Það blasir við að lausatök á næstu misserum eru ekki boðlegur kostur fyrir ríkisstjórnina

Verðbólga er eitur í beinum Þjóðverja og er það viðhorf og sú saga sem er ástæða þess flestum vel kunn. Nú standa mál þannig í ríkjunum sem mynda ESB að verðbólgumæling sýnir að Þýskaland er núna með hvaða lakasta stöðu í þessum efnum. Má rétt ímynda sér hvernig þýsk þjóð og forysta hennar kann við sig í þeirri stöðu. Þó þarf ekki að nefna að verðbólgutölurnar í umræðunni hefðu ekki þótt tiltökumál hér á landi í fyrri tíð.

Og það eru fleiri með áhyggjur og ekki að ástæðulausu. Englandsbanki og ríkisstjórn Bretlands liggja undir þungri gagnrýni fyrir það hvernig haldið hefur verið á verðbólgumálum seinustu misserin. Og sé horft vestur um haf þá eru verðbólgutölurnar þar nær því að vera nálægur óhugnaður en gamanmál og þarf að fara langa tíð aftur til að sjá slíka mynd. Furðulegar fjárhagstillögur þeirra sem stjórna Joe Biden eru sannarlega ekki fallnar til þess að skapa bjartsýni og ró í landinu.

Umræða er nú á okkar heimaslóð um nýjustu ákvarðanir Seðlabankans og rökstuðning bankans fyrir þeim. Og vantar lítið upp á það að ýmsir sýnast hafa misst sig illa vegna þeirra sjálfsögðu skrefa sem bankinn steig og var í raun neyddur til að draga ekki lengur.

Þeim, sem stóðu að gerð kjarasamninga í síðustu lotu, hlýtur að vera ljóst og reyndar orðið það fyrir löngu, að þeir lifðu í draumalandi eða skammtímaórum, þegar sú leið var vörðuð, svo ógrunduð sem hún var.

Vitað er að þeir sem búa í sýndarheimi af slíku tagi hrökkva fyrr en síðar upp með ónotum og geta engum kennt um nema sjálfum sér, sem bætir ekki úr. En það sem verra er að það verða umbjóðendur þeirra eða skjólstæðingar, fyrirtækin og fólkið sem þar starfar, sem þurfa að fást við afleiðingar af ákvörðunum sem veikar eða engar forsendur gátu réttlætt.

Hér á landi voru stigin mun stærri skref út í ógöngurnar en gert var annars staðar, einmitt „í löndunum sem við berum okkur saman við“. Og það þýðir að samkeppnisstaðan út á við veikist eins og hendi sé veifað, og atvinnuleysið er það sem fyrst drepur á dyr þegar þannig er staðið að verki. Það gerir svo vont mun verra þegar ein stærsta eining þjóðfélagsskipunarinnar, sjálf höfuðborg landsins, birtist um sömu mundir sem vita stjórnlaust fyrirbæri, með fjárhagslega stöðu sína verri en áður hefur sést þar og undirstöðu framfara, skipulagsmálin, í hreinu uppnámi. Þegar þetta tvennt er í glórulausu uppnámi í stærsta sveitarfélagi landsins verður fátt til bjargar þar.

Svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins bera sameiginlega og meira eða minna jafna ábyrgð á því hversu djarft var siglt upp í vindinn, þótt engar spár eða áætlanir réttlættu slíka för.

Seðlabankanum mætti kenna um ef hann hefðist ekki að, en fráleitt er að áfellast hann fyrir hið gagnstæða.