Liverpool Rannsókn á hryðjuverkinu á sunnudag er í fullum gangi.
Liverpool Rannsókn á hryðjuverkinu á sunnudag er í fullum gangi. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Breska lögreglan rannsakar nú bakgrunn Emad Al Swealman, sem nefndur hefur verið sem sprengjumaðurinn sem fórst í misheppnaðri tilraun til þess að fremja hryðjuverk í Liverpool á sunnudaginn.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Breska lögreglan rannsakar nú bakgrunn Emad Al Swealman, sem nefndur hefur verið sem sprengjumaðurinn sem fórst í misheppnaðri tilraun til þess að fremja hryðjuverk í Liverpool á sunnudaginn. Lögreglan telur að Swealman hafi undirbúið árás sína í sjö mánuði áður en hann lét til skarar skríða.

Swealman flúði til Bretlands árið 2014 og sóttist þar eftir hæli, en var neitað. Sagðist Swealman þá játa kristna trú eftir að hafa gengist undir fimm vikna námskeið hjá ensku biskupakirkjunni í Liverpool, og því væri ekki hægt að senda hann aftur til síns heima, þar sem hans biðu trúarlegar ofsóknir.

Tilraunir hans til þess að sækja um pólitískt hæli í Bretlandi runnu hins vegar út í sandinn en Swealman stóð enn í málaferlum við breska ríkið þegar hann framdi árásina. Þá mun hann hafa leitað sér aðstoðar við geðröskunum.

Kirkjan veitir ráð

Samkvæmt heimildum Daily Telegraph telur breska innanríkisráðuneytið að ekki sé óalgengt að hælisleitendur „skipti“ um trú þegar þeir sjái fram á að umsóknum þeirra verði hafnað. Þá hafi enska biskupakirkjan tekið á móti slíkum trúarjátningum í þúsundatali og jafnvel veitt hælisleitendum ráð um hvernig þeir geti náð árangri í umsóknum sínum.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, gagnrýndi í fyrradag það sem hún kallaði „hringekju“ kerfisins, þar sem hælisleitendur og lögfræðingar þeirra reyndu allt til þess að leika á kerfið á kostnað skattgreiðenda, jafnvel eftir að umsóknum þeirra hefði verið hafnað.