Ragnar Bogason
Ragnar Bogason
Varðveita þarf mannauð, reynslu og sambönd fyrirtækja í ferðaþjónustu til að geta brugðist við væntanlegum kipp í komum ferðamanna

Ragnar Bogason er spenntur að sjá hvernig nýr miðbæjarkjarni Selfoss mun styðja við ferðaþjónustuna á svæðinu. Ragnar er framkvæmdastjóri Hótel Selfoss en hann hefur stýrt fyrirtækinu frá árinu 2014 og því getað fylgst vel með hvernig bærinn hefur notið góðs af auknum straumi ferðamanna um svæðið.

Saga Hótel Selfoss nær allt aftur til ársins 1984 þegar Selfyssingar reistu sér félagsheimili með 20 herbergjum fyrir gesti. Um aldamótin bættust við 79 herbergi og árið 2016 40 herbergi til viðbótar svo að hótelherbergin eru í dag 139 talsins. Aðstaðan er eins og best verður á kosið og státar þetta fjögurra stjörnu hótel m.a. af snyrtistofu, heilsulind, veitingastað og ráðstefnusölum sem rúma viðburði og skemmtanir fyrir allt að 500 manns.

Ekki kemur á óvart að kórónuveirufaraldurinn skyldi hafa neikvæð áhrif á rekstur hótelsins en Ragnar segir að smám saman hafi gestum tekið að fjölga á ný og var nóg að gera á hótelinu síðasta sumar. „Við sjáum það æ oftar að gestir dvelja á hótelinu í vikutíma og nota Selfoss sem sína bækistöð til að skoða Suðurlandið. Við erum ofboðslega vel staðsett bæði þegar kemur að tengingum við flugvöllinn í Keflavík, við höfuðborgina og við náttúruperlur Suðurlands, og fyrir þá sem vilja t.d. fara í dagsferð austur að Jökulsárlóni munar um að leggja af stað héðan frekar en frá Reykjavík.“

Yfir vetrarmánuðina verða íslenskir gestir meira áberandi og vinsælt hjá landanum að eiga notalega og rómantíska helgi á hótelinu. Þá hefur Hótel Selfoss einnig hitt í mark sem góður staður til að halda árshátíðir, ráðstefnur og fundi.

Gestirnir vilja gott úrval

Ragnar sér mörg sóknartækifæri fyrir svæðið og bendir hann á hvernig nýi miðbærinn mun vafalaust laða að enn fleiri gesti og fá fólk til að staldra lengur við á Selfossi. Hann segir ferðalanga vilja gista á hótelum sem eru ekki of langt frá verslunum, veitingastöðum og afþreyingu: „Fólk vill geta brugðið sér út af hótelinu og labbað um fallegan miðbæ, kíkt í búðarglugga og haft um marga kosti að velja þegar kemur að mat og drykk. Það gerir mikið fyrir Hótel Selfoss að geta markaðssett hótelið með því að benda á að hér sé líflegur og áhugaverður miðbæjarkjarni rétt hjá.“

Á Ragnar ekki von á öðru en að erlendum ferðamönnum muni fjölga mjög hratt þegar hefur tekist að kveða kórónuveiruna fyllilega í kútinn og koma flugsamgöngum í eðlilegt horf. Hann bendir á að eftir allt það sem gengið hefur á undanfarin tvö ár megi reikna með að ferðalangar muni verða mjög áhugasamir um áfangastaði þar sem ekki er mikið kraðak og hægt að upplifa hreinleika og ferskleika náttúrunnar. Þá er líklegt að margir hafi notað tímann í faraldrinum til að leggja drög að ferðalögum hingað og þangað og gert það upp við sig að láta loksins þann draum rætast að sækja Ísland heim.

En þegar það gerist þarf ferðaþjónustan að ráða við álagið og hefur Ragnar áhyggjur af að það muni ganga treglega að endurvekja ferðaþjónustufyrirtæki sem fóru illa út úr faraldrinum. „Sem atvinnugrein er ferðaþjónustan eitt heildstætt gangverk þar sem öll fyrirtækin styðja hvert við annað. Ef eitt fyrirtæki dettur út, svo að ákveðna þjónustu vantar eða afþreyingarkostum fækkar, þá standa hin fyrirtækin verr að vígi sem því nemur. Er ekki hægt að stóla á að ný fyrirtæki fylli svo glatt í skarðið því hjá þeim fyrirtækjum sem hafa átt erfitt uppdráttar undanfarin misseri hefur orðið til dýrmæt reynsla, þekking og sambönd sem þau hafa byggt upp á löngum tíma. Er eðlilegt að skoða hvort að stjórnvöld þurfi ekki að reyna að leggja sitt af mörkum til að gera fyrirtækjunum fært að vera í viðbragðsstöðu þegar þar að kemur og halda í þann dýrmæta mannauð sem greinin hefur eignast og má alls ekki tapa.“

ai@mbl.is