Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur á næsta ári verði 5,1%.

Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur á næsta ári verði 5,1%. Í Peningamálum birtir bankinn hins vegar svokallað fráviksdæmi sem sýnir hvaða áhrif það hefði á hagvöxt komandi ára ef heimilin myndu haga sparnaði sínum með öðrum hætti en reyndin hefur verið síðustu misseri.

Þannig birtist í frávikinu dæmi þar sem heimilin taka að ganga hraðar á uppsafnaðan sparnað en gengið er út frá að þau geri samkvæmt grunnspá bankans.

„Gangi það eftir gæti vöxtur einkaneyslu reynst meiri á spátímanum en felst í grunnspánni.“ Í henni er gert ráð fyrir hægari vexti einkaneyslu á næsta ári en verið hefur en að horfur séu á 4% árlegum vexti að meðaltali út spátímann. Líkt og meðfylgjandi graf sýnir myndi hagvöxtur á komandi árum vaxa um 6% á næsta ári, eða 0,9 prósentum meira en samkvæmt grunnspánni ef einkaneyslan vex um 6,7% í stað 3,8% líkt og fyrrnefnd grunnspá gefur til kynna. Nýjar tölur Hagstofunnar um kortaveltu heimilanna, og fjallað var um í ViðskiptaMogganum í gær, gætu bent til þess að einkaneyslan sé að aukast. Þær tölur birtust hins vegar eftir að Seðlabankinn lauk við gerð hagspár sinnar sem birt er í Peningamálum.