Suðurland Endurtaka þarf ferli sameiningar og kjósa aftur.
Suðurland Endurtaka þarf ferli sameiningar og kjósa aftur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Takmarkaður áhugi virðist vera hjá þeim sveitarstjórnum á Suðurlandi þar sem íbúarnir samþykktu sameiningu í haust að fara í nýjar sameiningarkosningar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Takmarkaður áhugi virðist vera hjá þeim sveitarstjórnum á Suðurlandi þar sem íbúarnir samþykktu sameiningu í haust að fara í nýjar sameiningarkosningar. Frumkvæðið nú kemur frá sveitarstjórn Skaftárhrepps en þar var fyrri sameiningartillagan samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Sveitarstjórn Rangárþings ytra er að kanna vilja íbúa til sameiningar og þá hvernig sameiningu þeir vilja skoða.

Tillaga um sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi var samþykkt af meirihluta íbúa í fjórum sveitarfélögum en felld í einu. 75% íbúa Skaftárhrepps sögðu já og sömuleiðis 51-52% íbúa Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Mýrdalshrepps. Aftur á móti sögðu 80% þeirra íbúa Ásahrepps sem þátt tóku nei.

Þarf nýja umferð

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum hefði sveitarstjórnunum fjórum þar sem sameiningartillaga var samþykkt verið heimilt að ákveða sameiningu, án Ásahrepps. Allar sveitarstjórnirnar höfðu hins vegar lýst því yfir fyrir atkvæðagreiðsluna að þær myndu ekki nýta þessa heimild. Þurfa því nýjar sameiningarviðræður og eftir atvikum ný atkvæðagreiðsla að fara fram. Sveitarstjórn Skaftárhrepps vildi láta reyna á það.

Bjarki Guðnason, oddviti Skaftárhrepps, segir að aðalástæðan fyrir frumkvæði sveitarstjórnarinnar sé sá afgerandi vilji sem íbúar þar sýndu til sameiningar. Hins vegar virðist takmarkaður áhugi hjá hinum sveitarstjórnunum og telur hann ólíklegt að gengið verði til nýrra sameiningarviðræðna í vetur. Stutt sé til kosninga til sveitarstjórna.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra ákvað að fresta afgreiðslu erindis Skaftárhrepps á meðan fram færi könnun á afstöðu íbúa sveitarfélagsins til sameiningar. Spurt verður hvort íbúar vilji skoða umrædda sameiningu, sameiningu með Rangárþingi eystra eða láta staðar numið í sameiningarmálum.

Þegar erindi Skaftárhrepps var tekið fyrir í sveitarstjórn Mýrdalshrepps var bókuð sú afstaða að eðlilegt væri að bíða með frekari viðræður að svo stöddu og þess í stað lögð áhersla á framgang verkefnisins Stafrænt Suðurland. Markmið þess er að móta eins konar stafrænt ráðhús og þjónustuver fyrir sveitarfélögin.