Merkileg Úr Sögu Borgarættarinnar sem markaði upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Films Kompagni eftir skáldsögu Gunnars Gunnarssonar.
Merkileg Úr Sögu Borgarættarinnar sem markaði upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Myndin var gerð af Nordisk Films Kompagni eftir skáldsögu Gunnars Gunnarssonar. — Ljósmynd/Dansk Film Institut
Tónlistin úr Sögu Borgarættarinnar, hinni þöglu mynd sem markaði upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi, er komin út á Spotify á vegum Smekkleysu.

Tónlistin úr Sögu Borgarættarinnar, hinni þöglu mynd sem markaði upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi, er komin út á Spotify á vegum Smekkleysu. Tónlistin var samin af Þórði Magnússyni tónskáldi og flutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Á Spotify má nú finna valda kafla, 23 talsins, sem eru um 80 mínútur samtals í flutningi.

„Í tilefni aldarafmælis myndarinnar efndu Kvikmyndasafn Íslands, Gunnarsstofnun og Menningarfélag Akureyrar til samstarfs. Afraksturinn er stafræn endurgerð í háskerpu með nýrri frumsaminni tónlist Þórðar Magnússonar sem gefur myndinni nýtt líf. Tónlistin var tekin upp í Menningarhúsinu Hofi undir merkjum SinfoniaNord-verkefnisins. SinfoniaNord hefur getið sér gott orð í upptökum á kvikmyndatónlist og meðal annars gert upptökur fyrir Disney og Netflix,“ segir í tilkynningu.

Þar segir um Þórð að hann hafi á undanförnum árum getið sér gott orð sem afburðatónskáld á vettvangi íslenskrar samtímatónlistar auk þess að vera eftirsóttur útsetjari og áður hafi verk eftir hann komið út á hinum ýmsu safndiskum og í samvinnu við aðra tónlistarmenn. Nýlega var gefin út tónsmíð hans Gunnarshólmi við ljóð Jónasar Hallgrímssonar í flutningi Ingibjargar Guðjónsdóttur og Tríó Sírajóns og einnig má finna á Spotify plötuna La Poésie sem var eingöngu helguð tónverkum eftir Þórð.