Heimsókn Vladimir Pútín, forseti Rússlands, heimsótti GES-2-miðstöðina og skoðaði meðal annars sýningar Ragnars Kjartanssonar sem þar hafa verið settar upp. Hér eru Pútín, Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, og Leonid Mikhelson, eigandi miðstöðvarinnar, fyrir framan verkin sem Ragnar málaði á Feneyjatvíæringnum 2009.
Heimsókn Vladimir Pútín, forseti Rússlands, heimsótti GES-2-miðstöðina og skoðaði meðal annars sýningar Ragnars Kjartanssonar sem þar hafa verið settar upp. Hér eru Pútín, Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, og Leonid Mikhelson, eigandi miðstöðvarinnar, fyrir framan verkin sem Ragnar málaði á Feneyjatvíæringnum 2009. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umfangsmiklar sýningar Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns, bæði með hans eigin verkum og sem hann hefur valið verkin á, verða opnunarsýningar nýrrar og stórrar myndlistarmiðstöðvar í Moskvu í dag.

Umfangsmiklar sýningar Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns, bæði með hans eigin verkum og sem hann hefur valið verkin á, verða opnunarsýningar nýrrar og stórrar myndlistarmiðstöðvar í Moskvu í dag. Stofnunin nefnist V-A-C Foundation og er í GES-2 menningarhúsinu, fyrrverandi orkuveri nærri Kreml, sem stofa stjörnuarkitektsins Renzo Piano hefur hannað breytingarnar á. V-A-C Foundation var stofnuð árið 2009 af rússneska milljarðamæringnum Leonid Mikhelson og Teresu Iarocci Mavica.

Ragnar er höfundur tveggja stórra innsetninga í stofnuninni. Önnur þeirra, Santa Barbara , er kynnt sem lykilsýning fyrsta starfsársins í byggingunni. Verkið er innblásið af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara, og unnið í samstarfi við upprunalega höfunda hennar. Ásamt leikstjóranum og hópi rússneskra leikara og tæknimanna stýrir Ragnar endurgerð 98 þátta úr seríunni, og verður einn tekinn upp daglega fyrir framan sýningargesti. Santa Barbara var fyrsta bandaríska sápuóperan sem sýnd var í Rússlandi eftir að Sovétríkin liðuðust sundur og voru þættirnir sýndir á árunum 1992 til 2002. Ragnar segir þættina hafa skipt miklu máli fyrir menningarsögu Rússa í dag og hafa boðað nýjan anda í fyrrverandi Sovétríkjum, áhrif innflutts „melódrama“.

Samhliða framleiðslu og sýningu sjónvarpsþáttanna Santa Barbara hafa Ragnar og Ingibjörg Sigurjónsdóttir sett saman sýninguna Til Moskvu! Til Moskvu! Til Moskvu! Heitið vísar til frægrar línu í leikriti Antons Tsjekhovs, Þrjár systur , þar sem þessi endurtekna ósk um að fara til Moskvu verður táknmynd löngunar eftir breytingum og þess að lífið öðlist merkingu. Á þeirri sýningu er úrval verka eftir Ragnar, auk verka eftir fjölbreytilegan hóp samtímalistamanna sem hann hefur hrifist af, unnið með eða sem hafa haft áhrif á hans eigin sköpun. Verkin eru eftir Ragnar, Ingibjörgu, Hildigunni Birgisdóttur, Pál Hauk Björnsson, Theaster Gates, Unu Björgu Magnúsdóttur, Jason Moran, Ragnar Helga Ólafsson, Dick Page, Elizabeth Peyton, Magnús Sigurðarson, Curver Thoroddsen, Guðmund Thorsteinsson – Mugg, Emily Wardill, Roni Horn, Olgu Chernyshyova, Carolee Schneemann og Unnar Örn.