Allir sem fylgjast með smarta fólkinu í öllum smörtu löndunum vita að það fólk er síupptekið við að njóta . Fyrirsagnirnar eru svona: „Telma og Sara og kærastarnir nutu við Garda-vatn“ (nöfnum breytt). Hvort unga fólkið er að njóta lífsins, njóta fríðinda, hæfileika sinna eða veðurblíðunnar kemur ekki fram. Ég veit ekki hvað svona stytting heitir, að sleppa fallorðinu sem sögnin vísar til, en orðabækur sammælast um að þessi sögn taki með sér eignarfall, að njóta e-s. En e-s er hvergi að finna.
Svipað mynstur hefur myndast í kringum fleiri lífsnautnir: „Ef ég hef verið dugleg í ræktinni, þá leyfi ég mér.“ Leyfir þú þér hvað, leyfist að spyrja? Smá sætindi? Að svindla á matarkúrnum? (Orðabók hvíslar: að leyfa sér e-ð.)
Ég held að ég hafi spottað hérna trend , og að það sé fremur nýtt af nálinni. Sjálf datt ég í gildruna þegar ég auglýsti spennandi viðburð á félagsmiðli og skrifaði: Mæli með. (Mæli með þessu var ekki nógu svalt.)
Nú má ekki halda að þessi tilhneiging, að sleppa botninum úr föstu orðalagi, sé bundin við smartlöndin, eða ég vilji hengja bakara þeirra fyrir smiði trendsins. Svo er alls ekki – þetta sést víðar. Nýverið var t.d. auglýstur fyrirlestur „um mikilvægi þess fyrir börn og unglinga að tilheyra“, en hvergi tekið fram hverju þau ættu að tilheyra, hóp, samfélagi, tíðaranda. (Tilheyra e-m.) Í samtali um umhverfismál ræddi sérfræðingur um „hvort við viljum losa minna eða hvernig við viljum losa“. Hann átti við það sem heitir fullum fetum að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið (að losa e-ð). Svipað má merkja í viðfangsefni sem er ofarlega á baugi þessa dagana: „Grunur lék á að konu hafi verið byrlað á Stúdentakjallaranum í gærkvöld.“ Sem betur fer erum við ekki mjög vön að orða grunsemdir okkar um að fólk byrli öðru fólki ólyfjan eða eitur, en einnig hér virðist andlagið vanta – að byrla e-m e-ð – mögulega vegna þess að ekki er alltaf vitað hvað það er. Þó held ég að orðalagið yrði svona samt. Þannig veltur þetta áfram – nú síðast í aðventuviðtali við fyrrverandi prest sem skv. vefkynningu „hefur um árabil unnið með fólki sem hefur misst og talaði við [blaðið] um það sem hann hefur lært...“ Að fólkið hafi misst ástvin leiðir kannski af sjálfu, orðalagið er samt óvenju tómlegt.
Óþarft er að taka fram að ég hef ekkert við innihald þeirra fregna sem ég vitna í að athuga – punkturinn er að hinum nýstárlegu styttingum er beitt blátt áfram og hversdagslega, óháð málefni, tilefni og aldurshópum. M.ö.o. virðist tilhneigingin komin inn í málið. Hvort hún er smit úr öðrum málum eða innbyggð tilraun til einföldunar veit ég ekki, það er heimaverkefni eða heitapottsfóður. Í sama anda ætlaði ég að vera sniðug og enda á því að „óska ykkur gleðilegra“! En kannski virkar svona stýfing ekki á öll orðasambönd. Það kemur í ljós með tímanum.
Sigurbjörg Þrastardóttir sitronur@hotmail.com