Þyrpingin gerir sögu og sérkennum íslenskrar byggingarlistar góð skil skil og tengir við nútímann.
Þyrpingin gerir sögu og sérkennum íslenskrar byggingarlistar góð skil skil og tengir við nútímann. — Tölvuteikning/Batteríið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hönnunarstjóri miðbæjarins á Selfossi bendir á að með því að láta götur sveigja og raða húsum þétt saman hafi tekist að skapa umhverfi sem fólki finnst notalegt

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það er ekki hægt að útiloka að nýi miðbærinn á Selfossi muni valda kaflaskilum í skipulagi og hönnun íslenskra verslunar- og þjónustukjarna. Aðdáendur verkefnisins hafa bent á að nýlegar tilraunir til að skapa aðlaðandi miðbæjarrými hafi flestar misheppnast og þykir mörgum vanta upp á sjarmann hjá verslunarkjörnum á borð við Mjóddina, Eiðistorg, Fjörðinn, Garðatorg eða Hamraborgina.

Á Selfossi hefur formúlan hins vegar gengið upp og er útkoman miðbæjarsvæði sem virkar eins og segulstál á fólk í leit að fallegum stað til að vera á, og iðar svæðið af mannlífi um allar helgar.

Sigurður Einarsson, arkitekt hjá Batteríinu, er hönnunarstjóri nýja miðbæjarins og er að vonum ánægður með viðbrögðin. Það var þróunarfélagið Sigtún sem lagði línurnar, með Leó Árnason í fararbroddi, með þeirri hugmynd að miðbæjarkjarni Selfoss skyldi hafa á sér gamaldags yfirbragð. En í stað þess að búa til hálfgerða sviðsmynd var leitað fanga í byggingarlistasögu Íslands til að endurreisa mörg fallegustu hús landsins sem sum hafa orðið eldi að bráð og sum verið látin víkja fyrir nýtískulegri arkitektúr eða nýjum akbrautum.

Hver hermir eftir hverjum?

Útkoman er bæjarlandslag sem er bæði hlýlegt og aðlaðandi, kunnuglegt og fjölbreytt án þess að ólíkir stílar stangist á. „Að byggja upp líflega og smekklega miðbæi hefur verið verkefni sem okkur arkitektastéttinni hefur einfaldlega ekki gengið nógu vel að leysa stóran hluta síðustu aldar. Allt of oft hefur útkoman verið rými sem fólk langar ekkert sérstaklega til að dvelja í meira en nauðsyn krefur,“ segir Sigurður.

Batteríið var fengið til verkefnisins m.a. vegna mikillar reynslu arkitektastofunnar af endurbyggingu gamalla húsa og hönnun nýrra bygginga umhverfis og í tengslum við eldri hús. Það hve vel tókst til á Selfossi vekur ótal spurningar um hvert byggingarlist ætti að stefna, einkum þegar í hlut eiga rými sem eiga að þjóna hlutverki miðbæjarkjarna. Þykir sumum það af og frá að endurbyggja gömul hús og eðlilegra að arkitektúr endurspegli nýjustu strauma og stefnur. Segir Sigurður að sumum finnist það jaðra við eftiröpun að teikna hús í gömlum stíl, en slíkri gagnrýni sé jafnan svarað með því að benda á að nútímalegustu verk arkitekta séu oft svo lík innbyrðis að erfitt sé að segja hver kann að vera að herma eftir hverjum.

„En það sem við erum að gera á Selfossi er að segja sögu og gefa eldri byggingum nýja merkingu. Við endurvekjum gömul hús, en þurfum um leið að gera það með þeim hætti að þau falli að nýjustu kröfum og stöðlum, og vitaskuld þannig að byggingarnar henti þeirri starfsemi sem þær eiga að hýsa.“

Aðeins lítið brot af sögunni

Það kann að koma lesendum á óvart hve mörg fögur íslensk hús heyra sögunni til. Í þeirri þyrpingu sem þegar er risin í miðbænum á Selfossi eru þrettán endurgerð gömul hús og þegar seinni áfanga framkvæmdanna á svæðinu lýkur verða húsin samtals um þrjátíu talsins. „En við erum með tilbúnar teikningar af nærri tvöfalt fleiri húsum, allt frá agnarlitlu íbúðarhúsnæði upp í gamla Landakotsspítalann sem var rifinn þegar nýi Landakotssspítalinn var byggður,“ útskýrir Sigurður. „Meðal þeirra bygginga sem hafa vakið hvað mesta lukku er gamli Hótel Björninn sem stóð í Hafnarfirði og var að margra mati eitt af fallegustu húsum bæjarins og skartaði svölum með næpulagaðri yfirbyggingu. Var þessi bæjarprýði látin víkja á sínum tíma svo að hægt væri að breikka Reykjavíkurveginn og leiða meiri bílaumferð inn í bæinn.“

Þar kemur Sigurður að öðrum þætti sem skýrir aðdráttarafl miðbæjarins á Selfossi: þar er gangandi umferð í fyrirrúmi og bílarnir geymdir þar sem ekki sést til þeirra. „Ein ástæðan fyrir því að svo illa hefur gengið að hanna vistlega miðbæi er að þeir eru nær alltaf skipulagðir fyrir bílinn. Arkitektar virðast hreinlega vera hræddir við þröng rými og höfðu sumir á orði að við þyrftum að gæta okkar á því að göturnar í nýja miðbænum yrðu ekki eins og stokkur ef við röðuðum húsunum þétt saman. En í staðinn fórum við þá leið að hafa lítið rými á milli húsa og göturnar tiltölulega þröngar, en þar sem Brúarstrætið er þrengst er gatan um 10 metra breið sem er á við þann hluta Laugavegs þar sem hann er þrengstur.“

Frekar en að finna fyrir innilokunarkennd upplifir fólk þægileg hlutföll í Brúarstræti og þar sem bílaumferð er beint í aðrar áttir hafa gangandi vegfarendur nóg pláss. „En það var líka meðvituð ákvörðun að láta götuna sveigja. Gamlar skipulagsteikningar Guðjóns Samúelssonar fyrir þennan reit gera ráð fyrir götu sem liggur í beinni línu frá brúnni og inn að kirkju sem átti að standa við bæjargarðinn, en með því að sveigja göturnar verður til umhverfi þar sem fólki birtast nýjar og nýjar myndir á göngu sinni. Með hverju skrefi fær götumyndin nýjan persónuleika og hús sem áður voru falin koma í ljós.“

Húsin máttu ekki virðast gervileg

Þó ekki sé vitað um verkefni þar sem gömul hús voru endurvakin með sama hætti og með sömu heildarsýn og á Selfossi má á stöku stað finna tilvik þar sem farin var svipuð leið. Sigurður nefnir miðborg Frankfurt í Þýskalandi sem þekkt dæmi um vel heppnaða umbreytingu í þessum dúr. „Þar hafði steinsteyptur brútalismi einkennt byggingarlistina í miðborginni og þótti ekki mikil prýði að. Var ákveðið að ryðja brútalismanum úr vegi og í staðinn endurbyggja margar byggingar gamla miðaldabæjarins. Ekki var hægt að styðjast við gamlar ljósmyndir eða teikningar húsameistara en mikil vinna lögð í að gera þessum menningararfi góð skil og var mikil ánægja með útkomuna.“

Við hönnun miðbæjarins á Selfossi gátu arkitektar Batterísins stundum stuðst við teikningar en þurftu í öðrum tilvikum að reiða sig á ljósmyndir til að finna hlutföll og stærðir. Vitaskuld þurfti í mörgum tilvikum að eiga við hönnunina til að t.d. fullnægja reglum um lofthæð og tryggja að fyrirhuguð starfsemi gæti rúmast vel í húsunum með öllum kröfum nútímans um vatns- og rafmagnslagnir, eldvarnir og aðstöðu af öllum mögulegum toga. Eins þurfti að gæta að því á byggingarstigi að húsin hefðu sem eðlilegast útlit og virkuðu ekki eins og sviðsmyndir í skemmtigarði. „Munaði þar um ýmis smáatriði, eins og gerekti á hurðum, en á sama tíma varð að gæta þess að framkvæmdakostnaðurinn færi ekki úr böndunum og t.d. ekki í boði að sérsmíða alla glugga eftir teikningum. Fundum við danskan framleiðanda sem smíðar glugga með gamla útlitinu og gátum þannig fengið rétta yfirbragðið en samt haldið kostnaði hófstilltum.“