Framkvæmdir við að færa háspennulínuna austan við Jökulsárlón frá sjónum eru langt komnar. Sjórinn var farinn að grafa undan vissum staurastæðum. Er þetta í annað sinn sem línan á þessu svæði er færð frá sjónum.
Landsnet hefur lengi fylgst með Hnappavallalínu 1 við Jökulsárlón. Á árinu 2014 voru stæður færðar en ekki upp fyrir veg vegna þess að þáverandi landeigendur samþykktu ekki svo mikla færslu, samkvæmt upplýsingum Landsnets. Sjórinn heldur áfram að sarga af ströndinni og nú er Landsnet að flytja staurana upp fyrir veg, á þann stað sem þeir óskuðu eftir á sínum tíma. Landið er komið í eigu ríkisins, telst til Vatnajökulsþjóðgarðs. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að unnið hafi verið að málinu í góðu samstarfi við landverði.
Tengt næstu daga
Unnið er þannig að verkinu að byggðar eru tíu nýjar straurastæður. Þannig er hægt að lágmarka straumleysi notenda. Þær gömlu verða rifnar síðar nema hvað sú sem er alveg að lenda í sjónum verður rifin strax.Búið er að reisa staurastæðurnar og strengja víra. Unnið er að frágangi. Einhvern næstu daga verða nýju stæðurnar tengdar við þá gömlu.
Kostnaður við verkið er áætlaður 68 milljónir króna. helgi@mbl.is