Kommúnistaflokkurinn á Kúbu heldur áfram að stjórna í krafti kúgunar og yfirgangs

Efnahagslíf Kúbu er aðþrengt og krafan um breytingar á eyjunni verður sífellt háværari. Undanfarið ár hefur farið fordæmalaus alda mótmæla um landið og eyjarskeggjar skella skuldinni af öllu sem á bjátar á kommúnistaflokkinn.

Þetta er staðan á Kúbu fimm árum eftir andlát Fidels Castros, sem leiddi byltinguna á eyjunni árið 1959.

Á Kúbu er komin fram ný kynslóð, sem kölluð er barnabörn byltingarinnar, og hún krefst meira frelsis og réttinda, lýðræðis og efnahagslegra tækifæra. Netið og félagsmiðlar, sem héldu innreið sína fyrir þremur árum, eiga sinn þátt í þeirri sprengingu, sem orðið hefur á Kúbu.

Yfirvöld taka enn harkalega á andófsmönnum. Í nóvember flúði Yunior Garcia, sem leitt hefur mótmæli gegn kúbönskum yfirvöldum, til Spánar vegna þrýstings stjórnvalda. Hann játti því að brottför sín væri áfall fyrir stjórnarandstöðuna í landinu, en hann hefði yfirgefið Kúbu af því að við sér hefði blasað „lifandi dauði“ og bætti við: „Ég mun að endingu fyrirgefa sjálfum mér fyrir að hafa ekki haft hugrekki til að verða að steini eða breytast í bronsstyttu,“ sagði hann.

Garcia hafði setið undir linnulausum árásum í kúbönskum ríkisfjölmiðlum og í bloggi vinveittu stjórnvöldum vegna mótmæla, sem hann hafði skipulagt. Mótmælin voru bönnuð og þegar hann hugðist ganga einn síns liðs var honum meinuð útganga úr íbúð sinni. Konu hans var hótað að hún myndi missa vinnu sína.

Íbúar Kúbu hafa þurft að ganga í gegnum margar hremmingar vegna stjórnarfarsins í landinu. Kommúnistaflokkurinn heldur áfram að stjórna í krafti kúgunar og yfirgangs. Það er kominn tími til þess að hann átti sig á því að byltingin er í öngstræti, losi um tökin og leyfi nýrri kynslóð að njóta sín frekar en að hrekja hana úr landi.