Verðmætt „Nefið“, bronsverk eftir svissneska myndhöggvarann Giacometti, var selt fyrir 10,3 milljarða kr.
Verðmætt „Nefið“, bronsverk eftir svissneska myndhöggvarann Giacometti, var selt fyrir 10,3 milljarða kr.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rómað einkasafn samtímamyndlistar var selt á uppboði hjá Sotheby's í vikunni fyrir 89 milljarða króna og var þar greitt metfé fyrir verk eftir nokkra þekkta listamenn 20. aldar og samtímalistamenn.

Rómað einkasafn samtímamyndlistar var selt á uppboði hjá Sotheby's í vikunni fyrir 89 milljarða króna og var þar greitt metfé fyrir verk eftir nokkra þekkta listamenn 20. aldar og samtímalistamenn. Um var að ræða fyrra uppboðið á safni sem fyrrverandi hjón, Harry og Linda Macklowe komu sér upp á nær hálfri öld en er nú selt að kröfu dómara sem var falið að leysa úr hatrammri skilnaðardeilu þeirra.

35 verk voru boðin upp að þessu sinni og voru öll seld fyrir þetta háa verð sem menningarblaðamenn vestra segja til marks um sterka stöðu og kaupvilja ríkustu safnaranna. Stór hluti verkanna var seldur söfnurum í Asíu.

Listfræðingar segja gæði Macklowe-safnins einstakt og öll hefðu verkin sómt sé vel í virtustu listasöfnum. Meðal þeirra sem vöktu mesta athygli má nefna skúlptúr eftir Alberto Giacometti frá 1964, „Nefið“, sem var slegið hæstbjóðanda á 78,4 milljónir dala, 10,3 milljarða króna. Stórt málverk eftir Mark Rothko, „No. 7“ frá 1951, var selt á um 82 milljónir dala (um 10,8 milljarða kr.), sem er næsthæsta verk sem greitt hefur verið fyrir verk eftir Rothko, og 61 milljón dala, um 8 milljarðar kr., var greidd fyrir málverkið „Number 17, 1951“ eftir Jackson Poolock og hefur aldrei verið greitt hærra verð fyrir verk eftir hann. Þá voru greiddar 17,7 milljónir dala, um 2,3 milljarðar kr. fyrir málverkið „Untitled #44“ eftir Agnesi Martin, sem er einnig hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir verk eftir hana.

Grimmt var tekist á um málverkið „Strong Light“ eftir Philip Guston – lokaverð þess var 24,4 milljónir dala, 3,2 milljarðar kr. – og silkiþrykksverkið „Nine Marilyns“ eftir Andy Warhol – sem var selt fyrir 47,3 milljónir dala, 6,3 milljarða kr.