Helgi R. Einarsson sendi mér „smá hugdettur“: Prinsipp Svandís er hrifin af sveinum, en sefur þó aldrei hjá neinum, því prinsippið er með piltana hér að halda þeim öllum hreinum. Þessi er úr annarri átt.

Helgi R. Einarsson sendi mér „smá hugdettur“:

Prinsipp

Svandís er hrifin af sveinum,

en sefur þó aldrei hjá neinum,

því prinsippið er

með piltana hér

að halda þeim öllum hreinum.

Þessi er úr annarri átt.

Uppgjör

Eftir að Birna barði

Varða frá Vinaskarði

brosti' ún til Barða,

sem það bros lét sig varða,

enda vildi' ana fyrr en (V) varði.

Magnús Geir Guðmundsson sagði á þriðjudag: „Nú rauk'ann upp líka nyrðra!“ og orti:

Nú hraustlega rífur í runnann

og riðar mín öskutunnan.

Líkt og oft áður,

er ófriður bráður.

Andskotans sending að sunnan!

Ég fékk góðan póst: Bessi Vésteinsson og Ýtu-Bjarni unnu á dögunum við að brjóta ný tún í Skagafirði. Gunnar Rögnvaldsson orti:

Spái ég að spilda þessi

spretti vel er hækkar sól.

Þar sem Ýtu-Bjarni og Bessi

báðir unnu með sín tól.

Þórarinn Eldjárn yrkir á Degi íslenskrar tungu, afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar:

Örkum nú þrátt fyrir ágjöf og fjúk

áfram þennan veg.

Tungan er auðlind sem eflist við brúk

endurnýjanleg.

Gunnar Hólm Hjálmarsson orti á Boðnarmiði „í tilefni dagsins“:

Dugar jafnt í dagsins önn

sem draumi skáldsins spuna.

Sjaldan vefst þeim tunga um tönn

sem tala íslenskuna.

Og Magnús Halldórsson yrkir „Bullvísa í tilefni dagsins“:

Lafhræddur Sæfinnur sigldi,

samstundis henni frá.

Þegar að ögldin sig ygldi,

öldujónum hjá.

Magnús Geir Guðmundsson kveður og kallar „Dag íslenskrar tungu 2021“:

Meðan áfram dreg loft í lungu,

á lífsskeiði ennþá svo ungu.

Vil ég andlega efnast

og auðmjúkur nefnast.

Ástmögur íslenskrar tungu!

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is