Vísbending Stýrivextirnir gefa leiðsögn um vænt vaxtakjör bankanna.
Vísbending Stýrivextirnir gefa leiðsögn um vænt vaxtakjör bankanna.
Einhverjir dagar munu líða þar til fyrir liggur með hvaða hætti vaxtahækkanir Seðlabankans munu hafa áhrif á vaxtatöflur bankanna.

Einhverjir dagar munu líða þar til fyrir liggur með hvaða hætti vaxtahækkanir Seðlabankans munu hafa áhrif á vaxtatöflur bankanna. Morgunblaðið leitaði upplýsinga hjá talsmönnum viðskiptabankanna þriggja, Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka um það hvort og með hvaða hætti stofnanirnar myndu bregðast við. Í öllum tilvikum var svarið einfaldlega það að ekkert lægi fyrir í þeim efnum.

Sé horft til viðbragða bankanna að undanförnu, þegar Seðlabankinn hefur tilkynnt um vaxtahækkanir hafa bankarnir fylgt í humátt á eftir en í mörgum tilvikum hefur vaxtastefnunni ekki verið miðlað að fullu út í vaxtakjör viðskiptavina.

Þannig má til dæmis nefna að í október, þegar stýrivextir voru hækkaðir um 0,25 prósentur þá hækkaði Landsbankinn vexti á breytilegum óverðtryggðum íbúðalánum um 0,2 prósentur og fastir vextir á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum til 36 mánaða hækkuðu um 0,15 prósentur. Þá hækkuðu vextir á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum til 60 mánaða um 0,1 prósentu. Hins vegar var var vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum, bæði með fasta og breytilega vexti, haldið óbreyttum. Ljóst er að miðlun peningastefnunnar kemur fyrr fram í heimilisbókhaldi landsmanna nú en oftast áður. Sífellt fleiri leita í óverðtryggð íbúðalán en áður. Það sem af er ári nema ný íbúðalán bankanna til heimilanna, að teknu tilliti til upp- og umframgreiðslna ríflega 250 milljörðum króna. Upp- og umframgreiðslur verðtryggðra lána eru 44 milljarðar umfram ný útlán en óverðtryggð íbúðalán hafa vaxið um 294,2 milljarða.

Af þeirri fjárhæð eru 180 milljarðar með breytilegum vöxtum en 114 með föstum. Eftir því sem verðbólguhorfur hafa versnað hefur þunginn í nýjum útlánum með fasta vexti hins vegar aukist til muna.