Höfundurinn „Kolbeinsey ætla ég að útnefna ólíkindatól jólabókaflóðsins, það er kynlegur kvistur sem er ekki allur þar sem hann er séður,“ segir gagnrýnandi um nýjustu skáldsögu Bergsveins Birgissonar.
Höfundurinn „Kolbeinsey ætla ég að útnefna ólíkindatól jólabókaflóðsins, það er kynlegur kvistur sem er ekki allur þar sem hann er séður,“ segir gagnrýnandi um nýjustu skáldsögu Bergsveins Birgissonar. — Ljósmynd/Gulla Yngva
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bergsvein Birgisson. Bjartur, 2021. Innbundin, 208 bls.
Kolbeinsey eftir Bergsvein Birgisson er saga tveggja vina, sögumannsins og æskuvinar hans, sem saman leggja af stað í ferðalag á flótta undan hjúkrunarkonunni ógurlegu, sem þeir félagar uppnefna Maddam Hríslukvist. Vinurinn, sem er alltaf kallaður þunglyndi vinurinn, hafði verið vistaður á geðdeild en þegar sögumaðurinn er settur í heimsóknarbann ákveður hann að hjálpa vini sínum að strjúka af stofnuninni. Upphefst þá ferðalag vítt og breitt um landið.

Bergsveinn stígur hér inn í hefð ferðasagna, verka þar sem ákveðinni framvindu er komið af stað með því að flytja persónur milli staða. Þessi ferðalög eru oftar en ekki táknmynd fyrir innra ferðalag eða kallast í það minnsta á við þann þroska sem persónan tekur út á þessari leið. Það á við um þetta verk, hér er það hið innra ferðalag sem allt snýst um.

Ævintýri ferðalanganna eru ýkt og ótrúverðug sem gefur til kynna að ferðalagið gerist frekar innra með sögumanni en í raunheimi. Verkið fetar þannig stíg á mörkum ímyndunar og veruleika og þegar þeir tveir heimar mætast vaknar verkið til lífsins.

Samspil þessara þriggja persóna, sögumannsins, vinarins og hjúkrunarkonunnar, er það sem gerir verkið áhugavert. Hvert þeirra virðist fulltrúi ákveðins hluta sjálfsmyndarinnar sem gerir átökin þeirra á milli athyglisverð. Lesi maður verkið með þetta í huga opnar það á ýmsar túlkunarleiðir. Í átökum þessara persóna er afar mikið um líkamlegt ofbeldi, sem er líklega ætlað að vera birtingarmynd innri átaka, á afar gróteskan hátt.

Það er einn helsti gallinn við þessa bók hversu mjög manni stendur á sama um persónur bókarinnar og þar með verður erfitt að halda einbeitingu og fyllast forvitni um sögulok. Hefði maður hrifist með þessum persónum, og viljað standa með þeim, hefði verkið verið mun áhrifaríkara.

Þótt hugmyndin að verkinu sé ágæt er ekki þar með sagt að lestrarupplifunin sé endilega góð. Það eru ef til vill einhverjir sem ná betri tengingu við frásagnarmátann en það átti ekki við um mig. Framan af leiddist mér en svo fór að birta til þegar líða fór á.

Hjúkrunarkonan spyr sögumanninn þegar um þrír fjórðu verksins eru búnir: „Hvar er sagan í þessu hér? Hvar er afþreyingin?“ Svo höfundur virðist að einhverju leyti meðvitaður um þau áhrif sem verkið hefur á lesandann og stendur með því vali. En það er því miður ekki nóg að verkið gangi upp undir lok þess, það verður að halda athygli manns þangað til og ég er ekki viss um að það takist hér.

Sagan á ágæta spretti hér og þar, það er til dæmis áhrifarík sena þar sem trúbador er fenginn til þess að spila í veislu en er tekið afar illa. Það er eitt af fyrstu atriðunum sem varpa ljósi á umfjöllunarefni verksins og gerir lestur þess auðveldari og hugmyndir þess skiljanlegri.

Þetta er óvenjuleg leið til þess að nálgast umræðuna um geðræn vandamál og því ber auðvitað að fagna að sú umræða fái pláss í skáldskap samtímans en ég er ekki sannfærð um að úrvinnslan í þessu verki sé nógu vel heppnuð til þess að skila til lesandans þeim áhugaverðu blæbrigðum sem tilraun var gerð til að miðla. Konseptið er ágætt en framkvæmdin ekki fullnægjandi.

Þá hefði verkið haft gagn af einum prófarkalestri til, sérstaklega vegna þeirra undarlegu línuskiptinga sem finna má á nokkrum stöðum og eru truflandi þótt sumar veki vissulega ákveðna kátínu.

Kolbeinsey ætla ég að útnefna ólíkindatól jólabókaflóðsins, það er kynlegur kvistur sem er ekki allur þar sem hann er séður. Bergsveinn hefur löngu sannað að hann er snjall höfundur en að þessu sinni tókst mér ekki að sjá snilldina í verkinu, nema kannski þegar það var löngu orðið of seint.

Ragnheiður Birgisdóttir

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir