Sólveig Anna Jónsdóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þó að Sólveig Anna Jónsdóttir sé hætt sem formaður Eflingar er hún ekki hætt að efna til ófriðar innan verkalýðshreyfingarinnar og sennilega ekki heldur utan hennar. Í gær gerðist það að kosinn var nýr 3. varaforseti Alþýðusambands Íslands í stað Sólveigar Önnu, en í stað þess að óska eftirmanninum til hamingju notaði Sólveig Anna tækifærið á Facebook í gær til að skrifa langan pistil um það hve ómögulegur eftirmaðurinn, Halldóra Sveinsdóttir, sé.

Þó að Sólveig Anna Jónsdóttir sé hætt sem formaður Eflingar er hún ekki hætt að efna til ófriðar innan verkalýðshreyfingarinnar og sennilega ekki heldur utan hennar. Í gær gerðist það að kosinn var nýr 3. varaforseti Alþýðusambands Íslands í stað Sólveigar Önnu, en í stað þess að óska eftirmanninum til hamingju notaði Sólveig Anna tækifærið á Facebook í gær til að skrifa langan pistil um það hve ómögulegur eftirmaðurinn, Halldóra Sveinsdóttir, sé.

Halldóra er formaður verkalýðsfélagsins Bárunnar á Suðurlandi og hefur setið í miðstjórn ASÍ og gegnt fjölda annarra trúnaðarstarfa fyrir verkalýðshreyfinguna. Þetta dugar ekki til að Sólveig Anna telji hana nothæfa í baráttuna, því að Halldóra sé „manneskja bakherbergisins, hins notalega klúbbs þar sem verkalýðsleiðtogar gleðjast yfir að fá „sæti við borðið“ og láta mata sig á kynningum sérfræðinga“.

Helsti löstur Halldóru virðist að mati Sólveigar Önnu vera að hún hlusti á röksemdir og að hætta sé á að hún taki tillit til efnahagsaðstæðna við gerð kjarasamninga.

Þetta telur formaðurinn fallni afleita afstöðu enda krefst „baráttan“ þess að ekkert sé hlustað og ekki tekið mark á nokkurri staðreynd um efnahagsmál. Í baráttu sósíalista er þekkt að allt verður að víkja fyrir málstaðnum og það endurspeglast í ofsanum, óbilgirninni og óheftum fjandskapnum gegn þeim sem voga sér að hafa ólíka skoðun.