Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Forvitnileg sýning með ljósmyndum Jóns Kaldals af verkum eftir Mugg verður opnuð í dag, laugardag. Sýningin hefur verið sett upp á Fjölnisvegi 7 og er opin frá kl. 14 til 18. Um er að ræða sölusýningu á vegum Sveins Þórhallssonar og stendur hún til 13. desember.
Sýningin samanstendur af fjörutíu ljósmyndum af myndverkum Guðmundar Thorsteinssonar – Muggs (1891-1924), sem Jón Kaldal ljósmyndari (1896-1981) var fenginn til að taka árið 1926 eða skömmu eftir að hann hóf störf sem ljósmyndari í Reykjavík. Honum var falið að mynda verk Muggs fyrir útgáfu bókar um listamanninn eftir Poul Uttenreitter sem þá var í smíðum og kom síðan út árið 1930.
Myndirnar eftir Kaldal fundust árið 2019 við uppgjör á dánarbúi Sverris Schevings Thorsteinssonar og Sveinn festi síðan kaup á þeim. Þær hafa verið í geymslu síðan 1926 og því fyrst til sýnis núna.
Þess má geta að um þessar mundir má sjá veglega yfirlitssýningu á verkum Muggs á Listasafni Íslands og eru mörg verkanna sem Kaldal myndaði á þeirri sýningu. Í kynningartexta um sýninguna á Listasafninu segir að á stuttum ferli hafi Muggur náð „að skapa einstakan og persónulegan myndheim. Stíll hans var natúralískur og frásögn oftar en ekki í fyrirrúmi, verk hans einkennast af fjölbreytileika og leit að listrænu frelsi.“ Muggur var fjölhæfur listamaður og starfaði bæði sem leikari og söngvari. Hann lék meðal annars aðalhlutverkið í kvikmyndinni Saga Borgarættarinnar sem frumsýnd var árið 1920.
Jón Kaldal var einn þekktasti ljósmyndari þjóðarinnar og rak ljósmyndastofu við Laugaveg í 49 ár. Eftir hann liggja meðal annars portrettmyndir af mörgum merkum Íslendingum og ekki síst listamönnum, til dæmis af Jóhannesi S. Kjarval, Steini Steinarr, Finni Jónssyni og Ástu Sigurðardóttur. Hvað varðar þessar ljósmyndir hans af verkum eftir Mugg er hins vegar um iðnaðarljósmyndun af hans hálfu að ræða. Myndirnar eru þó allar áritaðar af Kaldal.