Covid-19 Þessir Lundúnabúar biðu í gær eftir því að fá örvunarskammt.
Covid-19 Þessir Lundúnabúar biðu í gær eftir því að fá örvunarskammt. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO varaði við því í gær að ríki heims ættu að búa sig undir mikla fjölgun tilfella Covid-19 á næstunni vegna Ómíkron-afbrigðisins, sem nú hefur greinst í 38 löndum í öllum heimsálfum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO varaði við því í gær að ríki heims ættu að búa sig undir mikla fjölgun tilfella Covid-19 á næstunni vegna Ómíkron-afbrigðisins, sem nú hefur greinst í 38 löndum í öllum heimsálfum. Enn hefur þó ekki verið staðfest neitt dauðsfall af völdum afbrigðisins, en Christian Lindmeier, talsmaður WHO, sagði í gær að gagnaöflun um afbrigðið og feril þess síðustu vikurnar væri enn í gangi, og því gæti það breyst.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Ástralíu tilkynntu í gær um fyrstu innanlandssmitin sem rekja megi til afbrigðisins, en frumniðurstöður rannsókna í Suður-Afríku, þar sem afbrigðið kom fyrst fram, benda til þess að fólk sem hafi áður smitast sé þrisvar sinnum líklegra til þess að smitast á ný af Ómíkron-afbrigðinu en fyrri afbrigðum.

Nú er um vika liðin frá því að Ómíkron-afbrigðið var sett á sérstakan válista hjá WHO. Segja sérfræðingar stofnunarinnar að enn gætu liðið nokkrar vikur þar til hægt verði að skera úr um hvort afbrigðið sé meira smitandi en Delta-afbrigðið og þá hvort það valdi verri einkennum en fyrri afbrigði.

Michael Ryan, framkvæmdastjóri neyðardeildar WHO, sagði í gær að stofnunin myndi fá þessi svör fljótlega. „Við þurfum að treysta vísindum, vera þolinmóð og ekki óttaslegin,“ sagði Ryan.

Fleiri börn á sjúkrahús

Í Suður-Afríku hefur tilfellum kórónuveirunnar fjölgað ört í þessari viku, og greindust nú um fjórfalt fleiri með Covid-19 í landinu en í síðustu viku. Þá hafa fleiri börn yngri en tólf ára gömul þurft að leggjast inn á sjúkrahús í landinu en í fyrri bylgjum.

Enn er þó of snemmt að fullyrða hvort afbrigðið eigi auðveldara með að smitast milli barna en fyrri afbrigði, þar sem bólusetning fyrir börn yngri en tólf ára er ekki hafin í landinu. Þá flækir það mat á áhrifum afbrigðisins í Suður-Afríku að einungis um fjórðungur íbúa þar hefur verið bólusettur gegn veirunni.

Í nágrannaríkinu Simbabve hefur tilfellum einnig fjölgað mjög mikið, þrátt fyrir að hert hafi verið mjög á sóttvarnaaðgerðum vegna Ómíkron-afbrigðisins. Þar greindust 1.042 ný tilfelli í gær, en fyrir tveimur vikum voru dagleg tilfelli einungis um 20 talsins.

Sautján smitaðir í jólaboði

Talið er að minnst sautján manns hafi smitast af Ómíkron-afbrigðinu í fjölmennu jólaboði sem haldið var í Ósló, höfuðborg Noregs, á föstudaginn í síðustu viku. Er smitrakning enn í gangi, en rúmlega hundrað manns sóttu boðið. Voru allir bólusettir, en einn gesta var nýkominn heim frá Suður-Afríku. Þá höfðu allir tekið heimapróf og voru því engar reglur brotnar í boðinu.

Allir hinir smituðu hafa enn sem komið er einungis mild einkenni á borð við höfuðverk, hálsbólgu og hósta, en allir tilheyra aldurshópum sem taldir eru í minni hættu á að þróa með sér alvarleg einkenni. Hafa sóttvarnaaðgerðir verið hertar í Ósló vegna hópsmitsins.