Fullorðinn karri Myndin var tekin á Norðausturlandi í maí í vor.
Fullorðinn karri Myndin var tekin á Norðausturlandi í maí í vor. — Ljósmynd/Ólafur Karl Nielsen
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hundruð ef ekki þúsundir grænlenskra rjúpna komu til landsins í haust. Greiningar á vængjum veiddra rjúpna staðfesta þetta, að sögn Ólafs Karls Nielsen, rjúpnasérfræðings og vistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann hvetur rjúpnaskyttur til að skila öðrum vængnum af veiddum rjúpum til Náttúrufræðistofnunar vegna aldursgreininga á íslenskum rjúpum og eins til að sjá hve víða grænlensku rjúpurnar fóru.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hundruð ef ekki þúsundir grænlenskra rjúpna komu til landsins í haust. Greiningar á vængjum veiddra rjúpna staðfesta þetta, að sögn Ólafs Karls Nielsen, rjúpnasérfræðings og vistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann hvetur rjúpnaskyttur til að skila öðrum vængnum af veiddum rjúpum til Náttúrufræðistofnunar vegna aldursgreininga á íslenskum rjúpum og eins til að sjá hve víða grænlensku rjúpurnar fóru.

Rannsakar holdafar rjúpna

Ólafur er nýkominn úr leiðangri í Þingeyjarsýslur þar sem hann fékk að láni frá veiðimönnum 207 nýveiddar rjúpur og voru þær vigtaðar og mældar. Tilgangurinn er að meta holdafar fuglanna samanborið við fyrri ár. Mögulega eru tengsl á milli heilbrigðis fuglanna að hausti og vetraraffalla. Niðurstöður mælinganna 2021 liggja ekki fyrir. „Það voru ágætis fuglar þarna innan um, stórir og miklir,“ sagði Ólafur. Hann sagði að í haust hefði frést að rjúpur sem örugglega voru grænlenskar hefðu sest á skip norðan við Ísland. Einnig kom rjúpnahópur til Grímseyjar í lok september. Allir þessir fuglar voru alhvítir. Grænlenskar rjúpur verða alhvítar snemma í september en þær íslensku í lok október eða fyrrihluta nóvember.

„Við fundum eina grænlenska rjúpu í þessu safni sem við skoðuðum fyrir norðan og var hún skotin í Öxarfirði. Svo fengum við poka með vængjum níu fugla sem voru skotnir í Ólafsfjarðarmúla og þeir voru allir grænlenskir,“ sagði Ólafur.

Útlitsmunur á rjúpunum

Hægt er að greina grænlenskar rjúpur frá íslenskum vegna litamunar. Fjaðurstafir handflugfjaðranna eru mun ljósari á þeim grænlensku en þeim íslensku. Eins er minna litarefni í fönum flugfjaðra grænlensku rjúpnanna en þeirra íslensku. Grænlenskar rjúpur eru líka með áberandi stærri vængi en þær íslensku. Þær grænlensku eru auk þess miklu loðnari um tærnar en íslenskar rjúpur og nöglin ljósari á þeim grænlensku.

Ólafur segir að grænlenska rjúpan sé farfugl innan Grænlands og ferðist milli norðurhéraða landsins og suðurhlutans vor og haust. Væntanlega hreki fugla af leið í farfluginu og komi þeir þannig til Íslands endrum og sinnum.

Ólafur segir að Finnur heitinn Guðmundsson fuglafræðingur hafi leitað að grænlenskum rjúpum í rjúpnakippum á Vestfjörðum á 7. áratug síðustu aldar eftir að rjúpur höfðu sést setjast á skip. Svo virðist að þegar það gerist nái æði margar hingað til lands.

Merktar hafa verið um 10.000 rjúpur á Íslandi frá upphafi. Hátt í 2.000 þeirra endurheimtust, allar hér á landi.

Verndaráætlun í smíðum

Rjúpnaveiðar eru leyfðar 22 daga í nóvember, það er alla daga nema miðvikudaga og fimmtudaga og frá hádegi hvern dag. Nú er ráðlögð veiði rétt yfir 20.000 fuglar eða 4-5 fuglar á mann miðað við að 4-5 þúsund veiðimenn gangi til rjúpna.

Umhverfisstofnun vinnur nú í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpur.