Það er mjög jólalegt um að litast í miðbænum þegar kveikt hefur verið á ljósaseríunum.
Það er mjög jólalegt um að litast í miðbænum þegar kveikt hefur verið á ljósaseríunum. — Ljósmyndir/Árborg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jólaljósin fegra nýja miðbæinn og ekki annað hægt en að komast í ekta jólaskap þegar jólasveinarnir mæta á svæðið

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Reikna má með mjög hátíðlegri upplifun á Selfossi í aðdraganda jóla, enda hefur nýi miðbærinn skapað einkar rómantíska umgjörð þar sem jólaskrautið fær að njóta sín.

Bragi Bjarnason, deildarstjóri frístunda- og menningardeildar Árborgar, segir Selfoss búa að alls kyns skemmtilegum jólahefðum og margt um að vera á öllu Árborgarsvæðinu á aðventu.

„Stærsti jólaviðburðurinn ár hvert er þegar jólasveinarnir, ásamt Grýlu og föruneyti, taka eina af rútum Guðmundar Tyrfingssonar traustataki og koma akandi yfir brúna og inn í miðju bæjarins,“ útskýrir Bragi en börnin á svæðinu vita sem er að jólasveinarnir búa í Ingólfsfjalli, á milli Hveragerðis og Selfoss. „Stundum má sjá ljós í fjallinu og eru sumir sem halda að þar séu vinnuvélar að störfum í malarnámunum í hlíðum fjallsins en það er mun sennilegra, og skemmtilegri saga, að ljósin í Ingólfsfjalli séu til marks um að jólasveinarnir séu í óðaönn að undirbúa komu jólanna.“

Jóladagskrá allar helgar

Að því er Bragi best veit hafa jólasveinarnir notað rútur Guðmundar Tyrfingssonar með þessum hætti a.m.k. síðan um aldamótin þótt hefðin sé hátt í fjörutíu ára gömul. „Þeir koma úr vesturátt, með miklum látum og fjöri, og stöðva rútuna miðsvæðis til að hitta börnin, knúsa þau, syngja með þeim og dansa. Jólasveinarnir og foreldrar þeirra syngja og skemmta uppi á sviði og koma öllum í jólaskap áður en þau safnast aftur upp í rútuna og halda út í buskann.“

Fer jólasveinaskemmtunin fram annan laugardag í desember, sem í þetta skiptið lendir á ellefta degi mánaðarins. „Þar sem við höfum eignast nýtt miðbæjartorg færast hátíðahöldin þangað og búið að skreyta bæði torgið og allan bæinn með fallegum jólaljósum. Er rétt að minna á að það er meira um að vera en koma jólasveinanna og verðum við með skemmti- og viðburðadagskrá alla laugardaga og sunnudaga á aðventu. Landsþekktir skemmtikraftar mæta á svæðið milli kl. 14 og 16 og flytja jólatónlist. Til að auka enn frekar á stemninguna verða sölubásar í nýja miðbænum þar sem kaupa má heitt kakó og ristaðar möndlur og ugglaust mun jólaleg anganin koma gestum í hátíðarskap,“ segir Bragi og undirstrikar að vitaskuld verði gætt að smitvörnum í takt við tilmæli stjórnvalda hverju sinni.

Tilefni til að fara í góðan jólabíltúr

Er næsta víst að það verður mjög jólalegt um að litast í nýja miðbænum, og ef snjóar ætti bærinn að líta út eins og fallegt póstkort enda fóru arkitektar svæðisins þá leið að endurvekja mörg af fegurstu húsum íslenskrar byggingarsögu. „Í nýju verslunargötunni, Brúarstræti, hefur nú verið sett upp nokkurs konar himnasæng af ljósum eftir allri götunni og á nýja torginu verður ljósum skreytt jólatré,“ útskýrir Bragi.

Lesendur ættu endilega að skoða sig vel um á Selfossi á aðventu en gleyma líka ekki að upplifa jólastemninguna annars staðar í sveitarfélaginu Árborg. Bragi minnir á að verslunar- og veitingasvæði Selfoss teygir sig út frá nýja miðbænum eftir Austurvegi og Eyrarvegi og að finna má ýmsa þjónustu og menningarstarfsemi bæði á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri. „Við eigum fjölda landsfrægra veitingastaða sem bjóða ýmist upp á jólahlaðborð eða jólamatseðil, og verslanaflóran er slík að hér er upplagt að gera jólainnkaupin fjarri þeirri ös sem stundum vill einkenna verslunarkjarnana á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma árs. Það getur verið skemmtileg vetrarhefð fyrir höfðuborgarbúa að taka góðan bíltúr og verja deginum á þessum slóðum eða jafnvel gista eins og eina nótt og gera vel við sig í mat og drykk. Er gaman að sjá náttúruperlur eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysi í vetrarskrúða, eða upplifa suðurströndina í vetrarham, en menningarlífið er líka í blóma á þessum tíma og t.d. merkileg jólasýning á Byggðasafni Árnesinga og tónleikahald hér og þar í sveitarfélaginu,“ útskýrir Bragi og minnir á vefsíðuna www.arborg.is þar sem finna má lista yfir alla jólaviðburðina á einum stað.

Af öðrum hefðum sem gestir hefðu gaman af að kynnast er jólaglugga-verkefnið þar sem verslanir og fyrirtæki í Sveitarfélaginu Árborg taka höndum saman um að búa til nokkurs konar jóladagatal. „Á hverjum stað er einn gluggi skreyttur mjög ríkulega og einn bókstafur falinn í glugganum. Heimamenn og gestir fá það verkefni að finna bókstafina og giska á hvaða orð þeir mynda og rita á þar til gerðan seðil sem fer í pott sem við drögum úr.“