar að kaupa, með konunni sinni, íbúð í fjölbýli í Vesturbæ Reykjavíkur. Reyndi ég samt að benda honum á að fyrir sömu upphæð gæti hann keypt rúmgóða íbúð hér í Árborg og myndi verðmunurinn duga fyrir tveimur Teslum. Svo gætu þau gengið að því vísu að koma börnum sínum að á leikskóla strax við tólf mánaða aldur, og leyft krökkunum að alast upp við gott skólakerfi og öflugt íþróttastarf, í návígi við náttúruna.“ ai@mbl.is