Maverik Cruise í hinni víðfrægu Top Gun.
Maverik Cruise í hinni víðfrægu Top Gun.
Ég er hörmulegur í spurningaspilum, á það til að frjósa og muna ekkert, sama hversu auðveld spurningin er. Þetta vita vinir og vandamenn og hafa oft orðið vitni að hörmulegu klúðri og minnisleysi.

Ég er hörmulegur í spurningaspilum, á það til að frjósa og muna ekkert, sama hversu auðveld spurningin er. Þetta vita vinir og vandamenn og hafa oft orðið vitni að hörmulegu klúðri og minnisleysi. Öðru máli gegnir um spurningakeppni í útvarpi, þar er ég á heimavelli enda enginn þrýstingur því ég er ekki að keppa. Í spurningakeppni fjölmiðlanna hef ég rúllað upp heilu lotunum.

Á laugardaginn var fór í loftið fyrsti þáttur Heilahristings með nýju þema, sjónvarpsefni og kvikmyndum. Þar sem ég hef alla tíð verið mikill sjónvarps- og bíómyndaglápari átti ég von á því að rúlla honum upp sem reyndist vera rétt. Ég bara kunni öll svörin nema kannski tvö. Ég var óskaplega ánægður með mig og hæddist að keppendum þegar þeir vissu ekki svörin.

Ein spurning í seinni hluta keppninnar komst nærri því að æra mig og ég byrjaði að garga á útvarpið. Spurning úr flokknum Tom Cruise var borin upp og eitt stig í boði enda spurningin afar létt. Spurt var um kvikmynd þar sem Cruise gekk undir gælunafninu Maverick og flestar aðrar persónur voru sömuleiðis með gælunöfn, t.d. Goose, Iceman og Viper. Top Gun!! æpti ég á viðtækið en liðið sem átti að svara þagði bara. Top Gun!!! Halló!!! Eftir drykklanga stund kom loksins svarið. Top Gun. Já, en ekki hvað?!! Stundum er álagið of mikið við að hlusta á spurningaþætti.

Helgi Snær Sigurðsson