Sonja Bent lifir og hrærist í ilmkjarnaolíum og er með vel þjálfað nef.
Sonja Bent lifir og hrærist í ilmkjarnaolíum og er með vel þjálfað nef.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Skyrlandi má eiga merkilega ilmupplifun

Samhliða uppbyggingu nýja miðbæjarins á Selfossi hefur bærinn eignast ný kennileiti og áfangastaði fyrir ferðamenn og stendur þar skyrsafnið Skyrland upp úr.

Í Skyrlandi kennir ýmissa grasa en eins og nafnið gefur til kynna er starfsemin tileinkuð sögu og sérkennum íslenskra mjólkurafurða. Skyrið er í aðalhlutverki enda hefur þessi merkilega íslenska ofurfæða sigrað heiminn og hægt að finna skyrdósir í hillum verslana hvort heldur í Texas eða Tókýó.

Sýningin í Skyrlandi er fjölbreytt og fræðandi en meðal þeirra rýma sem hafa vakið hvað mesta athygli er ilm-upplifunin sem þar er að finna. Sonja Bent er ilmhönnuður og eigandi ilmfyrirtækisins Nordic angan sem á heiðurinn af ilm-innsetningunni í Skyrlandi.

„Árið 2019 hönnuðum við og kynntum til sögunnar svokallaða ilmsturtu, sem við höfum núna sett upp í nýjum búningi á Skyrsafninu með það fyrir augum að fólk geti upplifað ilminn af íslensku sumri. Einnig hönnuðum við innsetningu sem minnir á nokkurs konar tilraunastofu og gefur gestum kost á að „smakka“ ólíka ilmi sem hafa tengingu við íslenskt skyr og íslenska náttúru,“ útskýrir Sonja.

Hughrif og heilsubót

Að stíga inn í ilmsturtuna í Skyrlandi er mjög óvenjuleg upplifun. Gestir stíga inn í nokkurs konar gróðurhús og finna þar takka sem hleypir út ilmandi þurrgufuskýi sem fyllir rýmið. „Ilmskýið verður til í þar til gerðum olíulampa sem notar hljóðbylgjur til að brjóta niður ilmkjarnaolíur sem hafa verið leystar upp í vatni, og er útkoman ilmrík þoka,“ lýsir Sonja og minnir á að nefið er það skynfæri sem getur framkallað hvað sterkust andleg áhrif. „Við erum sífellt að bæta skilning okkar á mikilvægi ilmefna og t.d. gaman að segja frá því að japanskir læknar hafa tekið upp á að gefa kvíða- og þunglyndissjúklingum ávísun á dvöl í heilsulindum úti í skógi. Hafa þarlendir vísindamenn uppgötvað að trén í skóginum losa frá sér út í andrúmsloftið angan og efni sem að gera taugunum gott og hjálpa fólki að kljást við það álag sem lífið færir því. Efnagreining á ilmolíum sem unnar eru úr íslenskum jurtum hefur leitt í ljós að þær kunna líka að búa yfir heilsubætandi eiginleikum og innihalda t.d. mikið magn kvíðastillandi, verkjastillandi og bólgustillandi efna.“

Safna ilmum úr íslenskri náttúru

Nordic angan hóf starfsemi fyrir átta árum, þökk sé styrk frá Rannís. Í byrjun gekk verkefnið út á að fanga og flokka ilmefni úr íslenskri náttúru en í seinni tíð hefur Nordic angan látið að sér kveða við ilmhönnun og t.d. aðstoðað fyrirtæki við að hanna ilmvötn sem og ilmupplifanir til að skapa jákvæð hughrif þegar fólk kemur inn í verslunar- eða þjónusturými.

Nordic angan hefur safnað yfir 150 ólíkum ilmefnum sem eru eimuð úr plöntum með ýmsum aðferðum, s.s. gufueimingu, kolsýrueimingu og með leysiefnum. „Við leitum fanga bæði í sjó og á landi og höldum áfram að þróa vinnsluaðferðir okkar. Nýjasta tækið okkar notar undirþrýsting til að draga ilmefni úr hráefninu en með nýjum aðferðum getum við oft náð nýjum ilmtónum úr sömu plöntunni.“

Útkoman er ilmsterk olía eða þykkni sem þarf síðan að blanda við önnur efni í réttum hlutföllum til að úr verði neytendavara. Í tilviki ilmsturtunnar í Skyrlandi tók það tvö ár að finna réttu blönduna. „Við byrjuðum á að vinna með ilminn af grastegundum og mosa en kannanir hafa sýnt að mörgum finnst besta sumarlyktin vera af nýslegnum túnum. Við nánari skoðun reyndist ilmur af grasi skapa of einhæfa upplifun svo við bættum við tónum sem endurspegla breytileika jurtaríkisins yfir sumarið, þar sem sumir ilmir eru meira áberandi á fyrstu vordögum en aðrir tónar taka við eftir því sem dregur nær hausti: frá römmum aspar-tónum yfir í dísæta angan af nýútsprungu birki, í bland við blóðberg og mosa.“

Er vissara að láta ofnæmissjúklingana í hópi lesenda vita að þeir þurfa ekki að óttast að fá stíflað nef og rauð augu þótt þeir stígi inn í ilmsturtuna, enda verða ofnæmisvaldarnir eftir þegar ilmkjarnaoliurnar eru eimaðar úr jurtunum. „Við munum svo halda áfram að þróa þessa upplifun og jafnvel þróa ilmblöndur svo fólk geti fundið anganina af öðrum árstíðum,“ segir Sonja. „Þá munum við hvað úr hverju hefja sölu á ilmolíum sem nota sömu blöndu og í ilmsturtunni svo að fólk getið tekið anganina af íslensku sumri með sér, hvort heldur sem gjöf handa vinum og ættingjum eða til að endurskapa ilminn af Íslandi heima í stofu. Draumurinn er síðan að búa til ilmsturtusjálfsala á Keflavíkurflugvelli þar sem fólk getur hlaðið batteríin á milli langra flugferða og baðað sig í angan íslenskrar náttúru, allan sólarhringinn, allan ársins hring.“ ai@mbl.is