Magnús L. Sveinsson
Magnús L. Sveinsson
Eftir Magnús L. Sveinsson: "Bætur sem aldraðir fá frá lífeyrissjóðum eru skattlagðar og það látið renna til Tryggingastofnunar, sem lokar um leið fyrir greiðslur til aldraðra."

Það er heldur dapurlegt til þess að vita að Tryggingastofnun ríkisins skuli vera notuð til að skerða kjör aldraðra, sem hafa látið hluta af launum sínum renna til lífeyrissjóða sem stofnaðir voru til að bæta kjör aldraðra en ríkið notar til að skerða kjör þeirra og neita þeim um greiðslu frá Tryggingastofnuninni, sem þeir hafa greitt til alla starfsævi sína! En ríkið lætur ekki þar við sitja. Bæturnar sem aldraðir fá frá lífeyrissjóðum eru skattlagðar og þeir peningar látnir renna til Tryggingastofnunar, sem lokar um leið fyrir greiðslu stofnunarinnar til þeirra. Hvaða siðferði er þetta? Á maður að trúa því að ákvæði sé í lögum sem segir að ef maður ver hluta af launum sínum til lífeyrissjóðs til að auka tryggingu sína á efri árum, þá skuli lokað fyrir greiðslu frá Tryggingastofnuninni til hans, sem hann hefur þó greitt til alla starfsævi sína? Margsinnis er búið að kvarta undan þessu, sem ekki hefur verið hlustað á.

Úttekt á almannatryggingum

Ég flutti tillögu til þingsályktunar um úttekt á almannatryggingakerfinu er ég átti sæti á Alþingi sem varaþingmaður 1999. Í ræðu sem ég flutti er ég talaði fyrir tillögunni sagði ég m.a.: „Það er alveg ljóst að tryggingafélagi á hinum frjálsa markaði mundi ekki líðast að haga sér með þessum hætti. Eða sjá menn það fyrir sér að ef tveir menn keyptu sams konar tryggingu hjá tryggingafélagi gæti tryggingafélagið skert tryggingabætur annars mannsins af því að hann hefði látið hluta af launum sínum renna í lífeyrissjóð eða að tekjur hans færu yfir ákveðið mark? Það er mjög brýnt að taka allt þetta kerfi til gagngerrar endurskoðunar.“

Ég sagði einnig: „Við búum hér við almenna velmegun, þótt vissulega séu aðilar, sem þyrftu að búa við betri kjör. Hverjir hafa skilað lengsta dagsverki til að byggja upp þetta velferðarþjóðfélag? Það eru aldraðir, sem alla sína starfsævi hafa greitt sína skatta til almennatryggingakerfisins og með því rekið styrkar stoðir undir velferðarkerfið, sem við viljum vera stolt af. Það sæmir okkur því ekki að gera aldraða að afgangsstærð þegar við skiptum því sem þetta fólk hefur lagt mest til.“

Ég gat ekki fylgt málinu eftir þar sem ég var stuttan tíma á Alþingi og mér er ekki kunnugt um að neinn þingmaður hafi gert það, því miður.

„Árás á mannréttindi“

Sómakonan Guðrún Hafsteinsdóttir, nýkjörin til Alþingis, skrifaði góða grein um þessi mál í Fréttablaðið 28. maí 2019, sem formaður Landssambands lífeyrissjóða. Hún sagði: „Samspil almennatrygginga og lífeyrissjóða ætti að vera efst á forgangslista við endurskoðun lífeyriskerfisins okkar. Skerðing lífeyris frá Tryggingastofnun er slík að ekki verður við unað. Svona gerum við einfaldlega ekki gagnvart eldri borgurum og öryrkjum landsins. Svo langt er gengið að ég tel grófustu skerðingarnar jafngilda árás á mannréttindi og þar með ljótan blett á annars ágætu tryggingakerfi.“ Þetta er samhljóma því sem ég sagði á Alþingi 1999.

Höfundur er fv. formaður VR. magnusl@simnet.is