— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hver ert þú, Bergdís? Ég er sjálfstætt starfandi leikkona, útskrifuð frá Rose Bruford-skólanum í Bretlandi.
Hver ert þú, Bergdís?

Ég er sjálfstætt starfandi leikkona, útskrifuð frá Rose Bruford-skólanum í Bretlandi. Ég stofnaði leikhópinn Spindrift með bekkjarsystkinum mínum þar, en í dag erum við sex virkar í leikhópnum; þrjár íslenskar og þrjár finnskar leikkonur.

Hvaða málefni fjallið þið um?

Manneskjan er í fyrirrúmi og ímynd hennar og erum við mikið að skoða kvennasögur. Oft eru þessar sögur tabú. Við leikum á ensku, það er vinnutungumálið okkar, en höfum líka notað íslenskuna stundum í bland.

Verkið THEM, hver er hugmyndin að baki því?

Um er að ræða sviðsverk í vinnslu sem fjallar um eitraða karlmennsku og hvernig hún lifir inni í okkur. Við tókum viðtöl við fjölda karlmanna sem við byggjum verkið á, en auðvitað erum við ekki hlutlausar sem konur með okkar sjónarmið líka. Við áttum falleg og góð viðtöl við fólk sem skilgreinir sig sem karlkyns.

Er þetta ein saga eða margar?

Þetta eru nokkrar sögur og leikum við allar nokkrar persónur, jafnt konur sem menn.

Verður þetta sýnt oftar?

Já, sýningarnar á sunnudag eru eins konar forsýningar en hin eiginlega frumsýning verður í júní á Reykjavík Fringe Festival og svo túrum við með verkið á fleiri Fringe-hátíðum erlendis. Vonandi fáum við svo að sýna það áfram ef við fáum styrki.

Er þetta gamanverk eða drama?

Það er blanda, þetta er mjög kómískt en getur líka snert við fólki.

Tvær sýningar á THEM, samið af norræna leikhópnum Spindrift Theatre, fara fram í Dansverkstæðinu sunnudagskvöldið 5. desember kl. 18 og 21. Grímuskylda er og tólf ára aldurstakmark en ekki þarf að fara í hraðpróf. Miðar fást á tix.is.