[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Sigurbjörnsson fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1931, á Fjölnisvegi 2 og þar bjó hann fram á fullorðinsár. „Ég er yngstur ellefu systkina og eru þau öll tíu látin. Það má segja að líf mitt hafi verið meira og minna dans á rósum.

Björn Sigurbjörnsson fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1931, á Fjölnisvegi 2 og þar bjó hann fram á fullorðinsár. „Ég er yngstur ellefu systkina og eru þau öll tíu látin. Það má segja að líf mitt hafi verið meira og minna dans á rósum. Foreldrar mínir umvöfðu mig ást og kærleika og systkinin sýndu mér mikla væntumþykju og umburðarlyndi því strax í frumbernsku var ég mjög fróðleiksfús. Það var oft fjörugt á Fjölnisveginum en ekki síður á Kiðafelli í Kjós, sem má segja að séu átthagar mínir.“

Björn settist fyrst á skólabekk í Grænuborg, sem var undanfari Ísaksskóla. Síðan lá leiðin í Austurbæjarskóla og Menntaskólann í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá máladeild 1951 og búfræðiprófi frá Hvanneyri árið eftir. „Auk námsins lék ég fyrir dansi í hljómsveitinni Brak og brestir í félagsheimilum í Borgarfirði. Þá var ýmist leikið á gítar, harmóniku eða píanó.“ Björn hélt námsferlinum áfram erlendis, lauk BS-prófi og síðar meistaraprófi í búvísindum frá Manitoba-háskóla í Kanada 1957 og doktorsprófi í plöntuerfðafræði frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum 1960. „Námið sóttist mér vel og fékk ég ýmsar viðurkenningar. Það er ekki síst elsku Helgu eiginkonu minni til 52 ára að þakka, en hún studdi mig alltaf með ráðum og dáð.“

Sem unglingur vann Björn ýmis störf, þar á meðal stjórnaði hann stórri gröfu við skurðgröft á Mýrum 15 ára gamall. Eftir nám var Björn sérfræðingur í jurtakynbótum við atvinnudeild Háskóla Íslands til 1963. „Um tíma vann ég við gróðurrannsóknir í Gunnarsholti undir dyggri stjórn Páls Sveinssonar sandgræðslustjóra. Ýmsar tegundir voru reyndar til uppgræðslu svo sem melgresi sem ég tók fyrir í doktorsverkefni mínu í jurtakynbótum. Enn er verið að leita leiða til að græða landið okkar. Lúpínan hefur gert mikið gagn en hefur verið ansi ágeng að ýmissa mati, en falleg er hún í blóma.“

Árið 1963 fluttist Björn með Helgu konu sinni og Unni Steinu dóttur þeirra til Vínarborgar, þar sem hann var ráðinn til Alþjóðakjarnorkumálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, IAEA, sem var að hefja hagnýtingu á friðsamlegri notkun kjarnorku og geislavirkra efna, m.a. í jurtakynbótum. Þegar stofnuð var sameiginleg deild Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar (FAO) og Kjarnorkumálastofnunarinnar varð Björn deildarstjóri í jurtakynbótadeildinni og stjórnaði verkefnum víða um heim. Fjölskyldan fluttist heim þegar hann varð forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 1974-1983. Enn lá leiðin til Vínarborgar þegar Björn tók við forstjórastöðu í sinni gömlu stofnun hjá Sameinuðu þjóðunum sem hann gegndi til 1995 er hann varð ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu til 2000.

„Á vegum Sameinuðu þjóðanna tók ég þátt í grænu byltingunni svokölluðu sem snerist um að hjálpa fátækustu þjóðum heims til þess að verða sjálfbjarga með matvælaframleiðslu. Með jurtakynbótum á hrísgrjónum tókst okkur að skeyta A-vítamíni í hrísgrjón og draga úr tíðni blindu hjá börnum. Eins var með erfðabreytingum á skordýrum hægt að útrýma tse-tse-flugu, sem bar mjög alvarlega svefnsýki.“ Björn hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir þessi störf og var m.a. gerður að heiðursprófessor við kínversku landbúnaðarakademíuna.

„Skíðaferðir voru mikið stundaðar í Austurríki og fórum við Helga og Unnur mjög oft í slíkar ferðir með vinum okkar til Tauplitz, Kitzbühel og víðar. Á Íslandi voru skíðaferðir tíðar í Kerlingarfjöll. Ég hef lifað góðu lífi við leik og störf alla ævi og eignast fjölda vina. Skólasystkin frá MR 1951 eru mér sérstaklega hjartfólgin.

Eftir að ég hætti að vinna hef ég haft nóg að gera. Ég hef haft gaman af því að ferðast, hitta vini og fjölskyldu, að spila á píanó og að teikna og mála,“ en Björn hélt bæði málverkasýningu í Eyrarkoti í Kjós fyrir nokkrum árum og tók þátt í sýningu á vegum Norræna vatnslitafélagsins í Norræna húsinu 2017.

„Nú er mitt heimili á Droplaugarstöðum og þar bý ég við gott atlæti. Anna eiginkona mín og Unnur Steina einkadóttir mín koma daglega. Barnabörnin mín, vinir mínir og fjölskylda líta einnig inn, mér til mikillar ánægju. Ég hef notið sannkallaðrar hamingju og nýt þess að umgangast konu mína, dóttur, tengdason og börn þeirra auk dætra Önnu og fjölskyldna þeirra. Ég hef átt viðburðaríka ævi og leyfi mér að taka í munn orð föður míns: „Himneskt er að lifa.“

Fjölskylda

Fyrri eiginkona Björns var Helga Ingibjörg Pálsdóttir, f. 20.5. 1930, d. 3.8. 2004, bókavörður. Dóttir Björns og Helgu er Unnur Steina, f. 6.1. 1959, læknir. Hún er gift Kristni Hauki Skarphéðinssyni dýravistfræðingi. Börn þeirra eru Björn, f. 1994, saxófónleikari, og Kristín Helga, f. 1995, BS í þroskaþjálfunarfræðum.

Seinni eiginkona Björns er Anna Pálsdóttir, f. 20.5. 1947, lífeindafræðingur. „Sá frægi draugur Móri hefur fylgt fjölskyldum okkar Önnu en hann var sendur til Korts Þorvarðarsonar, ættföður Kortsættarinnar. Sagan segir að vonbiðill Ingibjargar konu Korts hafi sent hann þegar hann varð að láta í minni pokann fyrir Kort.“ Dætur Önnu eru: 1) Ólöf Bolladóttir, f. 15.7. 1964, sérkennari, gift Guðmundi L. Pálssyni tannlækni. Þau eiga fjögur börn og sex barnabörn; 2) Ingibjörg Hanna Pétursdóttir f. 26.4. 1970, hönnuður, gift Bas Mijnen stærðfræðingi. Þau eiga tvær dætur; 3) Hrafnhildur Pétursdóttir, f. 1.4. 1977, sálfræðingur, gift Thijs Jacobs BMus-gítarleikara. Þeirra dætur eru líka tvær.

Alsystkin Björns voru Friðrik, Ástríður og Áslaug. Hálfsystkin hans voru Kristín (Ninna), Sólveig(Lóló), Þorkell (Bóbó), Birna (Binna), Hanna, Hjalti og Helga. Móðir þeirra var fyrri eiginkona Sigurbjörns, Gróa Bjarnadóttir. Hún lést í spænsku veikinni 1918.

Foreldrar Björns voru hjónin Sigurbjörn Þorkelsson, f. 25.8. 1885, d. 4.10. 1981, kaupmaður í Vísi, síðar forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, og Unnur Haraldsdóttir, f. 29.10. 1904, d. 14.7. 1991, húsfreyja.