Fallegur flækingur Húmskríkjan sem sást á Stafnesi í haust.
Fallegur flækingur Húmskríkjan sem sást á Stafnesi í haust. — Ljósmynd/Guðmundur Falk
Allstór hópur á Suðurnesjum stundar fuglaskoðun reglulega, skráir og myndar fuglana sem ber fyrir augu. Aðrir eru ekki svo skipulagðir, en hafa yndi af því að skoða fugla, íslenska sem og erlenda flækinga, þegar tækifæri gefast.

Allstór hópur á Suðurnesjum stundar fuglaskoðun reglulega, skráir og myndar fuglana sem ber fyrir augu. Aðrir eru ekki svo skipulagðir, en hafa yndi af því að skoða fugla, íslenska sem og erlenda flækinga, þegar tækifæri gefast.

Guðmundur Falk fuglaljósmyndari fylgist með fuglunum flesta daga ársins og segir talsverða samvinnu á milli manna. Einnig samkeppni um að sjá forvitnilegustu fuglana. Hann segir að í ár hafi margir spennandi fiðraðir gestir heimsótt Reykjanesið og nefnir sérstaklega að hann hafi rekist á húmskríkju á Stafnesi í haust. Það hafi aðeins verið í annað skipti sem hún sást hér á landi.

Fram undan er að stofna félag áhugafólks um fuglaskoðun á Suðurnesjum og verður stofnfundur haldinn 8. desember í samkomusal Kiwanisklúbbsins Keilis á Iðavöllum 4a, Keflavík. Guðmundur gerir sér vonir um að sem flestir mæti og skrái sig sem stofnfélaga. Á fundinum verður farið yfir tilgang félagsins og kosið í stjórn. Kaffi og kleinur verða á boðstólum að góðum íslenskum sið.