Petrína Mjöll Jóhannesdóttir
Petrína Mjöll Jóhannesdóttir
Eftir Petrínu Mjöll Jóhannesdóttur: "Það er ýmislegt hægt að gera til þess að takast á við jólaóróann og njóta þessa árstíma betur."

Jólin nálgast og við verðum sífellt meira vör við það þessa dagana. Fjölmiðlar básúna að jólin séu á næsta leiti. Jólaljósin virðast spretta á runnum og trjám og vefja sig um þakskegg og glugga. Búðirnar fyllast af vörum sem tilheyra þessum tíma og fjölskyldu-, vina- og vinnuhópar skipuleggja jólasamverustundir. Spennan magnast dag frá degi fyrir þennan tíma sem getur verið svo yndislegur og gefandi en er það ekki í huga allra.

Það hlakka nefnilega ekki allir til jólanna. Þvert á móti finnst mörgum þessi árstími vera erfiður og kvíða honum af ýmsum ástæðum. Margir upplifa mikla streitu á þessum tíma vegna ýmiss konar væntinga sem erfitt er að uppfylla. Minningar um fyrri jól sækja á sem ekki eru allar góðar og það reynir mikið á fjölskyldutengsl sem eru allavega. Sumir hafa misst ástvini, aðrir skilið við maka sína og ýmsir upplifað ósætti og vinslit sem hefur áhrif á jólahaldið. Það eiga ekki heldur allir fjölskyldu til að vera með um jólin og margir eru einmana. Fólk upplifir líka gjarnan depurð á þessum árstíma og skilur ekki alltaf hvers vegna. Og þegar skilaboðin í umhverfinu eru öll á þá lund að öllum líði svo vel á jólum þá getur fólki sem hlakkar bara alls ekkert til jólanna liðið enn verr. Þess vegna getur verið gott að ræða um líðan sína við góðan vin eða einhvern sem við treystum fyrir tilfinningum okkar. En það getur verið vandasamt því að fólk sem nýtur þessa árstíma á stundum erfitt með að skilja þau sem gera það ekki. Í gegnum tíðina hafa margir leitað til kirkjunnar í sálgæslu vegna jólaóróans sem ólgar hið innra en nú í fyrsta skipti verður boðið til sérstakra stuðningssamverustunda fyrir fólk sem kvíðir jólum. Þær verða á þriðjudögum í Seljakirkju í Breiðholti frá 23. nóvember til 21. desember og öllum opnar sem vilja leita sameiginlega að leiðum að betri líðan, nú þegar jólin nálgast.

Það er ýmislegt hægt að gera til þess að takast á við jólaóróann og njóta þessa árstíma betur. Með fræðslu, umræðum og stuðningi er hægt að finna leiðir til þess að mæta jólaóróanum og skynja innri sátt og gleði.

Höfundur er prestur í Árbæjarkirkju. petamjoll66@gmail.com