Þorbjörg Rósa Guðmundsdóttir fæddist á Harðbak á Melrakkasléttu 16. ágúst 1929. Hún lést 25. október 2021. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Stefánsson, f. 1885, d. 1971, og Margrét Siggeirsdóttir, f. 1890, d. 1978, sem bjuggu á Harðbak. Þorbjörg átti fimm systur og einn fósturbróður. Látnar eru Borghildur Guðrún, Ása, Aðalbjörg og Kristín Guðbjörg en á lífi eru Jakobína og Kári Friðriksson.

Þorbjörg giftist Birni Guðmundsyni flugstjóra frá Grjótnesi, f. 16. júní 1926, d. 19. janúar 2003. Foreldrar hans voru Þórey Böðvarsdóttir, f. 1904, d. 1990, og Guðmundur Björnsson, bóndi og síðar skjalavörður, f. 1899, d. 1995. Þorbjörg og Björn bjuggu í Reykjavík.

Börn Þorbjargar og Björns eru: 1) Þórey, f. 1952, maki Jóhannes Jens Kjartansson, f. 1951. Börn þeirra eru Björn Róbert, f. 1969, maki Stefanía Kjartansdóttir, f. 1972, þau eiga eitt barn. Þorbjörg, f. 1975, maki Ómar Ingþórsson, f. 1970, þau eiga þrjú börn. Davíð, f. 1981, maki Þórdís Guðmundsdóttir, f. 1981, þau eiga þrjú börn. Þórdís, f. 1990, maki Stefán Breiðfjörð Gunnlaugsson, f. 1985, þau eiga einn son en fyrir átti Stefán einn son. 2) Margrét, f. 1956 d. 2019. Maki Jón Hrafnkelsson, f. 1951. Börn þeirra eru Björn, f. 1978, maki Henný Hraunfjörð, f. 1978, þau eiga þrjú börn. Guðbjörg, f. 1984, maki Ásgeir Þór Másson, f. 1984, þau eiga tvö börn. Hrafnkell, f. 1992. 3) Guðmundur Ásgeir, f. 1962, maki Sæunn Gísladóttir, f. 1963. Börn þeirra eru Gísli Rafn, f. 1986, hann á eitt barn. Fanney Þorbjörg, f. 1992, maki Ævar Hrafn Ingólfsson, f. 1992, þau eiga eitt barn. Björn Ásgeir, f. 1998.

Þorbjörg ólst upp á Harðbak við hefðbundin sveitastörf þess tíma. Hún stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni 1946-1948 og starfaði við almenn verslunarstörf í Reykjavík en lengst af sem húsmóðir. Þorbjörg var safnvörður í Listasafni Íslands síðustu 10 starfsárin. Þorbjörg var listhneigð enda bar heimili hennar þess merki. Hún naut þess að ferðast.

Útförin fer fram frá Langholtskirkju í Reykjavík í dag, 18. nóvember 2021, klukkan 13.

Langholtskirkja er hólfaskipt, alls mega 150 manns vera í útförinni.

Kæra tengdamóðir. Þú sem staðið hefur vaktina með einskærri prýði í þessu lífi hefur nú kvatt okkur í bili. Mér er minnisstætt þegar ég kom fyrst inn á þitt heimili í Karfavoginum og dáðist að öllu sem fyrir augu bar. Þó ekki síst þessari stórglæsilegu konu, móður Þóreyjar. Þú hafðir svo fágaða framkomu að unun var að. Ekki fór heldur framhjá manni hversu frábæran mat þú barst á borð við öll tækifæri og natnin skein af öllu. Talandi um natni þá var það tengdapabbi sem fóstraði mín fyrstu skref í rjúpnaveiði. Mér var kennt að vera vel nestaður fyrir okkar ferðir og þótti mér þá mjög skondið að sjá þegar tengdi dró fram nestið sitt upp úr pússi sínu. Þar voru þrír aðskildir pakkar merktir dagur 1, 2 og 3 þannig að augljóst var að þú hafðir búið karlinn vel að heiman.

Þú varst lífsglöð kona en hafðir lag á að taka áföllum með stóískri ró.

Samband þitt við barnabörnin var einstaklega fallegt og gefandi fyrir alla fjölskylduna. Þú og eiginmaður þinn Björn Guðmundsson voruð síðan eins og klettar í hafinu sem við börn, tengdabörn og síðar barnabörn gátum leitað til og ekki síst horft til sem fyrirmynda í okkar lífi.

Ferðin okkar til Kaiserhof þar sem fjórar kynslóðir nutu vellystinga um jól og áramót var augljóslega við þitt hæfi og þú varst sem drottning í hópi afkomenda þinna.

Ekki þar fyrir að þér virtist ekki líða síður vel við fjöruna á Tirðilmýri í samvistum við ljúfa dóttur þína sem deildi með þér dýrmætum tíma.

Síðustu árin fór heilsan að gefa sig en þú kvartaðir aldrei og hélst þínum upptekna hætti að bjóða upp á kaffi og meðlæti þegar gesti bar að garði á Dalbrautinni og ekki síst á Hrafnistu.

Elsku Lillý, við Þórey áttum einnig með þér okkar kósí stundir í Hæðarselinu og þú brosir þínu sjarmerandi glotti yfir þessu en við höldum því fyrir okkur.

Ég kveð þig með söknuði og virðingu. Megi minning þín lifa um aldir.

J. Jens Kjartansson.

Í dag kveð ég elsku yndislegu tengdamóður mína Þorbjörgu Rósu eða Lillý eins og hún var kölluð. Eftir að ég byrjaði að venja komur mínar í Karfavoginn þegar við Guðmundur byrjuðum að vera saman tók Lillý alltaf á móti mér með mikilli hlýju. Hún var hvers manns hugljúfi með þægilega nærveru og gestrisin með eindæmum. Hún hafði gaman af því að rifja upp minningar og segja sögur frá æsku sinni, eftirminnilegum hestaferðum og fleiru sem hafði á daga hennar drifið. Lillý var alltaf vel tilhöfð og lagði mikið upp úr því að líta sem best út, einnig þegar hún fór í útreiðartúra, en hestamennskan var hennar líf og yndi. Lillý hvatti mig eindregið til að taka þátt í hestamennskunni og lánaði mér ævinlega besta hestinn sinn.

Lillý var óspör á að hrósa öðrum og þá ekki síst barnabörnunum en hún var afskaplega stolt af afkomendum sínum og mikið í mun að allir tækju þátt í uppákomum og gleðistundum. Ég minnist þess þegar við héldum upp á áttræðisafmælið hennar og tvær af afkomendum hennar gátu ekki verið með í boðinu, þá sagði Lillý: Æ hvað það er leiðinlegt, þær skreyta svo boðið.

Lillý talaði aldrei illa um nokkurn mann og var einnig mjög orðheppin og vel máli farin í lýsingum sínum á mönnum og málefnum. Þegar hún eltist fór gigtin að plaga hana meira en áður en hún vildi sem minnst um sínar þjáningar ræða og stakk upp á að taka upp léttara hjal þegar hún var innt eftir eigin líðan. Þannig var Lillý, hún sá alltaf það jákvæða og dreifði gleði á góðri stundu.

Upp í hugann koma margar góðar minningar eins og samverustundir á Glæsivöllum en þar dvöldu Björn og Lillý á sumrin eins og þau gátu og stunduðu útreiðartúra og samveru með barnabörnunum sem ávallt voru velkomin í heimsóknir í styttri eða lengri tíma.

Á hverju sumri heimsótti Lillý æskustöðvar sínar, Harðbak á Melrakkasléttu, og oft var stórfjölskyldan með í för, sem var mikil upplifun fyrir mig, borgarbarnið, þar sem ég fékk innsýn í búskaparhætti fyrri tíma, meðal annars silungsveiði og dúntekju.

Lillý hefur alltaf reynst mér og mínum börnum vel og mun ég ætíð minnast hennar með mikilli hlýju og væntumþykju.

Ást og söknuður,

Þín

Sæunn.

Við amma kvöddumst 17. ágúst í sumar. Ég var þá í heimsókn heima á Íslandi. Ég var með ömmu á afmælisdeginum mínum 12. ágúst og afmælisdeginum hennar 16. ágúst. Ferðin var stutt hjá mér í sumar en ég var væntanleg aftur í lok október. Við skáluðum í púrtvíni báða afmælisdagana, sem betur fer.

Við hlógum alltaf þegar að við hittumst tvær, en ræddum sömuleiðis allt mögulegt, þó mest lífið. Stoltust var amma af börnunum sínum þremur, tengdabörnum og barnabörnum og barnabarnabörnum. Amma var rík og hún var þakklát, fyrir okkur öll. Amma hafði átt og hún hafði misst. Möggu okkar söknuðum við báðar gríðarlega mikið og ræddum oft.

Ég vissi að ég væri rík að fá að eiga ömmu langt fram á fullorðinsár. Gjöf sem ekki allir fá að njóta og ég fann alltaf fyrir miklu þakklæti fyrir mín hönd og hönd barnanna minna sem áttu langömmu sem þau voru endalaust montin af.

Við amma vorum miklar vinkonur alla tíð, en þegar afi Björn dó fyrir 18 árum, eftir erfið veikindi, flutti ég inn til ömmu í nokkra daga. Amma og afi áttu marga að og afi vann á stórum vinnustað. Eðlilega voru margir sem sóttu ömmu heim til að votta samúð sína. Ég ákvað því að halla höfði hjá ömmu á kvöldin og vera til staðar á daginn. Hella upp á kaffi, taka á móti blómum og sinna hinu og þessu. Amma kunni ævinlega vel að meta það, en ekki síst var það mikilvægt fyrir mig að fá að vera til staðar fyrir hana, gera gagn. Dýrmætast var þó að fá að sofa við hliðina á ömmu í rúminu hans afa þessar nætur. Þarna fékk ég oft að gista sem barn, í holunni hjá ömmu og afa. Koddahjalið hjá okkur ömmu var notalegt á þessum tímamótum eftir að afi kvaddi og batt okkur án efa enn sterkari böndum.

Í æsku hélt ég að allir ættu gott og innihaldsríkt samband við stórfjölskylduna sína. Þá meina ég ekki einungis systkini og tvemenninga, ömmu og afa og systkini foreldra, heldur þremenninga og jafnvel fjórmenninga. Með tímanum skildi ég að þetta var algjör undantekning. Amma var yngst sex systra frá Harðbak á Melrakkaslettu. Systurnar voru bæði samheldnar og einstakar. Að eiga fimm ömmusystur sem allar horfðu á þig, knúsuðu og töluðu við þig eins og þú værir þeirra. Tóku þær snemma upp þá hefð að halda áramótin saman með öllu sínu fólki og skiptast á að hýsa, skipuleggja, gera og græja. Það var veisluhlaðborð á hverju ári. Veislan byrjaði snemma kvölds 31. desember og stóð langt fram eftir nýársmorgni. Systurnar unnu saman þrjár og þjár og héldu þannig gamlárskvöld til skiptis. Ég þekkti ekki annað langt fram á fullorðinsár en að fagna áramótum með stórsöng og yfir 100 manns í heimahúsi. Í dag er þessi veisla enn haldin, en á milli jóla og nýárs. Tengslin sem hafa myndast í ættinni allt í þriðju og fjórðu kynslóð er ómetanleg. Þetta er þeim systrum að þakka. Ég gæti skrifað heila bók um ömmu, ofurhúsmóðurina og vinkonu mína.

Elsku amma mín, ég elska þig, ég sakna þín, en ég er umfram allt þakklát fyrir þig og allt sem við áttum.

Þín nafna,

Þorbjörg Jensdóttir.

Margs er að minnast þegar við kveðjum ömmu Lillý. Hestaferðirnar um landið eru okkur minnisstæðar, utanlandsferðir beggja vegna Atlantshafsins, yndislegar stundir á Glæsivöllum og síðast en ekki síst gæðastundir fjölskyldunnar á Harðbak, þar sem amma naut sín alltaf einstaklega vel.

Hjá ömmu og afa í Karfavoginum var manni alltaf mætt með hlýju, áhuga og af virðingu. Amma lagði sig fram um að fylgjast vel með fólkinu sínu og öll Harðbaksættin féll undir þann flokk. Afrekum og högum frændsystkina okkar voru ávallt gerð góð skil þegar amma var heimsótt. Þegar við vorum við nám í Menntaskólanum við Sund stóðu dyrnar hjá ömmu alltaf opnar og ófá skiptin þar sem við fengum að koma í hádegismat eða setjast upp og læra fyrir próf. Þá eins og endranær stjanaði amma við okkur og flestar af minnisstæðustu matarminningunum úr æskunni, hvort sem það var bjössakaka, eggjabrauð, heimasúrmjólk eða steiktar fiskibollur, voru úr smiðju ömmu. Það er mikið og virðingarvert verk sem amma lagði á sig til þess að halda utan um fjölskylduna sína og við barnabörnin höfum notið góðs af því.

Í huga okkar systkinanna er krían einkennisfugl Margrétar móður okkar. Óþreytandi í að styðja við og verja afkvæmi sín. Þegar við sjáum kríu hugsum við til mömmu. Eins finnst okkur æðarkollan vera fugl ömmu, natin við hreiðurgerð og með hlýjan faðm.

Elsku amma, við kveðjum þig með söknuði, en trúum og vitum að mamma, afi og Harðbakssysturnar taka vel á móti þér hinum megin. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur – við kveðjum þig nú með faðmlagi og fingurkossi.

Björn Jónsson, Guðbjörg Jónsdóttir og Hrafnkell Jónsson.

Að tala vel um menn og málefni var ömmu í blóð borið. Við Íslendingar eigum til dæmis að hennar sögn besta fiskinn auk þess sem hún vildi meina að þeir sem borða íslenskan fisk, helst silung af Melrakkasléttunni, verði vitrari en hinir. Eflaust satt og rétt nema kannski þetta með vitsmunina. Ég hef borðað ótæpilega af fiski í gegnum tíðina en oft finnst mér eins og það sé bara ekkert að frétta, af gáfunum alltso. Annað sem var henni samt kærara voru barnabörnin, fáir standast okkur snúning. Við erum, ef fólk hefur ekki tekið eftir því, afburða vel gefin og falleg. Svo ég vitni í hennar eigin orð um mig sjálfan: „Það klæðir hann Bjössa minn allt.“ Þar sannast líklega hið margkveðna: ef maður heyrir það sama nógu oft fer maður að trúa því sem sannleika, hef ég heyrt.

Hestamennskan var ömmu ofarlega í huga en kannski var hún tilkomin af lífsstíl afa sem var í raun bóndi sem bjó í borg. Hennar aðaláhugamál voru listir og menning af ýmsum toga, var hún óþreytandi að tala um þau hugðarefni en hvað mig varðar þá er ég ekki góður hlustandi og allra síst um ofangreind málefni. Þá kom einn af hennar kostum í ljós, hún gat rætt um hvað sem er við hvern sem er, jafnvel golf en ég veit fyrir víst að hún hafði engan áhuga á þeirri íþrótt og þótti lítið til koma um þá iðkun. Hún komst nú samt að þeirri niðurstöðu eftir samtöl okkar að þetta væri sennilega holl hreyfing. Reyndar vaknaði áhugi ömmu á umræðunni nokkuð þegar Ninna Þórey byrjaði að sýna takta á golfvellinum og hrósaði henni óspart fyrir dugnaðinn og eljuna að mæta margoft í viku á æfingar hvernig sem viðraði. Jú, barnabarnabörnin fengu líka sinn skammt af hrósinu.

Mér verður illa brugðið ef aðrir stinga ekki niður penna og tala um hve glæsileg kona Lillý var, hún gerði allt af miklum myndarskap og hélt fallegt heimili, þar var alltaf allt hreint og fínt. Ekki vegna þess að það væri endalaust verið að undirbúa veisluhöld, umhverfið átti bara að vera snyrtilegt og þurfti ekkert tilefni til. Það er þó til lítils að hafa allt spikk og span ef ekki er hugsað um eigið útlit og var amma vel meðvituð um það. Vitaskuld væri fulldjúpt í árinni tekið að segja að amma vaknaði greidd og tilhöfð á morgnana en fór samt ótrúlega nálægt því. Skipti þá ekki máli hvort það var á Harðbak eða annars staðar. Oft spurði hún mig hvort ég væri að safna skeggi ef ég lét undir höfuð leggjast að raka mig en það vill stundum „gleymast“. Orðhvöss var hún almennt ekki.

Einhverju sinni þó fyrir löngu kom amma heim úr innkaupaleiðangri og mátti sjá á henni að hún var bæði hissa og hneyksluð. Hún hafði séð konu í Hagkaupum með rúllurnar í hárinu eins og ekkert væri sjálfsagðra. Ég man ekki nákvæmlega hvaða orð voru viðhöfð um kæruleysið en það var eitthvað um óheppni með útlit og fólk ætti kannski að líta í spegil við og við. Sjálfur á ég enga hárgreiðu og hef aldrei átt en í dag mun ég fá eina hjá Stebbu og greiða mér áður en ég fer í kirkjuna. Ég mæli með að aðrir sem ætla að mæta geri það líka. Lillý á það alveg inni hjá okkur.

Björn Róbert Jensson.

Í dag kveðjum við móðursystur mína Þorbjörgu Rósu sem alltaf var kölluð Lillý. Hún var yngst sex dætra hjónanna á Harðbak, Margrétar Siggeirsdóttur og Guðmundar Stefánssonar. Einnig ólst upp hjá afa og ömmu Kári Friðriksson sem var nokkrum árum yngri en Lillý. Systurnar sex voru mjög samrýmdar þrátt fyrir að það væru 14 ár á milli þeirra elstu og yngstu, enda oft vísað til Harðbakssystra sem einnar heildar. Þær þóttu glæsilegar þessar systur og báru allar merki síns uppeldis þar sem áhersla var lögð á jákvæða hvatningu, opinn huga, sjálfstæða hugsun og samhygð með samferðamönnum. Heimilið á Harðbak var glaðlynt og gestkvæmt og tekið vel á móti gestum og gangandi. Allir þessir eiginleikar prýddu Lillý og hún var mikill höfðingi heim að sækja. Allt hennar viðmót einkenndist af hlýju og hún hafði sérstakt lag á því að hlusta á fólk og láta það finna að það væri velkomið.

Sterk tengsl og vinátta voru milli fjölskyldu minnar og þeirra Björns. Lillý var um tvítugt barnfóstra bróður míns og leigði þá Björn herbergi hjá foreldrum mínum. Þegar ég fæddist 2 árum síðar bjuggu þessar tvær fjölskyldur hvor í sínu risinu á Hofteigi og voru í daglegum samskiptum. Síðar bjuggum við utan Reykjavíkur, en gistum yfirleitt eða komum við hjá Lillý og Birni þegar við vorum í bænum. Þannig hefur Lillý fylgt mér í gegnum lífið og ég hef notið elskusemi hennar alla tíð. Lillý var alltaf kvenna glæsilegust, vel tilhöfð í því fallega umhverfi sem hún hafði skapað sér og fjölskyldu sinni. Framkoma hennar var einhvern veginn alltaf viðeigandi, orðfærið hófstillt og jákvætt. Þegar ég hafði orð á þessu við mömmu sagði hún að sem stelpa hefði Lillý verið orðhvöt en þar sem henni væri í blóð borið að vanda sig hefði hún með árunum lagt það af. Lillý átti ekki langt skólanám að baki, en hún var bæði fróð og bráðgreind. Mamma sagði að Lillý hefði eflaust farið í Menntaskólann á Akureyri með Fríðu frænku sinni ef hún hefði ekki á þeim tíma átt við augnsjúkdóm að stríða. Þegar leið á ævina gaf líkaminn eftir en þótt hún bognaði var alltaf ákveðin reisn yfir henni. Hún missti heldur aldrei þann metnað að vera bæði vel tilhöfð og að hafa fallegt í kringum sig.

Við Bínsa systir hennar heimsóttum hana vikulega á Hrafnistu þar sem hún var nýlega búin að koma sér vel fyrir. Þar prýddu veggi myndir af afkomendum hennar en Lillý var mjög stolt af sínu fólki. Það voru dýrmætar og skemmtilegar stundir að hlusta á þær systur skrafa um liðna tíma og lyfta með þeim sérríglasi. Ég á eftir að sakna þessara stunda en er ákaflega þakklát fyrir að hafa átt frænku mína að alla tíð. Ég votta börnum, öðrum afkomendum og Bínsu mína dýpstu samúð, missir þeirra er mestur.

Elín Rögnvaldsdóttir.

Við lindina í hrauninu

óx lítið blóm

átti draum um ástina og daginn

meðan gleðin varaði

tíminn fór höndum um söknuðinn

sársaukinn múraður inni

blómstrandi blómið

vekur fögnuð og frið

(Bergmál)

Lillý frænka hefur kvatt okkur. Ég þakka henni frændsemi og vináttu, stundirnar þegar við vorum ungar og gleðin var við völd, ekkert raunaþungt. Lillý var yngst sex systra sem bjuggu á æskuárunum ásamt foreldrum sínum á Harðbak á Melrakkasléttu. Lillý giftist Birni Guðmundssyni og þau eignuðust þrjú börn, Þóreyju, Margréti, sem er látin, og Guðmund Ásgeir. Lillý og Björn bjuggu fjölskyldunni sérlega fallegt heimili. Lillý var afar glæsileg kona, unni öllu sem fagurt var og fíngert. Hún var mild í orðum, hlédræg, átti gott með að sjá það skoplega í lífinu og sýndi það gjarnan í góðra vina hópi.

Með hlýju í hjarta kveð ég mína kæru frænku. Börnum Lillýjar, Þóreyju og Guðmundi Ásgeiri, Birni Róbert og fjölskyldunni allri votta ég dýpstu samúð mína við fráfall hennar. Blessuð sé minning Þorbjargar Guðmundsdóttur.

Hólmfríður Sigurðardóttir.

Innan fjölskyldunnar var hún alltaf kölluð Lillý. Hún var yngst Harðbakssystranna, sem voru sex. Nú er bara Jakobína, fyrrverandi skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík, ein eftirlifandi en allar hafa systurnar látist á tíræðisaldri. Harðbakur á Melrakkasléttu er á frekar afskekktu svæði landsins enda vitjaði hvorki spænska veikin né berklarnir heimilisins. Til helstu kosta jarðarinnar voru hin ýmsu hlunnindi til lands og sjávar. Fyrir utan hefðbundinn íslenskan heimilismat var alltaf unnt að ná í nýjan silung úr vötnunum og sækja fisk í soðið þegar vel viðraði. Móðir mín Ása hafði eftir móður sinni, ömmu Margréti, að frostaveturinn mikla 1918 hefði aldrei slokknað í ofninum því alltaf var nægur eldiviður af rekanum.

Eitt sumarið bað amma móður mína að passa Lillý, en á milli þeirra voru 11 ár. Mamma gerði það með ánægju og ekki spillti að hún fékk ljóðabók Jónasar Hallgrímssonar að launum, en hann var uppáhaldsljóðskáld mömmu til hinstu stundar. Á meðal Harðbakssystranna var ætíð mikil samheldni og samvinna um alla hluti, ekki síst í umhugsun um velferð afkomendanna. Á milli mömmu og Lillýjar var alveg sérstakt samband, sem þær ræktuðu frá barnæsku. Lillý var glæsileg kona, mild í skapi, glaðvær og með mjög elskulega og fallega framkomu. Hún giftist Birni Guðmundssyni flugstjóra og eignuðust þau þrjú börn. Þegar foreldrar mínir bjuggu á Stórólfshvoli var það mikið tilhlökkunarefni að fá þá fjölskyldu í heimsókn um jólin og oft voru þar ein til tvær aðrar systrafjölskyldur yfir jóladagana. Kom sér vel að læknisbústaðurinn hafði líka verið sjúkraskýli fyrr á tíð og því margar vistarverur og auðvelt að hýsa marga gesti. Þarna voru glæsileg veisluborð, mikið spilað og teflt en systurnar gættu þess að líka væri mikið sungið og dansað. Ég naut þess að Björn flugstjóri var hrifinn af þeim harmónikuleik sem var í boði, þótt hljóðfæraleikarinn væri ekki sérstaklega lærður. Hann bauð mér með sér í styttri flugferðir og síðar á sjöunda áratugnum, þegar kreppa var á Íslandi, kom hann mér og raunar áður Guðmundi bróður í vinnu í Kaupmannahöfn við flugstarfsemi þar. Sannkallaður velgjörðamaður okkar.

Það var mikið áfall fyrir Lillý þegar Magga dóttir hennar lést af skæðum sjúkdómi langt fyrir aldur fram. Líka var það henni mjög þungbært að missa Björn þótt á háum aldri megi búast við slíku. Hún sýndi af sér mikið æðruleysi og sagðist hafa fengið aukinn styrk til að takast á við áföllin.

Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti til Lillýjar frænku fyrir velvild og vináttu í minn garð og minna alla tíð. Blessuð sé minning hennar.

Innilegar samúðarkveðjur frá okkur Sólveigu til Þóreyjar, Guðmundar Ásgeirs, fjölskyldna þeirra og Möggu og annarra vandamanna.

Gestur Þorgeirsson.

Hún Þorbjörg, kær vinkona okkar hjóna og sona, er látin, en bjartar minningar um elskulega og glæsilega konu munu lifa áfram í hugum okkar. Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg liðinna ára. Fjölmargar minningar eigum við um hjónin Þorbjörgu og Björn heitinn Guðmundsson flugstjóra, frá samvistunum við þau og við minnumst þeirra stunda með virðingu og gleði. Flestar þær stundir tengdust ræktun og fegrun landsins, landgræðslufluginu og hestamennsku. Okkur Oddnýju er afar minnisstætt hvernig Þorbjörg ræktaði syni okkar og virti. Þorbjörg var alltaf höfðingleg í allri framgöngu og fasi, var gædd miklum mannkostum, góðum gáfum, velviljuð og vinaföst. Hún var ákaflega hógvær kona, trygg vinum sínum og var afar heilsteypt manneskja. Heimili þeirra hjóna, bæði í Reykjavík og í sumarhúsi þeirra á Glæsivöllum, voru afar smekkleg og glæsileg í senn enda hjónin einstaklega gestrisin og höfðingjar heim að sækja. Þorbjörg var einstök húsmóðir, listagóð matreiðslukona og við borð hennar var alltaf pláss. Heimilishættir þeirra hjóna voru rómaðir, eins og mætur maður skrifaði: „Allir, sem þau hjónin sóttu heim, hafa góðar minningar frá heimili þeirra.“

Líf og starf Þorbjargar tengdist störfum Björns við flugið, sem var hans aðalstarf og ásamt hestamennskunni helsta áhugamál í nærri hálfa öld. Hún var Birni stoð og stytta í hans fjölþættu og ómetanlegu verkefnum, meðal annars til stuðnings landgræðslu á Íslandi.

Að leiðarlokum er okkur efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu sem aldrei bar skugga á. Það var okkur mikill heiður að fá að kynnast Þorbjörgu. Öll voru þau samskipti á einn veg, hún var traust vinkona, hrein og bein og frá henni stafaði mikil innri hlýja. Það voru forréttindi að kynnast henni og minningin lifir um einstakan höfðingja.

Fjölskyldur, ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfa konu með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hana svo lengi. Megi almættið, sem leiðir okkur og alla þá er hjarta þitt sló fyrir, leiða þig í sólina kæra Þorbjörg.

Við hjónin og synirnir vottum fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar.

Oddný, Sveinn og synir

frá Gunnarsholti.

Þorbjörg Rósa Guðmundsdóttir (Lillý) sem í dag er kvödd hinstu kveðju var yngst sex samhentra systra sem fæddust og ólust upp á Harðbaki á Melrakkasléttu, nánast í beinni snertingu við norðurheimskautsbaug. Hún átti sinn þátt í að festa í sessi það orðspor glæsileika og glaðværðar sem fór af Harðbakssystrum. Og nú segir þjóðsagan að ekki hafi þótt taka því að halda böll á Sléttu nema þátttaka systranna væri tryggð. Kom sér vel að böllin voru oft haldin í stofunni heima á Harðbaki. Lillý bar uppruna sínum og æskukjörum fagurt vitni. Þótt Harðbakur væri ekki búsældarlegasta jörð á Íslandi né auðveldust til lífsviðurværis þá nægði dugnaður og útsjónarsemi ábúendanna, Guðmundar og Margrétar, til þess að þar skorti aldrei neitt. Eldhúsið og búrið voru nægtabrunnar, ekki síst vegna þess að náttúrukostir jarðarinnar voru gjöfulir ef þeir voru nýttir af atorku og skilningi á náttúru landsins. Margrét hafði á sínum yngri árum lært kjólasaum í Reykjavík og ýmsa aðra kröfuharða handmennt. Því var ekkert slegið af tískukröfum á Harðbaksheimilinu þótt það stæði við ysta haf. Ofan á þessar veraldlegu aðstæður bættust samhent mannrækt, örlæti og glaðværð. Þessi umgjörð uppeldis stuðlaði að heilbrigðu sjálfstrausti, jákvæðu lífsviðhorfi og umburðarlyndi, allt eiginleikar sem prýddu Lillý og hún veitti öðrum af í ríkum mæli. Hún var heilsteyptur smekkvís fagurkeri en einnig hófstilltur húmoristi. Heima á Harðbaki vann hún að fjölbreyttum bústörfum og tók þátt í síldarævintýrinu á Raufarhöfn en eftir námslok í Héraðsskólanum á Laugarvatni vann hún við verslunarstörf í Reykjavík þar til heimilishald og barnauppeldi varð miðpunkturinn í hennar lífi. Seinna réðst hún til gæslu- og leiðbeiningarstarfa á Listasafni Íslands sem hún naut í ríkum mæli og gáfu henni tækifæri til að dýpka þekkingu sína og rækta smekkvísi hins fágaða fagurkera.

Björn Guðmundsson, eiginmaður hennar, fór aldrei í launkofa með skoðanir sínar og viðhorf. Enginn sem til þekkti efaðist um að í hans ríki sat Lillý í drottningarsæti. Þau voru hamingjufólk og samhent í að rækta sinn hamingjugarð, fjölskylduna, börn og barnabörn. Í minni æsku ólst ég upp við þá frásögn að innan hins samhenta systrahóps hafi Ása móðir mín og Lillý verið sérstakir samherjar og bandamenn þótt sú staðreynd hafi að sjálfsögðu ekki skyggt á kærleika og samstöðu innan systrahópsins. Mér fannst því ekkert tiltökumál þegar ég kom úr sveitinni til menntaskólanáms í Reykjavík 16 ára gamall að Björn og Lillý tækju mig inn á heimili sitt fullt af börnum, og nafni minn Björnsson nýfæddur. Ég var þó ekki skyni skroppnari en svo að fljótlega varð mér mér ljóst hvílíkt örlæti og tryggð fólst í þeim gjörningi og hvílíkur lukkunnar pamfíll ég væri. Þakkarskuld mín er stór og ævilöng.

Á hinstu kveðjustund Lillýjar sendum við Bryndís innilegar samúðarkveðjur til Þóreyjar og Gumma og allra afkomenda og fylgihnatta heimilisins sem á sínum tíma stóð í Karfavogi 20, og hugsum líka með söknuði til Björns og Möggu. Blessuð sé minning þeirra allra.

Guðmundur

Þorgeirsson.