Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags, til hægri, ásamt frumkvöðlunum og hugmyndasmiðum nýja miðbæjarins, þeim Guðjóni Arngrímssyni og Leó Árnasyni.
Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags, til hægri, ásamt frumkvöðlunum og hugmyndasmiðum nýja miðbæjarins, þeim Guðjóni Arngrímssyni og Leó Árnasyni.
Framkvæmdir á Selfossi munu halda áfram eftir áramót en í fyrsta áfanga risu 13 af 35 húsum sem mynda munu nýja miðbæjarsvæðið

Þeir sem koma í nýja miðbæinn á Selfossi í dag gætu haldið að það hafi alltaf blasað við að svona ætti svæðið að vera. En raunin er að í byrjun voru ekki allir sammála um hvaða leið ætti að fara og í gegnum árin hafa alls kyns útgáfur af nýjum miðbæ verið til skoðunar.

Vignir Guðjónsson þekkir þessa sögu vel en hann er framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags sem byggir nýja miðbæinn. „Svæðið sem tekur við þegar ekið er yfir brúna og inn í bæjarmiðjuna hefur að mestu staðið autt í hartnær aldarfjórðung og á þeim tíma hafa komið fram ýmsar hugmyndir um byggð og bæjarkjarna, allt frá lágstemmdum glerbyggingum til 15 hæða turna. En þessar hugmyndir náðu aldrei fram að ganga og lágu ýmsar ástæður þar að baki. Leó Árnason og Guðjón Arngrímsson eru mennirnir á bak við nýja miðbæinn og fyrstir til að viðra þessa hugmynd um byggð þar sem gömul og þekkt íslensk hús, sem flest hlutu þau örlög að verða eldi að bráð, yrðu endurreist. Þannig yrði til bæjarmynd sem bæði heiðraði íslenska byggingarlist en væri um leið á þeim skala að húsin og umhverfið tækju þétt utan um gesti og gangandi. Sýnin var skýr og fjármögnun var fyrir hendi, sem er svo auðvitað grundvöllurinn fyrir því að svona verkefni geti orðið að veruleika,“ segir Vignir.

Eftir nokkuð langan aðdraganda var boðað til íbúakosningar í ágúst 2018 þar sem kosið var um deiliskipulagsbreytingu sem fól í sér byggingu hins nýja miðbæjar. Var tillagan samþykkt með um 60% greiddra atkvæða. Miðbærinn var svo opnaður almenningi síðasta sumar og má með sanni segja að hann hafi slegið í gegn frá fyrsta degi.

Langar að gera góðan bæ enn betri

Vignir lýsir því hvernig sú stefna var mörkuð snemma í ferlinu að nýr miðbær á Selfossi skyldi höfða bæði til heimamanna, innlendra gesta og erlendra ferðamanna. „Allt frá upphafi hefur verkefnið verið drifið áfram af vilja til að bæta og efla Selfoss til frambúðar. Ég fullyrði að það er allt annar blær á þessu verkefni en flestum öðrum fasteignaþróunarverkefnum hér á landi. Þetta er drifið áfram af heimamönnum, það er mikið hjarta í þessu verkefni og einbeittur vilji til að gera góðan bæ enn betri,“ segir Vignir.

Ráðist var í mikla rannsóknarvinnu, bæði til að læra af vel heppnuðu miðbæjarskipulagi annarra borga og bæja, sem og hvernig blanda af verslunum og veitingastöðum væri líklegust til árangurs. „Hönnunarvinnan var miklu ítarlegri en gengur og gerist, t.d. varðandi uppröðun húsa og lögun gatna, og hvers konar starfsemi skyldi vera í hverju húsi. Þetta er útpælt,“ segir Vignir.

Þrettán hús hafa þegar verið reist í miðbænum en áætlað er að þau verði um 35 í heild þegar framkvæmdum lýkur. „Það er búið að byggja rúmlega 5.000 fermetra af 25.000 fermetrum, og það sem er þegar risið er að stærstum hluta atvinnuhúsnæði. Við bindum vonir við að geta hafið framkvæmdir á næsta áfanga fljótlega eftir áramót, og þá verða hlutfallslega fleiri íbúðir og einnig 80 herbergja hótel. Markmiðið er það sama og áður; að skapa umhverfi og aðstæður sem hafa sérstöðu og eru líklegar til að laða að sér fólk, jafnt heimamenn sem gesti,“ segir Vignir. ai@mbl.is