Á dimmum vetrardegi er fátt sem jafnast á við það að setjast niður í sófann, fá sér snakk og jafnvel drykk með og horfa á enska boltann. Ég tala nú ekki um þegar liðið sem maður elskar og dáir er að spila. Því miður er það svo að u.þ.b.
Á dimmum vetrardegi er fátt sem jafnast á við það að setjast niður í sófann, fá sér snakk og jafnvel drykk með og horfa á enska boltann. Ég tala nú ekki um þegar liðið sem maður elskar og dáir er að spila.

Því miður er það svo að u.þ.b. eina helgi í mánuði frá september og fram í nóvember er maður svikinn um þá gleði. Enginn enskur fótbolti – bara svartnætti, kuldi og... landsleikir.

Landsleikjahléin voru skemmtileg þegar Ísland var í baráttunni um að komast á stórmót. Maður meira að segja beið hreinlega spenntur eftir þeim. Það var alveg sama hvaða stórþjóð kom í heimsókn á Laugardalsvöll, við töldum okkur alltaf eiga séns.

Nú er öldin önnur. Lægð er yfir íslenska karlalandsliðinu og lítil stemning í þjóðfélaginu. Meira að segja gengur erfiðlega að fá fólk til að mæta á völlinn. Allt er þetta háð góðum úrslitum og hefur gengið erfiðlega að ná í þau undanfarið. Rétt er þó að taka fram að sem stuðningsmaður landsliðsins gefur maður sér alltaf tíma til að horfa – jafnvel þótt illa gangi. Það fylgir því bara ekki sami spenningur og trú eins og fyrir nokkrum árum þegar liðinu gekk sem best.

Margir eru jákvæðari en ég þegar kemur að þessum landsleikjahelgum. „Frakkar og Þjóðverjar eru að mætast – það gæti orðið frábær leikur,“ myndi kannski einhver segja. Nei takk, það er bara ekki sama stemning að horfa á þessa frábæru knattspyrnumenn spila fyrir landsliðin.

Það er fátt meira pirrandi en að hafa lítið sem ekkert fyrir stafni og ætla að gera sér glaðan dag með einum fótboltaleik, en það sem er í boði er leikur Armeníu og Finnlands eða Slóveníu og Ungverjalands. Frekar myndi ég horfa á málningu þorna – þetta er það óspennandi.

Góðu fréttirnar eru þó þær að síðasta landsleikjahelgi ársins er yfirstaðin. Nú getum við andstæðingar landsleikjahléa tekið gleði okkar á ný. Enski boltinn verður allar helgar fram í janúar. Tíu helgar í röð án landsleikja ásamt jólavertíðinni svo það er eins gott að eiga nóg af snakki.